Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 13:58:23 (305)

1997-10-09 13:58:23# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:58]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er algengt, kannski of algengt á pólitískum málþingum og í pólitísku argaþrasi að menn beiti málflutningi af þessu tagi. Menn segja: Ef ég er slæmur, þá ert þú engu betri. Hv. þm. bendir á þá staðreynd að ég hafi átt sæti í ríkisstjórnum, samsteypustjórnum, í átta ár. Og spurningin er þá þessi: Hvers vegna kom maðurinn þá ekki á veiðileyfagjaldi fyrir úthlutun kvóta í staðinn fyrir gjafakvótakerfi á þessum tíma? Og svarið við því er mjög einfalt. Við höfum beitt okkur fyrir þessu máli á Alþingi Íslendinga nú í u.þ.b. áratug. Við höfum tekið þetta upp við ríkisstjórnarborð, í stjórnarmyndunarviðræðum, í samstarfi við aðra flokka og við höfum lagt fram tillögur um að þoka málinu áleiðis eftir því sem best við höfum getað. Við höfum ekki haft stuðning frá öðrum stjórnmálaflokkum og við höfum til skamms tíma kannski ekki haft stuðning frá meiri hluta þjóðarinnar þótt það hafi nú breyst.

Það sem þokaðist í áttina var að með lögum sem sett voru í tíð seinustu ríkisstjórnar var tekinn upp svokallaður Þróunarsjóður sjávarútvegsins og þróunarsjóðsgjald sem þá var viðurkennt að væri vísir að veiðileyfagjaldi, að vísu mjór vísir en engu að síður vísir að því sem koma skal.

Ef viðleitni hv. þm. var einfaldlega sú að sýna að ég væri hér að flytja hræsnistal, þ.e. eitthvað sem ég ekki meinti, þá vísa ég til þess að við höfum barist fyrir þessu máli, við höfum reynt að snúa þjóðinni til fylgis við þetta mál, við höfum reynt að hafa áhrif á aðra stjórnmálaflokka um þetta mál, við höfum flutt tillögur í ríkisstjórnum um málið, við höfum reynt að þoka því áleiðis og þannig höfum við yfirleitt orðið að fara að í stórum málum. Má ég taka dæmi?

Jafnaðarmenn á Íslandi (Forseti hringir.) fluttu fyrst á Alþingi Íslendinga tillögu um almannatryggingar árið 1929. Þeir reyndu að koma þeim í gegnum Alþingi o.s.frv. Þeim tókst það ekki fyrr en sjö árum síðar. Þetta tekur sinn tíma, virðulegi forseti.