1998-06-05 16:45:52# 122. lþ. 147.6 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, HG
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur, 122. lþ.

[16:45]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Síðla í gærkvöldi fór hér fram ágæt umræða um þessa þáltill. Ég hefði ekki rætt þetta mál frekar ef ekki hefðu komið til alveg sérstök tíðindi sem bárust okkur í morgunsárið. Í umræðunni í gærkvöldi kom starfandi hæstv. umhvrh. Páll Pétursson mjög jákvætt inn í umræðuna og tók undir mál margra þingmanna um nauðsyn þess að Íslendingar gripu til aðgerða sem eftir væri tekið gegn þeirri lífshættulegu starfsemi, fyrir okkar þjóðhagsmuni, sem fram fer í endurvinnslustöðvum í kjarnorkuiðnaði í Bretlandi.

Við ræddum um þann mikilvæga fund sem fram fer í Lissabon síðla í júlímánuði til þess að ganga frá væntanlega styrktum samningi kenndum við OSPAR eða Ósló/París sem verið hefur í undirbúningi. Þar ætla ráðherrar umhverfismála að stíga skref sem væntanlega herða á þessum málum og þrengja að þeim endurvinnslustöðum sem losa í hafið. Það var gott að heyra frá hæstv. ráðherra tala um þann ásetning ríkisstjórnarinnar að taka fast á því máli og hafa Alþingi einnig í huga í sambandi við þann mikilvæga fund.

Í morgun bárust síðan þau tíðindi að ákvörðunar væri að vænta frá breskum stjórnvöldum um að hætta rekstri Dounreay-stöðvarinnar á Katanesi í Skotlandi innan fimm ára eða svo. Segja má að svo virðist sem umræðan sem hér fór fram í gærkvöldi hafi orðið að áhrínsorðum þó að ekki vilji ég segja að við höfum orkað það með okkar orðum hér. Þarna virðast vera að gerast mjög stórir atburðir sem snerta þau mál sem við erum hér að álykta um. Þó við blasi að þarna verði áfram rekin starfsemi, ef það stenst að þetta verði niðurstaða að starfsemin verði lögð af eftir fáein ár, þá skiptir þessi atburður gífurlega miklu máli.

Það hafa verið ævintýraleg átök innan bresku ríkisstjórnarinnar og í Bretlandi á undanförnum vikum í sambandi við þetta mál eins og menn hafa fylgst með í fréttum. Stöðin hefur reynt að afla sér viðskiptasambanda víða í Ástralíu. Tekin var ákvörðun á fundi Clintons og Blairs um að senda geislavirk efni til endurvinnslu frá Georgíu. Reyna var að afla viðskiptasambanda frá fleiri ríkjum Austur-Evrópu o.s.frv. þannig að allt bendir til mikillar aukningar. Ef ákvörðunin sem við vorum að frétta af gengur eftir, þá er þetta mjög þýðingarmikill atburður. Auðvitað kann að vera að þarna liggi fiskur undir steini, þ.e. að endurvinnslustöðin í Sella\-field, sem heldur áfram á fullu, taki við verkefnum sem nú eru rekin í Dounreay en Alþingi Íslendinga andmælti stækkun þeirrar stöðvar samhljóða í desember 1993.

Nú eru liðin rétt rúm 10 ár frá því að Alþingi samþykkti samhljóða ályktun, það var þann 8. febr. 1988, þar sem stækkun endurvinnslustöðvar í Dounreay var mótmælt, svo rifjað sé aðeins upp þar sem Alþingi hefur komið við sögu fyrir utan atbeina íslenskra stjórnvalda. Þau hafa ítrekað mótmælt þessum fyrirætlunum og það alveg nýlega þannig að hér standa menn sameinaðir til að verja hagsmuni okkar í þessum efnum.

Það þarf auðvitað að standa vaktina áfram. Reksturinn í Sellafield er í fullum gangi og kann að aukast. Við þurfum að fá nánari fregnir að því er varðar Dounreay. En ég vildi nefna þetta hér í samhengi þessarar umræðu og ályktunar sem heldur auðvitað gildi sínu hér af hálfu Alþingis. Við þurfum að halda vöku okkar sameinuð í þessu máli áfram.