Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 11:26:09 (7436)

1998-06-04 11:26:09# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[11:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég stend að nál. minni hluta efh.- og viðskn. í þessu máli, sem áðan var mælt fyrir og tek undir það sem þar var sagt og þann rökstuðning sem í nál. er. Ég vil aðeins bæta hér við fáeinum orðum af minni hálfu um húsnæðismálin sem þetta frv. er hluti af.

Því miður bar hæstv. ríkisstjórn ekki gæfu til þess að verða við þeim vítæku áskorunum og því ákalli sem barst víða að úr þjóðfélaginu um að fresta afgreiðslu þessara mála og frv. til laga um húsnæðismál sem hér var lagt fyrir er nú orðið að lögum. Það ber því að hafa í huga þegar nál. okkar í þessu máli er skoðað að það var samið á þeim tíma sem það var afstaða okkar stjórnarandstæðinga og fjölmargra aðila annarra í þjóðfélaginu að það bæri að fresta afgreiðslu allra þessara mála. Við áskiljum okkur því rétt til að endurskoða þá tillögu okkar sem er aftast í nál. að þessum málum hefði átt að vísa öllum til ríkisstjórnar eða fresta afgreiðslu þeirra því að sjálfsögðu er betra en ekkert að reglum um vaxtabætur verði breytt í ljósi þeirrar niðurstöðu sem orðin er hvað varðar lög um húsnæðismál.

Eftir stendur það, herra forseti, að við erum mjög ósátt og andvíg þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn er að gera í þessum efnum. Þær eru í hnotskurn þær, eins og mönnum ætti að vera kunnugt, að verið er að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið á Íslandi en í staðinn eru gerðar nokkrar breytingar á reglum um vaxtabætur. Þar er ólíku saman að jafna og sá málflutningur sem hæstv. félmrh. hefur reynt að skjóta sér á bak við í þessum efnum, að hið félagslega sé flutt yfir í reglur um vaxtabætur, stenst auðvitað ekki þegar betur er að gáð.

Staðreyndin er sú að með því að félagslega húsnæðiskerfið er lagt niður missa stjórnvöld að mestu leyti úr höndum sér þau tæki sem voru áður fyrir hendi til þess að beita sér beint hvað varðar úrlausn á húsnæðisvanda lágtekjufólks í landinu og eftir standa eingöngu möguleikar til vissra skattalegra aðgerða sem geta aldrei komið nema að hluta til í staðinn fyrir það að starfrækja félagslegt húsnæðiskerfi og tryggja fullnægjandi framboð á íbúðum á viðunandi verði fyrir tekjulægstu hópana í landinu.

Það tekur svo steininn úr, herra forseti, þegar í ljós kemur að strax í upphafi kerfisins er um skerðingu að ræða. Jafnvel fyrir þá sem kunna að komast inn undir hið nýja lánafyrirkomulag verða frá byrjun ákveðnir hópar fyrir verulegri íþyngingu. Reiknað hefur verið út að fólk á ákveðnu tekjubili, t.d. einstæðir foreldrar á ákveðnu tekjubili, verði fyrir verulegri skerðingu borið saman við það að fá inni með þeim hætti sem áður var mögulegt í félagslega húsnæðiskerfinu. Ég vísa þar til þeirra útreikninga sem gerð var grein fyrir áðan í framsöguræðu.

[11:30]

