Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:06:37 (512)

1997-10-15 14:06:37# 122. lþ. 9.3 fundur 78. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:06]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það gætir einhvers misskilnings í máli hv. fyrirspyrjanda. Ráðuneytið hefur komið á framfæri öllum upplýsingum sem fyrir liggja um túnfiskveiðarnar og hvatt útgerðarmenn til að kanna þessa möguleika. Það er alveg vafalaust svo að þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi. Við vitum auðvitað ekki enn hversu miklir eða hvort þeir eru tímabundnir. Út af fyrir sig er því eðlilegt að útgerðarmenn sýni ákveðna varkárni í miklum fjárfestingum.

Það var ákveðið að gera þessa rannsóknasamninga við japönsku aðilana til þess að fá upplýsingar. Það var auðveldasta og hagkvæmasta leiðin. Við töldum mjög mikilvægt að þessar rannsóknir færu fram. Þær hafa ótvírætt sýnt fram á að eins og sakir standa finnst túnfiskur hér og við getum talið okkur til strandveiðiþjóða í þessum efnum. Það koma hins vegar upp ýmis lögfræðileg vandamál varðandi inngönguna í Túnfiskveiðiráð Atlantshafsins. Þar hafa verið teknar ákvarðanir um að skipta upp veiðiheimildunum og við getum ekki undirgengist þær ákvarðanir sem fyrir liggja í ráðinu. Ef við eigum að ganga þar inn þá þarf að vera ljóst að réttur okkar sé viðurkenndur í þeim efnum. Það eru nokkrar fleiri þjóðir við Atlantshafið sem eiga svipaðra hagsmuna að gæta og eru núna að skoða afstöðu sína gagnvart túnfiskveiðiráðinu. Við munum kappkosta að reyna að hafa samstarf og samvinnu við þessar þjóðir til að verja réttindi okkar innan þeirrar svæðastofnunar sem ber ábyrgð á stjórn túnfiskveiðanna í Atlantshafinu.