1998-06-04 23:07:23# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, HG
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þegar við tökum þetta þýðingarmikla mál til umræðu þá væri auðvitað æskilegt, svo ekki sé meira sagt, að starfandi umhvrh. hæstv. væri hér viðstaddur og auðvitað væri æskilegt að hæstv. utanrrh. væri hér einnig þegar við ræðum þetta lífshagsmunamál okkar Íslendinga. Ég hef þegar nefnt það við hæstv. forseta og veit að hæstv. forseti er að athuga að fá hæstv. ráðherra eða starfandi hæstv. umhvrh. til að koma hingað í þingsal. Ég verð, virðulegur forseti, að lýsa yfir undrun yfir því að viðkomandi hæstv. ráðherrar séu ekki hér viðstaddir þegar Alþingi ræðir málið sem hér er á dagskrá. Ég geri ekki athugasemdir sérstaklega við það að hæstv. ráðherrar gegni skyldustörfum heima eða erlendis, það hefur auðvitað sinn gang. Ég hef grun um að ekki sé allt sem skyldi í þessum efnum. Á meðan hæstv. ráðherrar ekki eru hér viðstaddir þá hljótum við að óska eindregið eftir að úr því verði bætt.

Sú tillaga, virðulegur forseti, --- því að ég ætla hér að halda áfram máli mínu í von um að hæstv. starfandi umhvrh. komi hingað í þingsal --- sem við ræðum hér er flutt af hv. umhvn. og formaður nefndarinnar hefur mælt fyrir tillögunni. Upphaf þessara afskipta umhvn. að málinu var í byrjun þinghalds á vorþingi. 27. jan. sl. tók ég upp, í óundirbúinni fsp. til hæstv. umhvrh. fregnir sem þá höfðu borist nýlega af mjög aukinni mengun af teknesíum við Noregsstrendur frá Sellafield í Bretlandi. Ég ræddi það sérstaklega í tengslum við málið að ekki aðeins stjórnvöld og ríkisstjórnin tækju á málinu heldur léti hv. umhvn. þingsins sig það einnig varða og kæmi á framfæri við þingið niðurstöðu af sinni athugun. Þetta mál var síðan til umfjöllunar í hv. umhvn. nokkrum sinnum og rétt undir lokin á starfstíma nefndarinnar í vor tókst samstaða um það í nefndinni að flytja þá till. til þál. sem hér liggur fyrir.

Ég fagna því að samstaða tókst í nefndinni um að bregðast við með þeim hætti sem raun ber vitni. En það er nauðsynlegt að knýja ákveðið á um það af hálfu íslenskra stjórnvalda að tekið verði fastar og ákveðnar á þessu máli en gert hefur verið, vegna þess hversu stórt, brýnt og þýðingarmikið málið er og varðar lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar. Sú mengun af geislavirkum efnum sem berst norðaustur í höf og síðan með hafstraumum inn á íslenska hafsvæðið, frá Bretlandseyjum alveg sérstaklega, er þess eðlis að við Íslendingar verðum að gera þessum nágrönnum okkar ljóst að við þolum ekki framferði af þessum toga. Við verðum að nota alþjóðleg sambönd okkar hvarvetna til þess að knýja á um að hætt verði við þá óverjandi losun geislavirkra efna í hafið sem þarna er um að ræða.

Þetta er vissulega ekki nýtt mál. Það er rétt sem hv. formaður umhvn. sagði hér í sinni framsögu. Það hefur margt verið að gerast einmitt á allra síðustu mánuðum sem færir okkur enn og aftur heim sanninn um að á ekkert sé treystandi í sambandi við þennan iðnað á Bretlandseyjum. Þar hafa gerst slíkir hlutir að það er nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga, í tilefni af þessari tillögu, ræði um þau efni og taki upp þráðinn við hæstv. ríkisstjórn um málið. Hæstv. ríkisstjórn og ábyrgir ráðherrar mega ekki láta við mótmælin ein sitja. Það virðist alveg ljóst að bresk stjórnvöld skella skollaeyrum við aðvörunarorðum okkar, frómum óskum og ályktunum um úrbætur.

Menn spyrja: Hvað er þá til ráða? Ég sagði hér fyrir fáum árum, þegar rætt var um hliðstæð mál að mínu frumkvæði hér á Alþingi, að við yrðum að grípa til óvenjulegra aðgerða ef ekki verður við brugðist. Hvaða gjörðir væru mögulegar af Íslands hálfu í þessu sambandi, óvenjulegar aðgerðir, óhefðbundnar aðferðir?

Ég nefndi þá þann möguleika að við kölluðum heim sendiherra okkar í Bretlandi í mótmælaskyni til að undirstrika alvöru málsins. Ég set þá hugmynd hér fram á nýjan leik í ljósi þess sem hefur verið að gerast í þessum málum að undanförnu og í ljósi þeirra viðbragða sem liggja skjalfest fyrir frá umhverfisráðherra Bretlands, Michael Meacher, sem í sérstöku bréfi hefur vísað á bug erindi norrænna umhverfisráðherra, sem íslenski umhvrh. átti góðan hlut að í febrúarmánuði ef ég man rétt. Frá umhverfisráðherra Bretlands kemur ekkert nema frávísun í raun að þarna sé um nokkra þá hættu að ræða sem menn þurfi að hafa áhyggjur af.

Ég hef hér fyrir framan mig ljósrit úr fréttabréfi ágætra samtaka sem lengi hafa staðið vaktina í þessum málum og hafa miðstöð sína í Leirvík á Hjaltlandi, NENIC-samtakanna, þar sem vitnað er í þetta erindi frá Meacher umhverfisráðherra. Hér segir m.a., þýtt á staðnum, að losun á teknesíum 99 frá Sellafield hafi ekki þýðingu í geislavirku samhengi, hvorki fyrir menn né heldur fyrir aðrar tegundir. Þetta eru nú viðbrögðin, virðulegur forseti. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ekki ætla ég að ganga hér yfir tímamörk. Ég hafði satt að segja ekki í huga að við værum að ræða hér þáltill. sem fylgdi þessum mörkum. Ég hef margt að segja um þetta mál, umfram það sem fram er komið, og kem því e.t.v. betur á framfæri í von um að þá verði hæstv. starfandi umhvrh. kominn á vettvang.

(Forseti (GÁ): Forseti vill vegna þessara orð upplýsa að það er verið að leita að starfandi umhvrh.) (ÖS: Er hann týndur?) Það er ekki gott að segja.)