Skerðingarákvæðin eða tekjutengingarákvæðin eru of þröng og það er dálítið merkilegt að hæstv. ríkisstjórn skuli vera svo ósvífin að leggja af stað með kerfið þannig úr garði gert. Til dæmis að þökin sem hin tekjutengda skerðing bótanna miðast við eru það lág að þau fela óumdeilanlega í sér skerðingu fyrir ákveðna aðila. Það sem reynslan sýnir líka í þessum efnum, herra forseti, er náttúrlega það, og það vita allir, að ráðstafanir af þessu tagi sem eru háðar fjárframlögum og afgreiðslu fjárlaga á hverju einasta ári er auðvelt að taka burtu, er auðvelt að skerða og það er gjarnan svo að þetta eru liðir af því tagi sem ríkisstjórnir grípa til í þrengingum sínum við afgreiðslu fjárlaga þegar harðnar á dalnum og þarf það jafnvel ekki til. Það eru liðir eins og þeir að fikta aðeins í skerðingarmörkum vegna tekjutengdra liða í skattkerfinu, barnabóta, vaxtabóta og annarra slíkra þátta. Reynslan frá undanförnum sex, átta árum er ólygnust í þessum efnum. Ár eftir ár greip ríkisstjórnin á síðasta kjörtímabili til þess að fikta við þessi mörk, færa meira af barnabótunum yfir í tekjutengda hlutann, skerða vaxtabæturnar, breyta hlutföllum, þökum og öðru slíku. Þetta eru hlutir sem liggja þannig pólitískt að menn sjá sér oft leik á borði að læða slíkum skerðingum inn í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, oftar en ekki á síðkvöldum eða nóttum þegar nálgast jól og lítil athygli fæst á þær breytingar sem verið er að gera. Það er meginókosturinn við þetta ef maður sleppir því nú hvernig reglurnar sem slíkar koma út í augnablikinu að hér er verið að ofurselja allt sem eftir stendur sem stuðningur við lágtekjufólk hvað varðar húsnæðisöflun duttlungum meiri hluta eða ríkisstjórn á hverjum tíma og opna þann möguleika að í þessu verði fiktað og þetta skert með geðþóttaákvörðunum í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á hverju ári. Dæmin sanna að það er oftar en ekki sem menn grípa til þess möguleika.

Afgreiðslan á þessu máli að öðru leyti, herra forseti, var með miklum endemum. Hæstv. félmrh. viðurkenndi að ýmsar lykilstærðir og ákvarðanir sem varða það hvernig menn muni koma út úr þessu nýja fyrirkomulagi eru óafgreiddar hjá hæstv. ríkisstjórn, t.d. reglurnar um greiðslumatið sjálft sem skipta náttúrlega algerlega sköpum um hverjir komast yfir höfuð inn undir þessar reglur því að kerfið er þannig að aðrir munu þar enga úrlausn fá. Þeim er vísað á leigumarkaðinn, dæmdir inn á leiguharkið, jafnvel um aldur og ævi, og eiga þess ekki kost að komast inn undir þær reglur sem þetta svokallaða nýja, félagslega lánakerfi, sem er auðvitað algert öfugmæli, býður upp á.

Nærtækasta sönnun þess eru auðvitað hinar frægu ræður hæstv. félmrh. um lágtekjufólkið og einstæðu foreldrana sem eiga hálfa milljón inni á bankabók til að kaupa fyrstu íbúðina. En hæstv. ráðherra afhjúpaði í raun og veru algerlega þetta mál með því að koma í ræðustólinn og tala um að þetta væri víst harla gott kerfi því að það væri t.d. þannig að einstætt foreldri í lágtekjuhópum sem ætti hálfa milljón inni á bók gæti keypt sér ódýra íbúð og komist inn í kerfið. Með því var hæstv. ráðherra að segja að forsenda þess að tekjulágu hóparnir, sem komast þó í gegnum greiðslumatið, geti klárað dæmið sé að þeir eigi hálfa milljón undir koddanum og bíði með hana klára til að kaupa fyrstu íbúð sína. Við skulum aðeins bera saman stöðu lágtekjufólks í félagslega húsnæðiskerfinu eins og það hefur verið undanfarið sem hefur unnvörpum þurft að fá lánað fyrir 10% hlutnum til að leggja hann fram og þeirra sem eru dæmdir inn í þessar aðstæður. Ég spurði hæstv. félmrh. að því hversu margar lágtekjufjölskyldur hæstv. ráðherra þekkti í borginni, þar sem um einstæða foreldra væri að ræða, sem ættu hálfa milljón á bankabók og biðu bara með hana klára til að leysa húsnæðismál sín, og það komu engin svör. En það væri fróðlegt að vita hvernig það er í kunningjahópi hæstv. fjmrh., hversu margar einstæðar mæður eða einstæða foreldra í lágtekjuhópum, kannski með tekjur á bilinu 80, 90 þó það sé upp í 120 þús. kr. á mán., hæstv. fjmrh. þekkir sem bíða með hálfa milljón klára á bók eftir að kaupa fyrstu íbúð sína.

