Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:00:46 (712)

1997-10-21 16:00:46# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:00]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er því miður alveg nauðsynlegt að fara aðeins ítarlegar yfir þessi mál í framhaldi af svarræðu hæstv. menntmrh. hér áðan og alveg sérstaklega verð ég að segja eins og er að mér finnst vera óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessum gífurlega áhuga ráðherrans á því að leggja á skólagjöld.

Það kemur fram í andsvörum bæði við ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur að ráðherrann leggur ofurkapp á að rökstyðja að það sé beint samhengi á milli betri skóla og skólagjalda. Hann vitnar í þeim efnum í erlenda aðila máli sínu til stuðnings og í sjálfu sér breyta þeir engu um þetta. En mér finnst að uppsetning hans á málinu sýni mjög vel að við erum í hættu stödd í sambandi við þessi skólagjaldamál með þennan ráðherra. Það á auðvitað ekki að ganga þannig frá lögum að það sem skipti máli í þessu sé í raun og veru það hver situr í ráðuneytinu, heldur á að vera algjörlega skýrt hver vilji Alþingis í þessum málum er og ég tel að hann eigi að vera þannig að það eigi ekki að gera ráð fyrir skólagjöldum í frumvörpum eða lögum sem sett eru um einstaka skóla.

Ég held að það megi líka færa rök að því að slík vinnubrögð séu í raun og veru til þess fallin að veikja stöðu Alþingis. Samkvæmt stjórnarskránni er það þannig að það má enga skatta leggja á nema með lögum frá Alþingi og ég tel að það sé óeðlilegt að fela skólayfirvöldum, hver sem þau eru, skattlagningarvald af hvaða tagi sem það er. --- Ég geri nú hlé á máli mínu, herra forseti, vegna þess að ég tók eftir því að hæstv. menntmrh. gekk úr salnum og mér finnst það algjörlega út í hött að halda þessari umræðu áfram að honum fjarstöddum. Ég óska því eftir að fá að gera hlé á ræðu minni þangað til ráðherrann kemur hér í salinn. --- Er ráðherrann væntanlegur, forseti?

(Forseti (RA): Það er ekki vitað enn.)

Ráðherrann hljóp á dyr þannig að það er til lítils að halda þessu áfram meðan hann getur ekki setið hérna.

(Forseti (RA): Forseti hefur gert ráðstafanir til að láta hæstv. menntmrh. vita af því að ræðumaður hafi gert hlé á ræðu sinni.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir og ég býð hæstv. menntmrh. hjartanlega velkominn í fundarsal Alþingis og ræðustól á eftir mér og þykir vænt um að hæstv. menntmrh. skuli láta svo lítið að vera viðstaddur umræður um hans eigin mál hér.

Ég vil síðan vekja athygli á því hvernig hæstv. menntmrh. setur þetta mál allt saman upp. Það er eins og hann telji að aðdragandinn að málinu sé eðlilegur af hans hálfu og hann hafi unnið málið í samráði og í mjög náinni samvinnu við háskólayfirvöld hér í þessu landi. Í þeim efnum segir ráðherrann: Það var fundur hér og fundur þar, samráð hér og samráð þar og svo segir hann: Það var tekið mið af ýmsum ábendingum. Síðan segir hann til þess í raun að bjarga sér fyrir horn í þessu máli: Innan háskólans eru menn ekki á eitt sáttir í þessum efnum og þess vegna er eðlilegt að ráðuneytið taki af skarið varðandi þessa hluti.

Ég vil segja alveg eins og er að ég tel þetta vera hreinan kattarþvott vegna þess að í sjálfu sér skýrir þetta ekki neitt. Veruleikinn er bara sá að menntmrh. leggur hér fram frv. sem er í beinu stríði og í beinni mótsögn við háskólasamfélagið á Íslandi af því m.a. að það hefur enginn --- ég segi enginn --- beðið um að t.d. rektor háskólans verði skipaður með þeim hætti sem lagt var til í frv. í upphafi og gert er núna. Það hefur enginn beðið um það í íslenska háskólasamfélaginu að þannig verði að hlutunum farið að háskólinn verði sviptur völdum í þessu efni, enginn. Og hæstv. menntmrh. upplýsir meira að segja hér áðan að ekki einu sinni Sjálfstfl. hafi beðið um það.

