Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:46:41 (704)

1997-10-21 15:46:41# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:46]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. menntmrh. um skýrslu OECD og að þar komi fram að málefni háskólans skuli leysa með skólagjöldum þá er það rétt að það er einn af þeim möguleikum sem nefndur er, en fyrst og fremst er verið að tala um að auka verði framlög til menntamála á Íslandi. Í framhaldi af þessari skólagjaldaumræðu og tilvitnun í Tony Blair og að hann ætli að taka upp 1.000 punda skólagjöld þá er rétt að svokölluð Dearing-nefnd sem var skipuð fulltrúum allra flokka lagði þetta til við stjórn Blairs. Hann tók þetta ekki gilt. Á síðasta þingi Verkamannaflokksins var ákveðið að þessi 1.000 pund skyldu eingöngu leggjast á þá sem hafa tekjur eða eiga foreldra sem hafa tekjur yfir ákveðnum mörkum. Þeir sem hafa tekjur undir ákveðnum mörkum greiða ekki neitt og þeir sem eru á millitekjustigi greiða eitthvað þarna á milli. Mér vitanlega er ekki enn þá búið að samþykkja lög um þetta í þinginu. En þetta er alla vega stefna Tony Blairs samkvæmt nýjustu upplýsingum.

Varðandi hugmyndir ráðherra um að misskilningur hafi verið af minni hálfu um að hendur séu ekki bundnar hjá rektor þó hann sé skipaður af menntmrh. Ég geri mér fullkomna grein fyrir því að það er áfram hægt að kjósa rektor. En það hefur mjög mikið táknrænt gildi að hann skuli vera skipaður af menntmh. sem er að mínu mati mjög slæmt. Þess vegna spyr ég ráðherra enn og aftur: Hefur hann eitthvað við það að athuga að þessari setningu verði sleppt úr lögunum og rektorinn verði áfram kosinn af háskólasamfélaginu en ekki skipaður af ráðherra? Þ.e. að sama fyrirkomulag verði og nú tíðkast.