Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:53:43 (7343)

1998-06-02 23:53:43# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:53]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög merkileg, stutt ræða hjá hæstv. ráðherra um tillögu eins og hún kæmi af kúnni og að hér værum við, eftir að hafa staðið --- ætli það sé ekki farið að nálgast að vera tveir tímar, til að ræða um réttindi öryrkja, værum bara hreint að kaffæra okkur í málinu. Þetta var mjög merkileg ræða og svaraði engu öðru en því að það væri tilfinning heilbrrn. að þetta bryti ekki í bága við alþjóðlegar samþykktir. Þá bara spyr ég enn einu sinni, þar sem segir í meginreglum Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra: ,,Ekki skal dregið úr tekjutryggingu eða hún felld niður fyrr en hinn fatlaði er orðinn fær um að afla sér viðunandi og öruggra tekna.`` Brýtur það ekki í bága við þetta ákvæði, þó að ekki væru önnur tekin inn? Hæstv. ráðherra segir að þetta byggi á gagnkvæmri sameiginlegri framfærsluskyldu hjóna. Gagnkvæmri framfærsluskyldu hjóna. Ég get ekki séð annað en að reglugerð ráðherrans geri þetta allsendis ómerkt vegna þess að annar aðilinn er skertur. Það er byrjað að skerða tekjur annars aðilans um leið og tekjur hins ná rétt rúmum 38 þús. kr. á mánuði. Og með fullri virðingu fyrir hv. þm. þá efast ég um að það séu margir þingmenn hér inni sem teldu að þar væru komnar það háar tekjur að fara mætti að skerða þær án þess þó að skerða möguleikana til framfærslu. Þetta er gagnkvæm framfærsluskylda sem þýðir að hún er sett yfir á annan aðilann þegar um öryrkja er að ræða.

En hæstv. ráðherra hefur engu svarað, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki alltaf talið sig þurfa langan tíma til undirbúnings. Ég minni á viðamikið frv., stærsta pólitíska málið á þessu þingi sem hent var hingað inn, gagnagrunninn margfræga.