Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:10:27 (713)

1997-10-21 16:10:27# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:10]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt nú að hv. þm. hefði verið í salnum þegar ég flutti ræðu mína því að ég benti einmitt á það að þróun fjárveitinga til Háskóla Íslands hefðu verið á þann veg að það væru ekki sömu rök fyrir því hér og í Bretlandi að það þyrfti að taka upp skólagjöld. Þær tölur sem ég nefndi voru annars vegar frá 1989 um heildartekjur á innritaðan nemanda í háskólanum þegar þær voru 401 þús. kr. og heildartekjurnar núna þegar þær eru 415 þús. Ég sagði að í þessum tölum komi fram að það sé ekki sama þörf fyrir skólagjöld hér á landi og í Bretlandi. Þetta voru mín orð. Þess vegna las ég þessar tölur. Síðan heildartekjur á virkan nemanda, þá segir: 601 þús. kr. 1989, 600 þús. kr. 1996. Þannig að þróunin hefur ekki orðið með sama hætti og hv. þm. er að halda fram og það hefur ekki dregið þannig úr framlögum til háskólans miðað við heildartekjur hans af innrituðum nemendum annars vegar og virkum nemendum hins vegar að þessi svartsýni öll eigi við. Ég hef hins vegar sagt að við eigum ekki og ég tel að hv. þm. geri nefnilega umræðunni mjög mikinn ógreiða með því að vera alltaf í þessum stellingum sem eru gamalkunnar, ,,Berufsverbot-stellingunum``. Það má ekki nefna einhver ákveðin hugtök. Það má ekki nefna skólagjöld. Það má ekki vekja máls á atriðum. Þá eru menn annaðhvort orðnir tillögumenn eða orðnir sakhæfir fyrir einhverja ólýðræðislega stjórnarhætti. Það eru þessi viðhorf sem ég mótmæli. Ég hef fullt frelsi til að vekja máls á því að við þurfum hér á landi eins og annars staðar að ræða og svara spurningum varðandi skólagjöld og við höfum komið okkur saman um það, ég og rektor Háskóla Íslands, að láta kanna það mál til hlítar þannig að við höfum öll svör á reiðum höndum og áttum okkur á því hvernig sá skóli stendur, og aðrir skólar vonandi líka, að því er þá spurningu varðar.