Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:03:06 (601)

1997-10-16 17:03:06# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:03]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er fram komin er mjög athyglisverð, bæði vegna þess hvað lagt er til í henni og eins hins hvað hún leiðir fram að öðru leyti. Það er rifjað upp í greinargerð með tillögunni að fyrir þremur árum hafi verið samþykkt sérstök stefnumótandi byggðaáætlun fyrir næstu fjögur ár, 1994--1997. Þessi stefnumótandi byggða\-áætlun sem var sú fyrsta sem samþykkt var af þessu tagi og var leidd af oddvita ríkisstjórnarinnar, formanni Sjálfstfl., byggði áætlun sína á þremur meginforsendum eða þremur markmiðum sem menn ætluðu sér að ná og í greinargerð með þessari tillögu er rakið að markmiðin hafi verið þessi:

1. Að treysta byggðina.

2. Að efla hana á þeim svæðum þar sem væri hægt að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita góða þjónustu.

3. Að draga úr fólksflutningum frá landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið.

Við heyrðum áðan nýjar upplýsingar frá Hagstofu Íslands um íbúaflutninga á þessu ári og öll þekkjum við hvernig þeir flutningar hafa verið á árunum þar á undan frá 1994. Það er skemmst frá því að segja að ekkert þessara markmiða hefur náðs. Það má líka orða það þannig að mistekist hafi fullkomlega að ná þessum markmiðum. Fullkomlega hefur þetta mistekist og það er mikið umhugsunarefni. Ég ætla ekki að leggja það allt á herðar ríkisstjórnarinnar að hún beri ábyrgð á því að allt þetta sem hún ætlaði sér að gera hafi mistekist, fjarri því. Mér er ljóst að orsakir þess að svona hefur farið eru flóknar og margþættar og ekki sanngjarnt eða eðlilegt að ætla einni ríkisstjórn að bera þar alla ábyrgð á. En ég vil heldur ekki draga úr þeirri skoðun minni að ég tel að ríkisstjórnin hafi staðið sig afar slælega, svo ekki sé meira sagt, í þessum efnum.

Því sem þessi ríkisstjórn og sú síðasta á undan henni beitti sér fyrir til þess að ná þessum markmiðum var afar fátæklegt og henni verður ekki mikið hælt fyrir að sinna þessu verki af alúð og kostgæfni. Þvert á móti má segja að meginstefna þessara tveggja ríkisstjórna hafi verið afskiptaleysi. ,,Mér kemur þetta ekki við.`` Það hefur verið rauði þráðurinn í verkum tveggja síðustu ríkisstjórna, þ.e. afskiptaleysi af þessum málum.

Við munum sjá síðar í vetur hvort einhver breyting verði á þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Það liggur fyrir að það á að semja nýja áætlun, nýja stefnumótandi byggðaáætlun fyrir næstu fjögur ár, 1998--2002 og sú áætlun mun væntanlega koma inn í þingsali fyrir jól ef að líkum lætur og þá munum við sjá hvaða áherslur ríkisstjórnin hyggst leggja í þessum efnum.

Ég vil hins vegar segja um tillöguna sem flutningsmennirnir níu leggja hér fyrir okkur að hún er út af fyrir sig nokkuð góð. Hún er örugglega lögð fram af góðum hug og því að þeir hafa gert sér grein fyrir að þörf er á viðbrögðum stjórnvalda. Þeir hafa áttað sig á því að ætlast er til þess af ríkisstjórn á hverjum tíma og stjórnvöldum að beita sér í málinu. Ég lít svo á að tillaga þeirra sé svar við þessari kröfu sem stendur upp á þá eins og aðra þingmenn landsbyggðarinnar.

Ég vil nefna fáein atriði sem ég tel að skipti verulegu máli og skýri að einhverju leyti a.m.k. þá þróun sem hefur verið í gangi og er enn í gangi. Það er þjónustustaðan. Það er fyrst og fremst hvernig skólakerfið er á landsbyggðinni, bæði grunn- og framhaldsskólastigið. Það hefur verið rifjað hér upp af einum ræðumanni að framhaldsskólanám er ýmsum foreldrum dýrt á landsbyggðinni þar sem þau þurfa að senda börn sín frá sér til skóla sem er auðvitað víða og hlýtur alltaf að verða svo. En stuðningur samfélagsins við það nám er sáralítill miðað þann kostnað sem námi hefur í för með sér.

Í öðru lagi nefni ég læknisþjónustu. Hún þarf að vera traust. Menn þurfa að vera öryggir um að geta notið góðrar læknisþjónustu, ekki bara á fögrum sumardögum heldur líka þegar válynd eru veður.

Í þriðja lagi þurfa samgöngur að vera greiðar. Það held ég að sé eitt af lykilatriðunum í allri byggðaþróun. Byggðin hlýtur alltaf að þróast en til þess að hún þróist ekki á þann veg sem verið hefur, þá held ég að eitt af lykilatriðunum séu góðar samgöngur innan héraða og milli héraða. Vissulega hefur nokkuð verið gert í því að treysta samgöngur, einkum með sérstökum fjárveitingum á síðasta kjörtímabili, en það hefur líka verið mikið gert af því að skerða framlög til samgöngumála og má nefna flugmálaáætlun og vegáætlun því til sannindamerkis. Og vilji stjórnvöld á hverjum tíma virkilega leggja sitt af mörkum til að skapa skilyrði sem geta snúið þróuninni við, þá verða stjórnvöld að setja mikla peninga í samgöngubætur á næstu fimm til tíu, mikla peninga. Það held ég að sé grundvallaratriði.

Ég vil líka nefna efnahagslega afkomu sem er mismunandi. Það er staðreynd sem hefur farið fram hjá mörgum að meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu eru hærri en meðaltekjur á landsbyggðinni. Það eru betri tekjuöflunarmöguleikar á höfuðborgarsvæðinu, fleiri hálaunuð störf og fjölbreyttari störf heldur en menn geta gengið að úti á landi.

Að lokum, herra forseti, vil ég nefna eitt atriði sem ég tel að skipti miklu máli og það er að menn geti þar sem þeir búa nýtt sér gæði lands og sjávar. Þar á ég fyrst og fremst við fiskimiðin, þ.e. að fólk sem býr í sjávarplássunum búi við löggjöf sem geri mönnum kleift að nýta þessa auðlind betur en nú er.