Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:17:59 (717)

1997-10-21 16:17:59# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins í lok þessarar umræðu láta þess getið að þetta frv. stuðlar einmitt að því meira en nokkurt annað frv. sem flutt hefur verið á hinu háa Alþingi að háskólarnir geti verið virkir þátttakendur í þróun íslenska þjóðlífsins. Það veitir skólunum miklu meira frelsi til þess að láta að sér kveða á mörgum sviðum þjóðlífsins heldur en er í gildandi lögum og öll ákvæði þess miða að því að auka og styrkja sjálfstæði þjóðanna. Það er alrangt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að menntmrh. geti sett háskólasamfélaginu, Háskóla Íslands eða öðrum skólum úrslitakosti varðandi háskólarektor því að ráðherrann er bundinn af ákvörðunum háskólanna um það hver gegnir rektorsembættinu. Og það sem er kjarni málsins í þessu er eins og ég hef áður sagt, vilja menn virða góða stjórnsýsluhætti þegar kemur að háskóla eða vilja menn láta táknræn atriði, sem hafa enga efnislega þýðingu nema þá eina að rjúfa hin eðlilegu stjórnsýslutengsl, ráða þegar jafnmikilvægar stofnanir og háskólar eiga í hlut?