Umboðsmaður barna

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:52:22 (489)

1997-10-14 18:52:22# 122. lþ. 8.15 fundur 59. mál: #A umboðsmaður barna# (ársskýrsla) frv., Flm. KB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:52]

Flm. (Kristjana Bergsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna.

Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,3. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Skýrsluna skal prenta og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert og taka til umræðu á Alþingi.

Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Flm. ásamt mér eru Jón Kristjánsson og Hjálmar Árnason.

Frumvarp þetta flytjum við þar sem okkur þykir skorta mjög vettvang til umræðna um störf umboðsmanns barna og teljum að lögbundin umræða á Alþingi Íslendinga um árlega skýrslu umboðsmanns barna veiti embættinu aukið vægi og skapi réttindamálum barna og ungmenna fastan sess í störfum þingsins.

Sú skýrsla sem umboðsmaður barna hefur lagt fram fyrir árið 1996 er önnur skýrsla frá því þetta embætti var stofnað. Í lögum um umboðsmann barna segir í 4. gr., með leyfi forseta:

,,Öllum er heimilt að leita til umboðsmanns barna með erindi sín.

Umboðsmaður barna tekur mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir rökstuddum ábendingum. Hann ákveður sjálfur hvort ábending gefur tilefni til meðferðar af hans hálfu.``

Öllum er heimilt að leita til umboðsmanns barna, er upphafið á 4. gr. Það má til sanns vegar færa við lestur skýrslunnar að þetta embætti auðveldar og einfaldar mjög aðgang barna og foreldra þeirra eða forráðamanna að aðstoð þegar þau hafa komið að lokuðum dyrum annars staðar í kerfinu. Þannig er, og ekki eingöngu hvað varðar börn, að stofnanir í þjóðfélaginu eru sífellt að dæma í eigin málum um eigin gerðir. Við það að stofna embætti umboðsmanns barna opnaðist leið fyrir þá smæstu í þjóðfélaginu til þess að geta einfaldlega tekið upp símtól, hringt þangað sem hlustað var á það sem þeir höfðu fram að færa.

Það er venja í okkar þjóðfélagi og gömul hefð að við hlustum ekki nóg á börnin. En andinn í skýrslu umboðsmanns barna er einmitt sá aftur og aftur og í öllu sem umboðsmaður barna lætur frá sér fara hvar sem er, að það sem við þurfum að breyta í dag er fyrst og fremst þetta viðhorf til barna: Við þurfum að fara að hlusta á þau og taka mark á þeim, samanber t.d. málþing sem umboðsmaður barna hélt á Akureyri um síðustu helgi. Í 4. gr. laga um umboðsmann barna segir einnig, með leyfi forseta:

,,Umboðsmaður barna tekur ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga, en honum ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum.``

Þannig að þó svo að börn hringi til umboðsmanns barna með einföld mál þá geta þau eftir sem áður staðið í sömu sporum vegna þess að umboðsmaður barna leysir ekki úr málum einstaklinga. Ég segi þetta ekki til þess að gagnrýna þessi lög eða hvernig ákveðið var að haga störfum umboðsmanns barna, heldur til að benda á það hversu mikilvægt er að fylgjast með því í gegnum störf umboðsmannsins hvaða ábendingar og umkvartanir koma til hans, hvað af því hann dregur saman til þess að vinna frekar að málum og skoða og hvað af því er honum tilefni til þess að banka upp á hjá hinum ýmsu stofnunum í samfélaginu sem hafa með mál barna og ungmenna að gera.

Það var ákveðið að lög um umboðsmann barna skyldu vera undir forsrn. Það finnst mér alveg rétt. Öll önnur ráðuneyti hafa með lög um börn og ungmenni að gera. Þetta var það ráðuneyti sem helst má segja að standi sjálfstætt og geti verið sá utanaðkomandi aðili sem fylgist með.

