Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 13:50:31 (7454)

1998-06-04 13:50:31# 122. lþ. 144.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[13:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég er því fylgjandi að virða beri sjálfs\-ákvörðunarrétt þjóða. Að því tilskildu að þær gangi ekki á hlut eða rétt annarra er það sjálfsagt og eftirsóknarvert að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða, að þjóðum sé ekki þröngvað til að gera það sem stríðir gegn skynsemi, sanngirni og sannfæringu meiri hlutans. Þess vegna vildi ég að við Íslendingar stilltum okkur upp með fátækum ríkjum sem alþjóðafjármagnið setur afarkosti: ,,Einkavæðið og veitið auðhringum eignarhald á orkuverum ykkar og almannaþjónustu, annars engin lán frá Alþjóðabankanum og engin fyrirgreiðsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.`` Því miður taka Íslendingar afstöðu með alþjóðafjármagninu gegn sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Það gerir ríkisstjórn Íslands. Á vettvangi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stillum við fátækum ríkjum upp við vegg og þrengjum að sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Hins vegar þegar menn ætla að hervæðast og einhvers staðar finnst meiri hluti fyrir því að stækka NATO, þá þykir henta að tala um sjálfsákvörðunarrétt og þá megi menn vita að þeir eigi stuðning Íslendinga vísan.

En hér er, hæstv. forseti, á tvennt að líta. Íslendingar eiga ekki að fara með lyklavöld að hernaðarbandalaginu NATO. Við eigum að beina kröftum (Forseti hringir.) okkar að því að styrkja alþjóðlegt og lýðræðislegt öryggiskerfi og tryggja að það þjóni heiminum öllum en ekki sérhagsmunum tiltekinna hernaðarstórvelda.

Og hitt, hæstv. forseti, sem ég vil benda þeim mönnum á sem skírskota til vinsælda NATO í austanverðri Evrópu nú um stundir, það á við (Forseti hringir.) jafnt þar og nú á Indlandi og í Pakistan að þótt yfirgnæfandi meiri hluti fagni kjarnorkusprengingum og vopnavæðingu þá ber okkur að hugsa á alþjóðavísu fyrir friði gegn hernaðaruppbyggingu. Við eigum ekki að ljá vígbúnaðarútþenslu fylgi okkar (Forseti hringir.) með því að greiða atkvæði með stækkun og styrkingu hernaðarbandalagsins NATO.