Ríkisreikningur 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:55:44 (564)

1997-10-16 12:55:44# 122. lþ. 11.4 fundur 97. mál: #A ríkisreikningur 1996# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:55]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessa ræðu og frv. og ég tek undir margt af því sem hann sagði um tæknilegan búning málsins sem vekur mig til umhugsunar um að ríkisreikningurinn er í rauninni mikilvægasta stýritækið við stjórn ríkisfjármála. Þess vegna ætti það að vera þannig að mínu mati að þegar fram fara umræður um ríkisreikninginn hér í salnum væri setinn helst hver bekkur vegna þess að ef menn fara yfir ríkisreikninginn og bera hann saman við þau fjárlagafrumvörp sem menn eru að fjalla um á hverjum tíma sjá menn þær breytingar sem eiga sér stað í meðferð ríkisfjármála á hverjum tíma og þær breytingar sem eiga sér stað t.d. í fagráðuneytunum.

Það er umhugsunarvert fyrir okkur sem höfum verið um skeið að átta okkur á því að þegar ríkisreikningarnir eru orðnir svona nálægt nútímanum þá virðast þeir ekki hafa miklu meiri vigt í hinni daglegu pólitísku umræðu en þeir höfðu þegar þeir voru 10 og 20 ára gamlir. Ég held að þetta stafi að einhverju leyti af því að Alþingi hefur ekki náð að fjalla jafnskipulega um þessi mál og við erum vafalaust öll sammála um að sé nauðsynlegt. Þess vegna kvaddi ég mér hér hljóðs, herra forseti, að á borðum okkar í dag er svo líka skýrsla bresku ríkisendurskoðunarinnar um vinnubrögð Ríkisendurskoðunar okkar þar sem Ríkisendurskoðun okkar, sem kemur reyndar við sögu síðar á fundinum, fær ákaflega góða einkunn frá bresku ríkisendurskoðuninni. Meðferð ríkisreikninga er hælt svo að segja í hástert að öðru leyti en því að gagnrýnt er í þessu skjali að ríkisreikningarnir hafa ekki neitt öruggt ferli sem tryggir að tekið sé tillit til ábendinga um annmarka og tillögur að leiðréttingum eða eins og segir í skýrslunni á bls. 17, tölul. 24:

,,Þrátt fyrir að ríkisreikningur ásamt afriti af skýrslu ríkisendurskoðanda sé formlega lagður fram til samþykktar á Alþingi`` sem er að vísu ekki alveg rétt, en látum það nú vera, það er bara ríkisreikningurinn sjálfur, ,,þá er ekki til staðar neitt formlegt ferli sem tryggir að tekið sé tillit til ábendinga um annmarka og tillögur að leiðréttingum. Án formlegs þrýstings frá Alþingi á ráðuneytin er erfitt fyrir stofnunina að fylgja eftir tillögum til þess að tryggja að endurbætur sem fram komu við endurskoðunina komist í framkvæmd.``

Ég ætla ekki að lesa meira upp úr skjalinu enda kemur það til meðferðar hér eða umræðu síðar á þessum fundi eins og ég sagði. En ég dreg þetta fram hér vegna þess að ég tel að einn aðalgallinn á vinnubrögðum Alþingis í dag sé sá að ekkert ferli er til sem tryggir að það sé farið sérstaklega með ríkisreikninga og fjallað um þá með þeim hætti sem á að gera í nútímastjórnsýslu og nútímaþingum og gert er t.d. í grannlöndum okkar. Þegar við ákváðum að leggja niður yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, sem ég hygg að ég hafi átt dálítið frumkvæði að vegna þess að ég taldi að það væri út í hött að hafa ákvæði í stjórnarskránni um að kjósa á hverju ári yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, þá held ég að hitt sé engu að síður alveg ljóst að við verðum sem allra fyrst að tryggja að eitthvert eftirlitsferli komi í þinginu í staðinn fyrir þetta ferli sem taki á ríkisreikningunum, taki á einstökum ábendingum Ríkisendurskoðunar og komi því rækilega á framfæri við viðkomandi ráðuneyti og fylgi þannig málunum eftir.

Þetta vildi ég nefna, herra forseti, í umræðunni um frv. til laga um staðfestingu á ríkisreikningi.