Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 13:53:48 (506)

1997-10-15 13:53:48# 122. lþ. 9.3 fundur 78. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um túnfiskveiðar en fyrir tæpum tveimur árum, eða 1. nóvember 1995, lagði ég fram fyrirspurn um sama efni. Í kjölfarið var leitað eftir samstarfi við Japani um tilraunaveiðar á túnfiski innan íslensku lögsögunnar og hefur það samstarf verið veiðitímabilið 1996 og á þessu ári. Lítið hefur spurst frá ráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun um árangur þessa samstarfs okkar við Japani, en í fjölmiðlum heyrist að túnfiskaflinn hafi verið mjög góður í sumar, allt upp í 2,5 tonn af túnfiski á dag og að meðaltali um eitt tonn á dag.

Sá túnfiskur sem við veiðum hér í Norðurhöfum og við Íslandsstrendur er kallaður bluefin á ensku eða bláuggi á íslensku en það er langverðmætasti túnfiskurinn sem veiddur er í heiminum. Þessi þrjú japönsku skip hafa verið að veiðum í íslenskri landhelgi frá í júlí og fram í byrjun þessa mánaðar í ár og hafa fengið aflaverðmæti á bilinu 500--1.000 millj. kr. eftir því hvort miðað er við frosinn eða ferskan túnfisk á markað. Til glöggvunar er verðmæti eins kílós af frosnum túnfiski um 2.300 kr. á japönskum markaði en verð á ferskum túnfiski um 3.500--5.000 kr. á sama markaði fyrir hvert kíló. Ekkert liggur fyrir um hve mikið hefði mátt veiða af túnfiski innan lögsögunnar en miðað við þessar upplýsingar gæti sá afli skipt hundruðum tonna og milljörðum kr. í útflutningsverðmæti.

Það hefur valdið vissum vonbrigðum að íslenskir útgerðarmenn færu ekki af stað í þessar veiðar en ein ástæðan hefur verið sú að ekki hefur fengist leyfi fyrir sérhæfð erlend leiguskip til túnfiskveiða innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Aðeins eitt íslenskt skip hefur hafið túnfiskveiðar en það er Byr VE. Þeir hættu veiðum í gær og fengu engan afla. Ástæða þess er einfaldlega sú að þeir voru of seinir af stað, fóru ekki fyrr en í þessum mánuði þegar þarf að byrja í júlí. Að mati útgerðarmanns Byrs VE þarf hann að fjárfesta í frysti og tromlu í skip sitt fyrir um 10--12 millj. kr. svo hann geti tekið þátt í veiðinni á næsta ári. Að hans mati er ekkert vandamál fyrir skip eins og hans, sem er um 170 tonn að stærð, að leggja jafnlanga línu og Japanar, um 75 mílna langa. Geymslan er aftur á móti vandamál ef frysta á aflann um borð, en sérstakan útbúnað þarf svo að frysta megi túnfiskinn niður í 60° frost á skömmum tíma en úr því má bæta.

Ég tel að ráðuneytið þurfi að fara að gefa út upplýsingar til útgerðarmanna um hvers megi vænta í þessum efnum, eins og hvort Hafrannsóknastofnun muni á næsta ári hefja einhverja túnfiskleit, hvort veiðarnar verði frjálsar innan og utan landhelginnar á næsta ári og einnig um fjárhagsaðstoð.

Það er ljóst, herra forseti, að miðað við þær fréttir sem eru af túnfiskveiðinni í sumar er hér um mikla tekjumöguleika að ræða sem geta skapað þjóðarbúinu tekjur sem skipta milljörðum kr. Ég hef því lagt eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh.:

1. Er heimild í lögum til þess að stunda túnfiskveiðar í atvinnuskyni innan íslensku fiskveiðilögsögunnar með íslenskum skipum eða erlendum leiguskipum á leigusamningi hjá íslenskum fyrirtækjum? Ef ekki, stendur þá til að breyta lögunum?

2. Eru fyrirhugaðar einhverjar aðgerðir af hálfu ráðuneytisins til að auðvelda íslenskum útgerðarmönnum að stunda túnfiskveiðar innan eða utan íslensku fiskveiðilögsögunnar?

3. Er verið að undirbúa inngöngu Íslands í Alþjóðatún\-fiskráðið?

4. Hver er árangur af tilraunaveiði á túnfiski í samstarfi Íslendinga og Japana á þessu og síðasta ári?