Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 18:26:21 (627)

1997-10-16 18:26:21# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:26]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi það áðan að það væri kominn sérstaklega góður tónn í þann sem hér stendur. Ég held einmitt að það sé full ástæða til þess að vekja athygli á því hversu alvarleg þróun þetta er og það kallar á að menn brýni örlítið raustina til þess að vekja menn til umhugsunar. Á hinn bóginn spurði ég hv. þm., sem fulltrúa fyrir þennan níu manna skæruliðahóp sem flytur þessa tillögu, hvernig þeir ætla að bregðast við þegar raunverulega á reynir og hæstv. samgrh. leggur fram vegáætlun með niðurskurði, eins og hann ætlar. Þessi hv. níu manna þingmannahópur er nokkuð öflugur og getur haft veruleg áhrif. Þau getum við fengið að sjá þegar vegáætlun kemur fram og hvernig henni reiðir af í þingflokkunum. En svona tillögur um efni sem hvort eð er er falið ýmist í ályktun Alþingis um byggðaáætlun ellegar innan verkefna Byggðastofnunar, eru hjóm eitt miðað við það þegar við skoðum hver niðurstaða úr þeirri vegáætlun sem hér á eftir að leggja fram verður. Þar verður prófið.