1998-06-05 00:03:39# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[24:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa tillögu og lýsa stuðningi mínum við hana. Ég tel að tæplega sé hægt að kveða of fast að orði um þetta málefni. Alþingi ályktaði um þetta mál fyrir tíu árum og ítrekað hefur þetta komið til umræðu og enginn bilbugur er á afstöðu okkar Íslendinga. Ég tel að það sé fátt í veröldinni sem okkur stendur meiri ógn af en þessari starfsemi og það er bókstaflega verið að stofna tilveru okkar sem þjóðar, lífsafkomu okkar í hættu. Ég veit reyndar ekki hvers vegna menn eru að festa trú sína á Tony Blair í umræðunni en fyrst og fremst er þetta grafalvarlegt mál.

Ég heiti því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að stoppa þennan djöfulskap, gjörsamlega allt sem í okkar valdi stendur. Þetta er ekki frambærileg framkoma við nágranna sína eða vinaþjóð, síður en svo.

Nú veit ég ekki hvort ég verð starfandi umhvrh. þegar OSPAR-ráðstefnan verður haldin en ég mundi ekki telja eftir mér, ef svo færi, að sækja þá ráðstefnu og ég tel að Alþingi eigi að eiga hlut að því. Við eigum að standa sameinuð í þessu máli og þetta er ekki bara mál ríkisstjórnarinnar, ekki bara mál stjórnarflokkanna, þetta er mál Íslendinga allra.