Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:59:33 (711)

1997-10-21 15:59:33# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þann kafla sem ég valdi úr hinu virta vikuriti, þá er þess að geta að þetta var eini kaflinn í þessu langa sérblaði vikuritsins um háskóla sem fjallaði um skólagjöldin. En blaðið hefur hvað eftir annað í forustugreinum sínum hvatt til þess að þau yrðu tekin upp þannig að það er almenn stefna blaðsins sem er rökstudd nánar í þessum tilvitnuðu orðum þegar það fjallar um háskólastigið.

Ég vil aðeins láta þess getið að þær tölur sem hv. þm. er að vísa til og OECD notar eru síðan 1993. Varðandi kennslustundafjölda, lengd skóladags og annað slíkt, þá hefur mikið breyst. Og eins og við vitum þá settum við náttúrlega þróunina alveg á nýja braut með fjölgun kennsludaga með nýju grunnskólalögunum og líka með nýjum lögum um framhaldsskóla. Við höfum því með þeim ákvörðunum þegar minnkað þetta bil á milli okkar og samanburðarlandanna því að það er kostnaðurinn vegna hins stutta skólaárs hér sem veldur mestu um muninn á þessum skólastigum.