Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:13:37 (694)

1997-10-21 14:13:37# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:13]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 165 er flutt frv. til laga um háskóla. Þetta frv. er endurflutt frá síðasta þingi og hefur ekki tekið neinum efnisbreytingum frá því að það var lagt fram á síðasta þingi. Það var rætt síðan í menntmn. Alþingis sem lauk ekki meðferð málsins en komst að samkomulagi um að flýta afgreiðslu þess nú á haustþingi.

Ef ég rifja upp höfuðatriði frv. er til þess að taka að það lýtur almennt að þeim starfsramma sem búa ber menntastofnunum sem veita æðri menntun á Íslandi. Í 2. gr. er skilgreint hvað er háskóli samkvæmt frv. og síðan er gerð grein fyrir því að háskólar geti bæði verið ríkisreknir og eins einkaskólar eða sjálfseignarstofnanir. Þá er mælt fyrir um eftirlit með gæðum menntunarinnar, með hvaða kröfur eigi að setja um skólana, hvernig skuli haga réttindum kennara og nemenda og fyrirkomulagi kennslu. Sérstaklega er fjallað um stjórn ríkisháskóla í IV. kafla frv. og í V. kafla er fjallað um fjárhag þar sem mælt er fyrir um að samið verði við skólana um fjárveitingar á grundvelli þjónustusamnings eða árangursstjórnarsamnings eða hvaða heiti menn gefa slíkum samningum. Ég vil greina frá því að viðræður menntmrn. við Háskóla Íslands um slíkan samning hafa staðið yfir í nokkur missiri og enn bíður ráðuneytið eftir því að háskólinn komi með lokahugmyndir sínar og unnt verði að ganga frá því samkomulagi.

Einnig kemur fram í fjárlagatillögum menntmrn. að því er Háskóla Íslands varðar að þar fikra menn sig inn á þá baut að semja við háskólann á þessum forsendum og fjárveitingar til skólans eru hækkaðar um 60 millj. kr. á næsta ári. Háskólamenn hafa bent á að það þurfi 250 millj. alls til þess að brúa bilið á milli fjárveitinga til skólans núna og eins og þær þyrftu að vera samkvæmt hinum nýja samningi eða reiknilíkani. Ég hef fullan hug á því að vinna þannig að því máli að það bil verði brúað á nokkru árabili. Takist okkur að auka fjárveitingar til skólans um 60 millj. á ári líður fljótt að því að við náum þeim jöfnuði í fjárveitingum til skólans sem háskólinn telur skynsamlegan miðað við reiknilíkanið.

Ég vil einnig láta þess getið sérstaklega að nefnd vinnur að því að endurskoða lög um Háskóla Íslands í ljósi þessarar rammalöggjafar og þegar lagt var af stað með hana efndi ég til fundar með forráðamönnum Háskóla Íslands. Niðurstaða okkar var að setja á laggirnar nefnd ráðuneytisins og háskólans til þess að semja sérlög um Háskóla Íslands. Sú nefnd er enn að störfum og þar verður tekin afstaða til þess hvernig eigi að haga sérstaklega lögum um Háskóla Íslands og koma til móts við þau sjónarmið sem hafa verið uppi innan háskólans og sumir háskólamenn telja að brjóti í bága við rammalöggjöfina. Ég er ekki sammála því því að ég tel að rammalöggjöfin sé þannig sniðin að unnt sé að færa undir hana þær hugmyndir sem hafa verið á döfinni innan Háskóla Íslands en þar er í raun og veru um tvær gagnstæðar hugmyndir að ræða. Annars vegar að samráðsvettvangur innan skólans verði stærri en mælt er fyrir í þessu frv. um 10 manna háskólaráð og hins vegar um það að skólinn skiptist upp í smærri skóla ef ég má orða það svo undir sameiginlegri yfirstjórn en hvort tveggja rúmast innan ramma þess frv. sem hér liggur fyrir.

Ég held að nauðsynlegt sé fyrir mig að árétta sérstaklega málefni Háskóla Íslands í framsöguræðu minni að þessu sinni því að borið hefur á því að menn hafi túlkað þessa rammalöggjöf eða frv. sem einhverja aðför að sjálfstæði Háskóla Íslands sérstaklega. Svo er alls ekki og það er mikil rangtúlkun á þessu frv. eða þeim góða samstarfsanda sem ríkir á milli mín og háskólans um það að setja fram frv. að sérlögum um Háskóla Íslands sem taki mið af þeim meginsjónarmiðum sem hér eru sett fram. En meginsjónarmiðin á bak við frv. eru þau að laga stjórnkerfi háskóla að nýjum stjórnsýslulögum, að upplýsingalöggjöfinni og færa stjórnkerfi háskóla inn á þær brautir sem samræmast kröfum um opinbera stjórnarhætti á þessum tímum. Ég held að um það deili hvorki ég né aðrir að það sé nauðsynlegt að setja háskólanum slíka löggjöf og ef menn átta sig á þeim úttektum sem hafa verið gerðar á háskólastarfi hér og annars staðar ber það allt að sama brunni að það ber og er nauðsynlegt að laga markvist lög og starfsreglur háskóla að breyttum kröfum að þessu leyti og það er gert með þessu frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsöguræðu lengri. Öll sjónarmið í málinu komu fram á síðasta þingi og ég hef gert grein fyrir hvað hefur gerst á vettvangi menntmrn. varðandi málið síðan frv. var flutt. Ég ítreka að samstarfsvilji minn við Háskóla Íslands um úrlausn mála í samræmi við þessa rammalöggjöf er eindreginn og það er unnið að því að ná slíku samkomulagi á vettvangi nefndar sem við höfum skipað sameiginlega.