Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:04:23 (511)

1997-10-15 14:04:23# 122. lþ. 9.3 fundur 78. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég verð nú að lýsa dálitlum vonbrigðum mínum með að ekki skuli neitt vera fyrirhugað af hálfu ráðuneytisins til að upplýsa útgerðarmenn og sjómenn um hvernig staðan í þessum málum er. Það er náttúrlega ljóst að sú túnfiskganga sem hefur komið í sumar er ekki árviss viðburður þannig að menn geta ekki gert ráð fyrir að túnfiskurinn sé nærri landi hvert ár svo hægt sé að sækja hann á einhver vís mið. Eigi að síður vitum við að Japanar eru búnir að stunda túnfiskveiðar hér suður af landinu í áraraðir. Þeir senda skip sín fleiri þúsund mílur frá Japan til að ná í túnfisk hér á norðurslóðum. Fyrir okkur að fara nokkur hundruð mílur suður fyrir land til að ná í þessa fisktegund hlýtur að vera mjög auðvelt verk miðað við þá vegalengd sem Japanar þurfa að leggja að baki. Ég held að við vanmetum dálítið þá möguleika sem eru í túnfiskveiðunum. Við leggjum ekki nógu mikla rækt við þetta og tökum ekki mark á því, finnst mér, hvað er að gerast þarna.

Árangurinn sem hefur komið í ljós af túnfiskveiðunum í sumar bendir eindregið til þess að við eigum að vera mjög ákveðnir í að efla þessar veiðar á næsta ári með rannsóknum, með aðstoð Hafrannsóknastofnunar og einnig með því að hvetja alla þá sem að þessu koma, útgerðarmenn sem aðra, til að kynna sér málið ítarlega. Ég hvet hv. ráðherra til að senda allar upplýsingar sem til eru um þetta mál til útgerðarmanna og hvet þá um leið til að kynna sér málið betur.