Þetta skiptir máli, herra forseti, því að við erum að tala um atriði sem ráða úrslitum um það hvort fólk eygir yfir höfuð einhverja úrlausn mála sinna í gegnum þetta kerfi. Það er þannig. Þarna var algerlega ólíku saman að jafna í því félagslega húsnæðiskerfi sem á nú að leggja niður því að þar var sá möguleiki fyrir hendi að aðstoða verst setta fólkið við útborgunina og heimild til lána á mjög hagstæðum kjörum vegna útborgunarinnar sjálfrar sem síðan var endurgreitt á nokkuð styttri tíma en íbúðalánin sjálf.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að þegar húsnæðiskostnaðurinn, sem menn munu hafa af þessu kerfi, er skoðaður og það er auðvitað það sem skiptir miklu máli þegar komið er inn í kerfið á annað borð, fyrir þá sem þangað komast, þá verður hann til muna hærri í þessu nýja kerfi, nema þá að menn eigi kost á ævintýralega ódýrum íbúðum á hinum almenna markaði sem ég vil leyfa mér mjög að draga í efa að verði því að ein afleiðing af þessum breytingum, spái ég, verður hækkandi leiguverð og hækkandi fasteignaverð og minna framboð á leiguhúsnæði vegna þess að hið opinbera er að hverfa frá því að hafa íhlutun í þau mál. Eitt af því sem skiptir auðvitað sköpum í sambandi við ástandið á fasteignamarkaði og í húsnæðismálum í landinu var það framboð af nýju húsnæði sem félagslega húsnæðiskerfið tryggði á hverju ári að kom til sögunnar. Það hefur ekki áhrif bara í gegnum það að það fólk fær þá úrlausn sinna mála sem kemst þangað inn. Það hefur áhrif í gegnum það að ástandið á fasteignamarkaðnum er allt öðruvísi úti á almenna markaðnum en verður þegar þetta kemur til sögunnar. Auðvitað getur vel verið að í einstöku sveitarfélögum þar sem menn beita þá þeim úrræðum sem eftir standa til að reyna að tryggja áframhaldandi framboð á nýju húsnæði fyrir tekjulágt fólk verði þetta í lagi. Ég óttast þó mjög að útkoman verði sú að það dragi úr nýju húsnæði og það er reyndar beinlínis teiknað til þess í öllum rökstuðningi fyrir þessu máli, samanber hinar frægu athugasemdir í grg. með húsnæðisfrv. sem nú er orðið að lögum þar sem því er haldið fram að í raun og veru sé nóg framboð á húsnæði í landinu og ekki sé nein ástæða til að þar þurfi neitt að bætast við.

Herra forseti. Ég vísa sem sagt aftur til þess sem ég sagði áðan um stöðu málsins að í kjölfar þess að húsnæðisfrv. hefur verið gert að lögum áskiljum við í minni hlutanum okkur rétt til að endurskoða þá tillögu okkar að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar því að sjálfsögðu er ljóst að gera þarf breytingar á vaxtabótakerfinu ef eitthvað á að verða úr efndum að því leyti til en þar teljum við reyndar að gera þurfi breytingar á reglunum, lágmarksbreytingar til að tryggja þó ekkert sé annað en það að hópar á einstökum tekjubilum séu jafnsettir fyrir og eftir þessar breytingar og við áskiljum okkur þá rétt til að flytja breytingartillögu við málið við 3. umr. hvað það snertir að lyfta þökum o.s.frv. eins og ég hef gert grein fyrir.