Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 18:37:03 (7294)

1998-06-02 18:37:03# 122. lþ. 141.18 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál. 26/122, LB
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[18:37]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hluta umhvn. auk þess sem ég mæli fyrir brtt. frá sama minni hluta.

Virðulegi forseti. Tillagan sem hér er rædd felur í sér að tekin er afstaða með auðlindagjaldi. Með því að mæla með samþykkt hennar hafa þingflokkar Alþýðubandalags, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekið jákvæða afstöðu til grunnhugmyndarinnar um auðlindagjald, lýst sig reiðubúna til þess að skoða hvernig með sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar skuli farið og ,,hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar,`` eins og segir orðrétt í nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar, þar sem mælt er með samþykki tillögunnar. Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi, þótt seint séu á ferðinni, og eru til sannindamerkis um að baráttan fyrir samræmdu auðlindagjaldi fyrir afnot af takmörkuðum auðlindum í sameign þjóðarinnar, sem háð hefur verið á undanförnum árum á opinberum vettvangi af jafnaðarmönnum og kvennalistakonum, hefur ekki aðeins fundið sívaxandi hljómgrunn meðal áhrifamikilla fjölmiðla, félagasamtaka og almennings í landinu heldur einnig breytt viðhorfum stjórnmálaflokka sem allt fram að þessu hafa verið alfarið andvígir slíkum sjónarmiðum. Ekki er aðeins kominn brestur í andstöðuna gegn auðlindagjaldi, sem hófst með tillöguflutningi um veiðileyfagjald í sjávarútvegi, heldur hafa nú allir þingflokkar á Alþingi lýst yfir vilja sínum til þess að kanna hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar eins og tillagan ber með sér.

Þau stjórnmálasamtök, sem fulltrúa eiga á Alþingi og hafa sum hver fyrir margt löngu lýst fylgi við auðlindagjald, eru Alþýðuflokkur, Þjóðvaki og Kvennalisti. Eins og kemur fram í tillöguflutningi þingmanna þessara stjórnmálasamtaka á Alþingi hafa þau lokið athugun sinni á öllum framkvæmdaatriðum málsins. Auðlindir í sameign þjóðarinnar innan efnahagslögsögunnar --- í hafinu og í og á sjávarbotni --- eru nú þegar skilgreindar í lögum og auðlindir í jörðu og á eru skilgreindar í frumvarpi til laga um auðlindir í jörðu sem flutt er af þingmönnum jafnaðarmanna og Kvennalista. Þá hafa þessi sömu stjórnmálasamtök einnig fyrir löngu kannað hvernig staðið skuli að gjaldtökunni fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum og gert tillögur um framkvæmdina í þingmálum sem lögð hafa verið fyrir Alþingi. Í tillögum um veiðileyfagjald í sjávarútvegi sem lagðar hafa verið fyrir Alþingi er framkvæmd slíkrar gjaldtöku lýst og í frumvarpi til laga um auðlindir í jörðu og frumvarpi til laga um virkjunarrétt vatnsfalla eru settar fram skýrar tillögur um hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda í og á landi. Jafnaðarmenn og kvennalistakonur hafa því lokið heimavinnu sinni í málinu og kynnt stefnu um hvernig skilgreina skuli sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar til lands og sjávar og hvernig staðið skuli að samræmdri gjaldtöku fyrir nýtingu slíkra auðlinda.

Svo umfangsmikil og áberandi hefur umræðan verið á liðnum árum um auðlindamál og gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar að kjarni málsins, einnig hvað varðar skilgreiningar- og framkvæmdaratriði, getur ekki hafa farið fram hjá nokkrum þeim sem við stjórnmál fæst. Þeir stjórnmálaflokkar, sem fram að þessu hafa verið andvígir slíkri gjaldtöku eða ekki tekið afdráttarlausa afstöðu til málsins en hafa nú léð máls á því hvernig standa skuli að gjaldtökunni, eiga því ekki í ljósi allrar þeirrar umræðu að þurfa yfirtaks langan tíma til þess að koma sér niður á afstöðu til einberra framkvæmdaratriða. Eðlilegast væri að sjálfsögðu að flokkarnir ynnu þá heimavinnu hver fyrir sig og kynntu síðan tillögur sínar fremur en með því að fara þá leið að kjósa á Alþingi þverpólitíska nefnd til verksins. Hæpið er að svo mikil samstaða geti orðið meðal stjórnmálaflokkanna um hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar að þverpólitísk, þingkjörin nefnd geti komist að niðurstöðu um eina, sameiginlega stefnu fyrir þá alla. A.m.k. munu jafnaðarmenn ekki hverfa frá stefnu sinni í málinu fyrir atbeina nefndar sem að líkindum verður skipuð fjórum fulltrúum Sjálfstæðisflokks, tveimur fulltrúum Framsóknarflokks og einum fulltrúa frá hverjum hinna flokkanna. Stefna stjórnmálaflokka í jafnstóru máli og hér um ræðir er ákveðin af þeim sjálfum, hverjum og einum, en ekki af þverpólitískri nefnd þar sem núverandi stjórnarflokkar fara með tvo þriðju hluta atkvæða.

