1998-06-05 00:06:09# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[24:06]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt orð, ágætar undirtektir og þungar í undirtektum sínum við þá tillögu sem umhvn. flytur. Ég er fullviss um að hæstv. ráðherra mun flytja umhvrh., flokksbróður sínum, þau ummæli og orð sem hér hafa fallið og fylgja eigin orðum eftir innan íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég tel að ekkert hafi verið ofmælt í þessari umræðu og það sé geysilega þýðingarmikið að Alþingi Íslendinga og íslenska ríkisstjórnin haldi vöku sinni í þessum málum og noti öll þau færi sem hægt er til að bægja frá þeirri hættu sem við höfum verið að ræða í kvöldi og grípa þar til allra aðgerða sem fært er.

Afar mikilvægt er að treysta alþjóðasamþykktir í þessum efnum og þar er viðburður fram undan þar sem reynir verulega á og ég tek undir það sjónarmið að auðvitað hlýtur umhvrh. Íslands að vera í hópi þeirra sem fylgja málum eftir í Lissabon enda er það ráðherravettvangur sem þar er um að ræða. Ég tek undir það og þakka þær undirtektir raunar við það sjónarmið að Alþingi Íslendinga ætti líka að eiga þar fulltrúa til að fylgjast með því sem þar fer fram.