Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:47:47 (7341)

1998-06-02 23:47:47# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp í andsvari til að taka undir málflutning hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og einnig vegna þess að ég hef ekki tök á því að koma aftur inn í umræðuna þar sem ég hef nýtt ræðutíma minn en ég vil vekja athygli á því að allar réttarhugmyndir um tryggingabætur eru í þá veru að einstaklingurinn fær tryggingagreiðslurnar án tillits til tekna maka. Dæmi um það eru atvinnuleysistryggingarnar. Einstaklingurinn sem missir vinnuna fær atvinnuleysistryggingabæturnar sínar, án tillits til þess hvað maki hans er með í tekjur. Hvers vegna eiga ekki að gilda sömu reglur um lífeyristryggingarnar og um allar aðrar tryggingar? Af hverju eiga ekki að gilda sömu réttarhugmyndir um lífeyristryggingarnar eins og um atvinnuleysistryggingarnar, eins og um allar aðrar tryggingar? Hvers vegna eiga ekki að gilda sömu reglur um öryrkjabæturnar og tekjutrygginguna til þeirra? Hvað er öðruvísi við þann hóp? Hann er búinn að missa heilsuna. Sá sem hefur misst atvinnuna fær fullar greiðslur. Það eiga sem sagt að gilda aðrar reglur um þann sem hefur misst heilsuna og er mun verr settur en sá atvinnulausi í flestum tilvikum. Það verða að koma svör frá hæstv. ráðherra, herra forseti, við þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram, bæði um réttarhugmyndirnar, aðrar hugmyndir en í venjulegum tryggingarrétti. Hvers vegna eiga þær ekki að gilda um almannatryggingarnar líka?

(Forseti (StB): Forseti vill minna hv. þm. á að fara varlega í að nýta sér andsvarsheimildirnar til áframhaldandi ræðuhalda.)