Í 8. gr. laga um umboðsmann barna segir, með leyfi foreta:

,,Forsætisráðuneytið skal hafa eftirlit með fjárreiðum embættisins. Umboðsmaður barna skal gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Skýrsluna skal prenta og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert. Að öðru leyti er umboðsmaður barna sjálfstæður og óháður fyrirmælum framkvæmdarvalds.``

Þetta er mjög mikilvægt. Þetta skapar umboðsmanni barna þá aðstöðu sem hann þarf til að geta verið málsvari barna í þjóðfélaginu og ýtt áfram nýjum hugmyndum sem hvarvetna er að finna í alþjóðasamþykktum um vernd barna, þ.e. börnum ber meiri réttur í samfélaginu, meiri réttur til að hafa áhrif á líf sitt og líðan.

Í 8. gr. segir einnig, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra setur nánari reglur um starfshætti umboðsmanns barna í reglugerð að fengnum tillögum umboðsmanns.``

Sjálfstæð staða embættis umboðsmanns barna er mikilvæg hvað varðar það að hafa samvinnu við aðrar stofnanir. Eitt af því sem ég tel að allir í samfélaginu þurfi að fylgjast með og ekki síst þingmenn, t.d. með umræðum um skýrslu árlega, er að allar stofnanir sem hafa með börn að gera virði það að ætlast sé til þess að þær hafi gott samstarf við embætti umboðsmanns barna.

[19:00]

Í þessari skýrslu sem er önnur skýrslan frá því að embættið var stofnað kemur fram að það hefur orðið 60% aukning erinda og þá sérstaklega tiltekin símaerindi sem eru flest. Þau eru mjög fjölbreytt og að mínu mati er þetta embætti kjörið til þess að hafa fingur á púlsi og eitthvað slíkt, eins og oft er talað um að nauðsyn sé á.

Árlega höfum við fengið að heyra frá umboðsmanni barna í þessum skýrslum, þessari og þeirri fyrstu, það sem brennur á í dag, nákvæmlega núna. Og ef við lítum á erindin þá eru þau flokkuð hér á bls. 27. Það eru skólamál, skilnaður og sambúðaslit, barnavernd, fjölmiðlar, réttarkerfi, réttindi barna almennt, starfshættir félagsmálayfirvalda, tryggingamál, fjármál, lífeyrismál, starfshættir Tryggingastofnunar ríkisins, öryggismál barna, sifjamál, nafnamál, erfðamál, vinnumarkaðurinn. Við sjáum að þetta spannar allt samfélagið.

Það er mjög mikilvægt að við minnumst þess alltaf þegar við fjöllum um börn að þau eru ekki þrýstihópur. Við getum ekki talað til þeirra sem þrýstihóps og við þurfum að muna skyldur okkar gagnvart þeim vegna þess að þau sameinast ekki og halda mótmælafundi, samþykkja ályktanir eða eru í mótmælaaðgerðum yfirleitt. Þess vegna verðum við að vera sérstaklega vel á verði.

Umboðsmaður barna, eins og ég fór aðeins yfir áðan, hefur fengið mál til umfjöllunar af ýmsum toga. Skólamál eru þar efst á blaði. Það er ekkert skrýtið vegna þess að skóli er vinnustaður barna og þau eru þar innan dyra ár a.m.k. tíu ár ævi sinnar í skyldunámi og fram að þeim aldri sem við erum að fjalla um hér.

Umboðsmaður barna hefur ákveðið, vegna ábendinga, að taka sérstaklega til umfjöllunar ýmislegt er varðar vinnubrögð innan skólanna og það tel ég einmitt, og er sammála umboðsmanni, að sé mjög brýnt því innan skólanna tíðkast víða sá hugsunarháttur að börn sé ekki neytendur menntunar, heldur séu frekar skjólstæðingar.

