Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:22:41 (313)

1997-10-09 14:22:41# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:22]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. sagði: Nú verða menn að tala yfirvegað og vandlega. Hér er mál á ferðinni sem ógnar tilveru tuga þúsunda Íslendinga, nú skulum við tala yfirvegað. Ég ætla að tala mjög yfirvegað um það tilboð hans að gera tilraun, tilraun með síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem er happafengur og ekki er hægt að byggja á veiðireynslu nema áratugi aftur í tímann. Ég ætla nefnilega að taka þessari tillögu hans og þakka stuðning hans við tillögu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem hann flutti á seinasta þingi og við munum sjá til að verði endurflutt snarlega. Við munum að sjálfsögðu bjóða hv. þm. að gerast meðflutningsmaður. Þar er allt í einu ný veiði og ríkisvaldið tekur að sér að skammta veiðina, veita sumum veiðiheimildir en auðvitað þar með að sjálfsögðu banna öðrum og af því að hv. þm. vitnar svo oft í hagfræðina, að sjálfsögðu búa þar með til einokunargróða vegna þess að ef veiðin hefði verið frjáls hefðum við hreinlega sólundað arðinum í of mikla sókn. Þessa tilraun skulum við gera og hún mun ekki ógna tilveru tugþúsunda Íslendinga og hún mun leiða í ljós að svo gáleysislegt tal um praktíska hluti er óþarfi.