Það hefur heldur enginn beðið um að kallaðir séu til fulltrúar með þeim hætti sem hér er gert þannig að það séu sett í lög ákvæði um að stjórn háskólanna sé með tilteknum niðurskrifuðum og njörvuðum hætti eins og hér er gert ráð fyrir. Hér er sem sagt um að ræða pólitískar uppfinningar menntmrh. sem eru á skjön við alla nútímastefnu í menntamálum. Þess vegna mótmæli ég því að hlutirnir séu settir upp eins og hæstv. menntmrh. gerir, að hér sé í raun og veru verið að koma til móts við háskólann, því að það er ekki þannig að það sé verið að koma til móts við háskólann með þeim hugmyndum sem ég hef hér sérstaklega nefnt.

Ég vil líka ítreka það, herra forseti, sem mér finnst mjög mikilvægt í þessu máli að ég tel að rammalagafrv., án þess að hafa fengið að sjá drög að sérlagafrumvörpum, sé fráleitt, og það sé langeðlilegast að bíða með hið almenna frv. þar til niðurstöður liggja fyrir úr þeim viðræðum sem eru í gangi m.a. innan Háskóla Íslands að því er varðar hugsanlegt sérlagafrv. Og ég hvet til þess að þannig verði að málunum staðið af hálfu Alþingis að þetta verði ekki afgreitt fyrr en við vitum betur hver er vilji hinna einstöku háskóla í þessu efni.

Hæstv. menntmrh. segir hér að skólarnir hafi ekki farið fram á það að bíða með þessa hluti eins og ég er að tala um. Út af fyrir sig finnst mér það engin rök í málinu. En ég segi líka að ég held að skólarnir hafi bara ekki haft ráðrúm til þess að fara fram á eitt eða neitt sl. vor. Þessu frv. var slengt hér inn á borð þingmanna. Skólarnir fengu örfárra daga frest til þess að senda umsagnir og þeirra eina umsögn sem skipti máli sl. vor var sú að Alþingi var allra náðarsamlegast beðið um að bíða þannig að það gæfist ráðrúm í sumar til að fara yfir málið. Þess vegna tel ég að það hafi í raun og veru ekki gefist ráðrúm, liggur mér við að segja, til þess að bera fram eðlilegar óskir um lágmarksatriði af hálfu skólanna.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka það að ég mótmæli því alveg sérstaklega sem fram kemur aftur og aftur af hálfu ráðherrans að það verði að leggja á skólagjöld. Það er stórhættulegt mál hvernig hann setur þetta upp, stórhættulegt mál, því að hann dregur jafnaðarmerki á milli skólagjalda annars vegar og betri skóla hins vegar. Hann segir í raun og veru að það sé ekki hægt að bæta skólana nema með því að leggja á hærri skólagjöld. Það er auðvitað alveg svakaleg afstaða af hálfu hæstv. menntmrh. og þess vegna alveg sérstök ástæða til þess að gjalda varhug við öllum frumvörpum sem hann flytur um skólamál og sérstaklega háskólastigið í ljósi þeirra umræðna af hans hálfu sem hér hafa farið fram í dag.

Það hefur verið horft upp á það á undanförnum árum, sérstaklega undanförnum 6--7 árum, að framlög til skólanna hafa verið að lækka. Þegar það hefur gengið yfir um alllangt skeið á síðan að segja við skólana: Þið getið bætt ykkar stöðu með því að samþykkja skólagjöld. Í þessari heljargreip var háskólinn í rauninni fyrir fáeinum árum þegar upptaka þessara skólagjalda hófst og mér sýnist að það eigi áfram að meðhöndla skólana þannig af þessari virðulegu stofnun --- ef hæstv. menntmrh. fær komið sínu fram, þá eigi áfram að meðhöndla skólana þannig að Alþingi og ráðherrann haldi þeim í greip sinni og þeir verði neyddir til að taka við skólagjöldum. Þess vegna tel ég að þessi umræða sé út af fyrir sig mikilvæg og gott að hafa fengið það fram að við erum hér með menntmrh. sem telur að það sé ekki hægt að bæta skólastarf í háskólum á Íslandi öðruvísi en að pína fram skólagjöld.