Ég vil sérstaklega nefna hér einelti sem er skömm á íslensku skólakerfi. Samkvæmt rannsóknum í nágrannaríkjunum má gera ráð fyrir að um 10% skólabarna séu þátttakendur, gerendur eða þolendur í eineltismálum. Við vitum það vegna þess að þessi umræða hefur fyrst núna allra síðustu ár verið að koma upp á yfirborðið, þ.e. fólk hefur komið fram í fjölmiðlum, fullorðið fólk, og lýst líðan sinni sem börn og áhrifum þessa á þroska og vöxt til fullorðinsára. Það er mitt mat að umræða um einelti sé sama marki brennd og umræða um kynferðislega misnotkun á börnum, þ.e. þetta er haft í þagnargildi. Okkur reynist erfitt að ræða þetta. En það skiptir mestu máli að umræðan er hafin. Við megum ekki láta þetta viðgangast án þess að vera tilbúin til þess að gera miklar umbætur á þessum málum innan skólakerfisins. Skólaganga barna er nokkurs konar rússnesk rúlletta því að nýjustu rannsóknir um einelti sýna að hver sem er getur lent í þessu. Gamla kenningin um rauðhærða strákinn, freknóttu stelpuna og gleraugnagláminn er úrelt. Þróun rannsókna í þessum málum, í geðsjúkdómafræðinni og öðrum fræðigreinum sem koma við líðan barna í skóla, er mjög hröð. Þær rannsóknir hafa ekki skilað sér inn í íslenskt skólakerfi. Þar eru gömlu viðhorfin enn við lýði og þar af leiðandi aðgerðir sem ekki virka.

Það að barn verður fyrir einelti eða einelti líðst í skóla og ekki er tekið á því þannig að bót sé að, skilar sér til barnanna og allra sem upp á horfa að verið sé að viðurkenna ofbeldi. Og nýjar rannsóknir á dæmdum ofbeldismönnum í Noregi sýna einmitt að þeir eiga sér forsögu innan skólakerfisins sem aðilar í eineltismálum. Nú vil ég taka það fram að það líða allir fyrir þetta, ekki bara þolandinn heldur einnig gerandi og þessi stóri meiri hluti sem horfir upp á. Það líða allir fyrir eineltið.

Ég hef orðið vör við vaxandi hræðslu á meðal foreldra á landsbyggðinni sem búa í smærri bæjarfélögum við það hvað framtíðin ber í skauti sér eftir yfirtöku sveitarfélaganna á skólakerfinu. Það getur verið að í huga einhverra séu þessir hlutir alveg skýrir, en í huga margra sem vinna í sveitarstjórnarmálum er það ekki alveg skýrt til hvers er hægt að snúa sér ef mál fara í hnút heima í bæjarfélaginu. Ber menntmrn. ábyrgð á því ef skóli í litlu bæjarfélagi úti á landi tekur ekki viðunandi á vanlíðan barns?

Börnin eru skyldug til að ganga í skóla, það eru lög þar um. Hér í Reykjavík er auðvelt fyrir börn að flytja sig um set, fara í annan skóla ef ekki næst viðunandi lausn á þeirra málum innan síns skóla. Þau geta fært sig á milli bekkja jafnvel sem stundum er lausn. Það hefur ekki leyst þeirra vanda en þau geta flúið svona allan sinn skólatíma. Þau eru mörg þessi börn og það væri gaman að heyra hvort þau eru skráð einhvers staðar. Barn í litlu bæjarfélagi getur ekki flúið, hvorki í annan bekk --- þá er ég að sjálfsögðu að tala um bæjarfélag sem er það fámennt að það er aðeins einn bekkur í árgangi --- né heldur í annan skóla vegna samgangna. Því miður finnast mörg mál af þessum toga víða í íslensku samfélagi. En í menntmrn. bíða úrskurðar mál af ýmsum toga er varða vanlíðan barna. Ég veit um mál sem hefur beðið að mínu mati allt of lengi.

Regluleg umræða um skýrslu umboðsmanns barna er mjög nauðsynlegur vettvangur til þess að minna á öll þessi atriði þannig að þingmenn fái tækifæri til að tjá sig í umræðu sem er föst í dagskrá þingsins árlega.