Þá niðurstöðu meiri hluta umhverfisnefndar að fá þingkjörinni nefnd það verkefni að skilgreina auðlindir Íslands og kanna hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar ber því fremur að skilja sem svo að fulltrúar þeirra þingflokka sem nú hafa snúist til fylgis við slíkar hugmyndir vilji njóta góðs af þekkingu og vinnu þeirra stjórnmálaafla sem þegar hafa lokið athugun málsins og kynnt tillögur sínar um framkvæmdaratriðin sem fjalla á um. Þannig má vissulega flýta fyrir því að þingflokkarnir allir fái lokið heimavinnu sinni þannig að einnig þeir sem nýlega hafa snúist til fylgis við auðlindagjald geti kynnt tillögur sínar þar um fyrir þjóðinni. Miðað við slíkt vinnulag og sé gengið út frá því að full alvara sé á ferðinni er eðlilegt að stefnt sé að því að nefndin fái lokið verki sínu fyrir næstu áramót þannig að flokkunum gefist kostur á að kynna kjósendum tillögur sínar fyrir kosningar í einhverju stærsta máli sem er og verður viðfangsefni stjórnmála á Íslandi í náinni framtíð. 2. minni hluti flytur í sérstöku þingskjali breytingartillögu þar að lútandi, sem má finna á þskj. 1465.

Fallist meiri hluti Alþingis ekki á þá tillögu, þannig að störfum nefndarinnar séu engin tímamörk sett, er það skoðun 2. minni hluta að tilgangurinn með samþykkt tillögunnar af hálfu stjórnarþingmanna sé sá einn að grafa málið um ókomin ár í nefnd í því skyni að geta komið sér hjá að taka afstöðu og í von um að hægt sé að friða fjölmarga fylgismenn málsins úr eigin kjósendahópi a.m.k. fram yfir næstu kosningar.

Þannig var krafan um þjóðareign á miðhálendinu utan landamerkja lögbýla og einkaeignar á landi grafin í nefnd í 14 ár þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Hæstaréttar um að lög yrðu sett um eign íslenska ríkisins á því landi og sérhagsmunirnir þannig varðir á kostnað almannahagsmuna í hálfan annan áratug. Verði þessi tillaga um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald samþykkt án tímamarka um lok nefndarstarfs er tilgangur þingmanna stjórnarflokkanna með því augljóslega hinn sami: að grafa málið í nefnd og þagga niður umræðuna eins lengi og framast er kostur.

Þingmenn jafnaðarmanna vilja ekki stuðla að því að væntanlegur nefndarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks geti þannig áfram varið sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna og munu því engan hlut eiga í afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig mæla hér fyrir brtt. sem er að finna á þskj. 1465 og er brtt. við till. til þál. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald frá 2. minni hluta umhvn.

1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd sem starfi til ársloka 1998 og hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita.

Virðulegi forseti. Kjarni þeirrar tillögu sem ég hef mælt fyrir er sá að kveðið verði skýrt á um það hvenær nefndin skuli hafa lokið störfum, ella er hættan sú að það mál sem án efa verður eitthvert helsta umræðuefni í náinni framtíð verði grafið í nefnd. Ég vil þó jafnframt taka það fram að ef nást mætti sátt um aðra dagsetningu en þessa, þá held ég að 2. minni hluti umhvn. og þingflokkur jafnaðarmanna sé án efa tilbúinn að koma til móts við þær hugmyndir, telji menn að sá tími sem lagt er til að nefndarstörfunum verði lokið á sé ekki nægjanlegur.