Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 11:11:42 (7434)

1998-06-04 11:11:42# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[11:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frv. þetta fjallar um breytingu á ákvæðum c-liðar 69. gr. þessara laga sem fjallar um vaxtabætur.

Með frumvarpinu er lagt til að vaxtabætur til þeirra sem kaupa fasteignir eftir að lögin taka gildi verði greiddar fyrir fram í stað þess að greiðast eftir á líkt og verið hefur. Með þessari breytingu munu vaxtabætur koma til greiðslu á kaupári en ekki ári síðar líkt og nú er. Þá er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að skuldajafna vaxtabótum, sé um vanskil að ræða, til greiðslu á afborgunum og vöxtum af húsnæðislánum. Jafnframt er lagt til að skerðingarhlutfall vaxtabóta, sem er 6% af tekjuskattsstofni, lækki um hálft prósentustig fyrir hvert ár sem bótaþegi á rétt á vaxtabótum vegna sama íbúðarhúsnæðis umfram 25 ár. Hafi bótaþegi fengið vaxtabætur samfellt vegna sama íbúðarhúsnæðis í 36 ár fellur frádráttur á grundvelli tekjuskattsstofns niður.

Meiri hluti efh.- og viðskn. leggur til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.