Ég nefndi það að fólk er almennt ekki klárt á því hvert hægt sé að leita núna ef upp koma samskiptaörðugleikar innan skólans. Í litlu bæjarfélagi getur staðan verið sú að skólastjórinn situr í bæjarstjórn.

Það kemur fram í skýrslu umboðsmanns barna að við verðum að huga mjög vel að öllum verkefnaflutningi til sveitarfélaganna sem varðar börn og ungmenni. Sveitarfélögin eru að taka við mjög mörgum verkefnum sem þau hafa ekki haft áður en eiga nú að bera algjöra ábyrgð á. Einnig þarf að skýra mjög hver verkaskiptingin verður. Þegar við ræðum núna um flutning skólanna þá erum við eingöngu að ræða um kjör kennara. Það kemur sjaldan fram hversu mikilvægt er að börn í skólum landsins fái vel þjálfað starfsfólk sem fær tækifæri til þess að sinna starfi sínu vel.

Ég vil aðeins nefna hugsanlegt mál barns sem fær ekki lausn í sínum skóla vegna eineltis eða ofbeldis. Það barn getur hringt til umboðsmanns barna og hann tekur það niður. Hann getur ekki leyst mál einstaklinga. Ef barnið á duglega foreldra og ef foreldri er ekki niðurbrotið eftir samskipti sín við skólann, er hægt að skrifa bréf til menntmrn. Foreldri þarf bara að þekkja örlítið til laga og reglna um upplýsingaskyldu, þ.e. hvernig á að fá þær á réttan hátt þannig svörin séu skilvirk en ekki aðeins svarbréf sem vísar eitthvert annað. Barnið getur líka leitað til barnaverndarnefndar í bænum. Hvað gerist þá? Þá kemur í ljós að barnaverndarnefndir hafa ekki yfir skólunum að ráða. Í lögum er ákvæði um vernd barna og unglinga og allir sem starfa með börn skulu hlíta þeim hvar sem er í þjóðfélaginu. En í raun og veru eru lög um börn og ungmenni gölluð að því leytinu til að þau ná, þegar talað er um stofnanir, eingöngu yfir stofnanir félmrn.

Við getum tekið dæmi. Segjum sem svo að barn komi grátandi í skólann með áverka sem það segist hafa fengið heima. Barnið segir jafnvel að það þori ekki heim til sín þegar skólinn er búinn á daginn. Þá er mjög auðvelt fyrir vökult fólk innan skólans að taka á þessu máli og það er alveg nóg að snúa sér þá til barnaverndarnefndar. Hún hefur umboð til þess að fara heim til barnsins og athuga út af hverju barnið þorir ekki heim til sín.

Ef við snúum þessu við. Barn kemur grátandi með áverka úr skólanum. Ef barn segist ekki þora í skólann, þá er sama leið ekki fær fyrir foreldri sem vill hlusta á barnið sitt.

[19:15]

Í skýrslunni fjallar umboðsmaður um barnavernd á bls. 73 og telur að endurskoða þurfi stöðugt lög um vernd barna og ungmenna. Umboðsmaður félmrn. hefur starfrækt nefnd um skeið en að því er mér skilst er sú nefnd ekki að störfum núna. Ég mundi vilja sjá stöðugt starf eiga sér stað innan ráðuneytisins við að endurskoða lög um vernd barna og ungmenna.

Í skýrslunni kemur einnig fram að starfshættir barnaverndarnefnda þurfi að vera betri. Með leyfi forseta vil ég lesa hér nokkrar línur í skýrslunni:

,,Það sem einkennir meðferð barnaverndarnefnda á málum þessara tilteknu barna er einkum hversu lítið virðist hlustað á óskir þeirra og skoðanir.``

Umboðsmaður er að tala um börn sem kvarta undan starfsháttum barnaverndarnefnda.

