Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:49:50 (62)

1997-10-06 15:49:50# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þær fjárveitingar, þær 2 millj. sem var minnst á og ég minntist á í ræðu minni, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja á þessu ári til almennrar túlkaþjónustu þá er um að ræða túlkaþjónustu sem fellur ekki undir Samskiptamiðstöð heyrnarlausra því að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra sinnir aðeins skólakerfinu. Hins vegar er spurningin um það hvernig er staðið að því að auðvelda túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa utan skólakerfisins. Það var til þeirra hluta sem ákveðið var að verja sérstaklega í ár 2 millj. kr. þar sem ekki var að finna slíka almenna fjárveitingu á fjárlagaliðum félmrn. því þarna er um verkaskiptingu að ræða. Það er eitt af því sem um er að ræða í þessu starfi öllu saman að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra er rannsóknastofnun og þjónustustofnun við skólakerfið en síðan þarf að veita heyrnarlausum þjónustu utan skólakerfisins og þar hefur verið um almennar fjárveitingar að ræða. Það er slík almenn fjárveiting sem var veitt af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að koma til móts við óskir heyrnarlausra um þessa almennu túlkaþjónustu utan skólakerfisins.