Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 18:22:27 (625)

1997-10-16 18:22:27# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:22]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi einmitt kristallast í umræðunni að þessi byggðaþróun sem við erum að ræða er vandamál Íslendinga allra. Þetta er vandamál okkar allra en ekki landsbyggðarinnar einnar. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal og fleirum sem hafa nefnt það hér í dag að líklegasta og vænlegasta leiðin til árangurs er að bregðast við þessu með almennum aðgerðum, þ.e. búa landsbyggðinni þá umgjörð að hún geti notið þeirra lífsgæða sem nútímafólk vill njóta. Meðal annars má minna á tillögu þingmanna jafnaðarmanna um fjarkennslu sem er einmitt innlegg í það að búa betri umgjörð fyrir landsbyggðina. En það var ekki meginástæðan fyrir því að ég kom hér upp í andsvar. Meginástæðan er sú að ég vil kalla eftir viðhorfum þeirra níu þingmanna sem ég skilgreindi sem svo að væru með eins konar upphlaup eða mótmælaaðgerðir gagnvart stefnu núverandi ríkisstjórnar. Hvernig ætla þeir að bregðast við þegar vegáætlun kemur fram núna á næstu dögum? Er þetta þeirra eina mótmælaaðgerð gegn þeirri byggðastefnu sem núverandi ríkisstjórn rekur? Vegna þess að vegáætlun og vegaframkvæmdir eru almennar aðgerðir í því skyni að bæta umgjörð landsbyggðarinnar. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig þeir níu hv. þm. sem að þessari þáltill. standa, m.a. formaður samgn., munu taka á þeirri vegáætlun, sem þeir hafa séð en við reyndar ekki, sem virðist fela í sér einhvers konar niðurskurð. Þar er prófið. Prófið er ekki að vera hér með eitthvert pólitískt upphlaup. Reyndar eru þetta um margt ágætar tilögur þó þar megi draga ýmislegt í efa. En þar verður prófið. Þar munum við sjá hvort þeir meina eitthvað með þeirri tillögu sem hér er lögð fram eða hvort hún er bara pólitísk sýndarmennska.