Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 12:45:56 (7440)

1998-06-04 12:45:56# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[12:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er mörgu að bæta við fyrri ræðu mína en þó þessi tvö atriði sem hv. þm. nefndi hér. Spurningin um niðurgreiðslu vaxta til byggingar leiguíbúða er til ákvörðunar, þ.e. engin sérstök ákvörðun er komin í því efni svo mér sé kunnugt um. En þar verður að taka afstöðu til spurningarinnar um stöðu hins nýja Íbúðalánasjóðs og hvaða svigrúm hann hefur. Þetta er því óafgreitt mál. Hins vegar eru þeir vextir náttúrlega mjög lágir í dag og að mínum dómi óeðlilega lágir, svo að það komi nú fram.

Spurningin um samkomulag milli félmrh. og fjmrh. um að fólk verði jafnsett í þessum kerfum, það er ekkert formlegt samkomulag um það, það liggur bara í eðli málsins að flestir fara jafn vel eða betur út úr þessu, eins og ég gat um áðan, þó að hv. þm. hafi nefnt tvö dæmi um hugsanlega hið gagnstæða. Það sýna allir útreikningarnir sem ég hef vitnað til í dag að verður meginreglan í þessu máli. En auðvitað er ekki hægt að tryggja það fyrir hvern einasta einstakling í þessu stóra kerfi að allir fari örugglega jafn vel eða betur út úr því miðað við gamla kerfið enda er jafnan erfitt um vik að reikna slíkt út nákvæmlega. En á þeim forsendum sem hafa verið lagðar til grundvallar er ljóst að þetta kerfi kemur ekki verr út heldur betur fyrir flest fólk.