,,Til undantekninga virðist heyra að barni sé skipaður talsmaður. Óskilvirkni og seinagangur í að afgreiða barnaverndarmál leiðir síðan til þess að barnið sem nefndinni ber að hugsa fyrst og síðast um líður sáran fyrir.``

Hér er á ferðinni mál sem við Íslendingar höfum rætt árum saman, þ.e. að bæta störf barnaverndarnefnda og svo sannarlega eru í skýrslu umboðsmanns barna margar ábendingar um að þörf er á að við skoðum bæði lög og starfshætti þeirra sem að lögum skulu vinna.

Ég hef ákveðið að tala ekki lengi. Það er komið seint fram á kvöld. Ég hafði vonast til þess að fleiri gætu talað í þessu máli. Ég get þó ekki lokið máli mínu án þess að nefna það sem við getum kallað alvarlegasta glæpinn í samfélaginu, þ.e. kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum. Í skýrslu sinni bendir umboðsmaður barna á mörg atriði um það sem ábótavant er, bæði í rannsókn þessara mála og allri meðferð þeirra og líka hvað snertir lagasetningar og segir, með leyfi forseta:

,,Af þessu tilefni hef ég því ákveðið að láta gera samanburð á þessum ákvæðum íslenskra og norrænna hegningarlaga og réttarfarslaga sem varða kynferðisbrot gegn börnum, meðferð slíkra mála og og framkvæmd hér á landi. Skýrslu um þetta efni mun ég senda frá mér á næsta ári.``

Svo segir umboðsmaður barna á bls. 83.

Sú skýrsla er komin út og ég vil þakka sérstaklega hana.

Konur sem kenndar eru við Stígamót hafa nú um áraraðir barist fyrir því að vitneskja sem þær búa yfir sé notuð í málsmeðferð þegar um er að ræða kynferðisglæpi gegn börnum. Þeir hlutir hafa gengið allt of hægt fyrir sig, þ.e. að bæta starfsaðferðir og bæta lög. Mér þótti það miður þegar þessi skýrsla kom út og ég áttaði mig ekki á því að þetta var skýrslan sem ég hafði beðið eftir og séð í skýrslu umboðsmanns barna, þ.e. skýrsla um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum, vegna þess að í fjölmiðlum var lítið talað um þessa skýrslu og þær góðu ábendingar sem þar koma fram, heldur var umræðan öll um kynlíf unglinga og við hvaða aldurstakmörk unglingar ættu að miða kynlíf sitt. Þetta gripu fjölmiðlamenn út úr greinargerð frá umboðsmanni þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Tillaga mín er að ákvæði almennra hegningarlaga verði látin ná til barna yngri en 16 ára.``

Hún leggur til að hækka aldursmörkin úr 14 ára í 16 ára. Hvernig gátu fjölmiðlamenn farið að valsa um bæinn með hljóðnema og talað við krakka niðri á götuhornum um það hvenær þeir vildu byrja kynlíf þegar innihald skýrslunnar er það að vernda börn gegn kynferðisglæpum?

Ég vil ljúka máli mínu með því að benda þingmönnum á að lesa þessa skýrslu, Heggur sá er hlífa skyldi, og kynna sér það sem umboðsmaður barna hefur komist að niðurstöðu um eftir að hafa borið saman starfsaðferðir og lög hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Ég vil ekki lengja mál mitt með því að fara í gegn um það. Ég veit veit að þingmenn, og hef séð það þessar tvær vikur sem ég hef verið hér, eru mjög ötulir og duglegir að kynna sér mál og hef þar af leiðandi ekki áhyggjur af því að þeir fái ekki þessa vitneskju öðruvísi en að ég sé að segja frá henni hér.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég þakka fyrir það tækifæri að hafa fengið að flytja mál mitt áður en ég fer af þingi og minna á að börn eru allt að því þriðjungur Íslendinga, þriðjungur þjóðarinnar. Og lokaorðin í greinargerðinni fjalla um það að börn eru ekki þrýstihópur og hafa ekki þroska til að setja sér heilsteypt markmið sem þjóna hagsmunum þeirra og þörfum til að fylgja þeim eftir. Þess vegna er þörf á því að yfirvöld séu mjög vakandi gagnvart hagsmunum þessa yngsta aldurshóps.