Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:57:09 (620)

1997-10-16 17:57:09# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:57]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er orðið áliðið dags og ég ætla ekki að tefja umræðuna mikið en get ekki stillt mig um að segja hér örfá orð. Ég get varla talið mig fulltrúa höfuðborgarsvæðisins þó að ég sé búin að búa hér í 38 ár vegna þess að ræturnar eru það sterkar í heimabyggð minni að mér finnst ég alltaf vera hálfgerður landsbyggðarþingmaður eða þingkona. Ég segi stundum til gamans að ég telji mig vera fyrir landið allt og miðin og það held ég að við eigum bara einfaldlega að gera. Við eigum að hafa þroska og vit til þess að skoða þetta allt í samhengi og líta á allt landið þegar við erum að taka ákvarðanir.

Margt mjög merkilegt hefur komið fram í umræðunni og eitt af því sem hefur svolítið verið rætt er ímynd landsbyggðarinnar og ég vil taka undir það. Mér finnst skipta mjög miklu máli að fólk sjái jákvæðu hliðarnar við hvert byggðarlag og sé ekki einmitt með þessa hugsun að allt þurfi að vera nákvæmlega eins, möguleikarnir nákvæmlega hinir sömu. Auðvitað er fjölbreytni í hinum ýmsu byggðum landsins og það er misjafnt að búa á Dalvík eða í Reykjavík og það sem einum finnst vera kostur getur öðrum þótt ókostur. Það getur svo sannarlega verið af hinu góða að geta valið um búsetu einmitt með tilliti til eigin áhugamála. Mér fannst dálítið mikið reynt að koma sökinni á fjölmiðla, að þeir gæfu svo neikvæða mynd. Auðvitað eru neikvæðar fréttir ansi áberandi í fjölmiðlum landsins eins og í fjölmiðlum yfirleitt og það er einfaldlega vegna þess að það neikvæða sem gerist í mannlífinu er í sjálfu sér það óeðlilega. Það eru fréttirnar ef það er eitthvað neikvætt. Mönnum hættir til að finnast eðlilegt að allt sé jákvætt og fari vel fram. Það séu svo sem engar fréttir þó að einhver kór syngi vel á Dalvík eða opnuð sé sýning á Höfn í Hornafirði. Það þykja engar stórfréttir hér og margt fólk hér kvartar yfir því að ekki sé ekki sagt frá ýmsu góðu sem gerist í höfuðborginni.

[18:00]

Myndin sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir dró upp af landsbyggðarmönnum með tóbakið lafandi niður á bringu, það eru nú sem betur fer ekki alltaf slíkar myndir sem birtast af landsbyggðarmönnum. Það eru líka heldur betur myndir af léttklæddum meyjum í sólskininu á Egilsstöðum eða á Akureyri og af börnum að leik með dýrum úti á landsbyggðinni. Svo sannarlega eru neikvæðar fréttir úr höfuðborginni. Maður veltir því stundum fyrir sér hvernig nokkrum landsbyggðarmanni dettur yfirleitt í hug að koma til þessarar borgar þar sem miðborgin er eitt styrjaldarsvæði má segja um helgar og það eru sífelldar fréttir af naggi og rifrildi hér á þessu svæði.

En svo ég víki nú aðeins að nákvæmlega því sem hér er til umræðu. Fyrir rúmum áratug sat ég nefnilega í merkilegri nefnd sem kölluð var byggðanefnd þingflokkanna. Hún ræddi það auðvitað á mjög mörgum fundum hvernig bregðast skyldi við þeirri vá sem fælist í byggðaröskun og hinum alvarlega flótta manna af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Það sem mér fannst nú eiginlega merkilegast þegar ég byrjaði að starfa í þeirri nefnd var hversu margar skýrslur voru til og hversu margar nefndir höfðu verið að ræða nákvæmlega þetta sama mál. Ég var að reyna að leggja eitthvað nýtt til málanna sem ég veit svo sem ekki hvort mér tókst en mér fannst það a.m.k. ekki fá mikið vægi í þeirri skýrslu sem kom út úr starfi nefndarinnar. En mér finnst kannski of mikið talað um að flóttinn af landsbyggðinni eins og hann er gjarnan kallaður --- ég vil nú frekar tala bara um fólksflutninga --- sé ekki bara vegna einhverra aðstæðna í atvinnulífinu, hann stafar ekki bara af því að samgöngur séu erfiðar eða raforkuverðið misjafnt. Ég held reyndar að t.d. kostnaður vegna barna í framhaldsnámi sé talsverður áhrifavaldur því það eru mörg dæmi þess að fjölskyldur hafi ekki bara látið sér lynda heldur líkað mjög vel að búa á landsbyggðinni á meðan börnin eru ung en síðan hafi fjölskyldan tekið sig upp og flutt til höfuðborgarsvæðisins til þess að vera með börnunum þar sem þau eiga kost á fjölbreyttari menntun.

En það er ekki bara þetta heldur vil ég nefna tvö önnur atriði. Það er í fyrsta lagi kröfur um fjölbreytni og ekki aðeins í atvinnulífi, sem skiptir auðvitað miklu, heldur einnig í menningarlífi, sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir talaði um að væri mjög gott á landsbyggðinni og ég efast ekkert um. Við þekkjum svo sem ýmislegt um slíkt. En menn vilja geta valið um afþreyingu, geta valið milli kvikmyndahúsa, milli leikhúsa, milli veitingahúsa, íþróttakosta og hver veit hvað. Þó að það sé blómlegt menningarlíf víða utan höfuðborgarsvæðisins þá verður það auðvitað aldrei eins fjölbreytt og hér. Ég þekki mann sem fer aldrei í kvikmyndahús en hann vill alveg endilega búa þar sem eru 10 til 20 kvikmyndhús svo hann viti af þessu vali.

Ég vil nefna annað sem skiptir miklu og það er aukið sjálfstæði kvenna. Aukin atvinnuþátttaka kvenna og auknar kröfur kvenna um atvinnu og möguleika af ýmsu tagi sem eru við þeirra hæfi. Það er auðvitað liðin sú tíð að konan og börnin fylgi eiginmanninum eða heimilisföðurnum möglunarlaust hvert á land sem er. Nú sé ég að ljósið er farið að blikka. Það er fljótur að líða þessi tími þannig að ég hef ekki tíma til að fara lengra út í þetta.

Ég er ekki að mæla gegn þessari tillögu. Ég styð efni hennar og sé ekkert á móti því að stutt sé við það starf sem Byggðastofnun hefur verið falið. Ég vil aðeins nefna eitt ef ég má, herra forseti.

(Forseti (ÓE): Tíminn er búinn.)

Já, takk fyrir.