Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 18:16:41 (673)

1997-10-20 18:16:41# 122. lþ. 12.7 fundur 155. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[18:16]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar um að kvótabraskið er líklega það sem hefur komið hvað mestu óorði á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Það eru þó tvær spurningar sem vakna óneitanlega við yfirlestur þessa frv. Annars vegar hvernig flutningsmenn sjá fyrir sér endurúthlutun þeirra veiðiheimilda sem skilað er inn, því að aðeins virðist vera gerð grein fyrir því að fyrir þá endurúthlutun skuli greiða umsýslugjald, 5% af meðalverði viðkomandi tegundar á fiskmörkuðum innan lands á sl. fiskveiðiári. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hverjir hafi þá aðgang að þeim aflaheimildum. Hvort það séu allir, hvort þeim aflaheimildum verði skipt jafnt upp milli þeirra sem sækja um o.s.frv. Það væri fróðlegt að vita það.

Hin spurningin sem vaknar óneitanlega í þessu sambandi og er kannski veigaþyngri varðar það hvernig við ættum í raun og veru að snúa til baka úr því sem komið er. Á þinginu í fyrra samþykktum við frv. um samningsveð sem kveður á um að óheimilt sé að láta aflahlutdeild af skipi nema lánastofnun samþykki þann flutning. Með öðrum orðum, aflahlutdeild er orðin andlag veðsetningar og verður ekki breytt nema með samþykki lánastofnunar. Í þessu samhengi kalla ég eftir því hvort ekki hefði verið eðlilegt að samhliða þessu frv. væri þá flutt frv. þess efnis að þeirri grein sem þar var samþykkt í lögum um samningsverð og fjallaði um þá kvöð sem lögð væri á aflaheimildir, þ.e. ef ætti að flytja þær brott, yrði breytt samhliða þessu til þess að þetta gæti gengið upp.