Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:12:32 (714)

1997-10-21 16:12:32# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:12]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að ég veit ekki annað en hæstv. ráðherra hafi fullt frelsi til þess að flytja hér mér liggur við að segja eins vitlausar tillögur eins og honum sýnist. Það er enginn að reyna að leggja hömlur á það. Ráðherrann er algjörlega frjáls að því að flytja endalausar skólagjaldatillögur. Þannig er nú það. Það er enginn að vefengja rétt ráðherrans til að flytja hérna skólagjaldatillögur. Það er ekki nokkur maður að því. Ráðherrann er fullkomlega frjáls í þeim efnum og ég vil láta það koma skýrt fram að ég fagna því að hann skuli koma jafnhreint fram í þessum efnum og hann hefur gert í þessari umræðu í dag vegna þess að það er greinilegt að skólagjöldin eru hornsteinn umbóta í menntamálum að hans mati, skólagjöldin eru undirstaða umbóta í menntamálum að hans mati.

Ég verð hins vegar að segja alveg eins og er að ég harma það að hæstv. menntmrh. er þegar farinn að nota einhver samtöl við hinn nýja háskólarektor sem rök máli sínu til stuðnings, því til stuðnings að það eigi að taka upp skólagjöld og hann segist skoða sérstaklega. Við þekkjum þennan hæstv. menntmrh. Sporin hræða, því það að skoða sérstaklega þýðir oft að það er aðdragandi að því að hérna komi inn tillögur um þessi sömu gjöld. Ég tel að það sé auðvitað sérstaklega varhugavert og mikið umhugsunarefni að hann skuli túlka afstöðu háskólarektors löngu áður en hún liggur fyrir, þó svo að það sé þannig að núverandi háskólarektor hafi lýst því yfir að enginn skóli hafi batnað á því að taka upp skólagjöld. Og ég spyr hæstv. menntmrh.: Getur hann nefnt mér dæmi um einn skóla sem batnaði við að taka upp skólagjöld?