Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:58:19 (774)

1997-10-22 15:58:19# 122. lþ. 15.9 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:58]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði að hér væri ekki um að ræða árás á sjómenn en það er nú samt svo að ef sjómannaafslátturinn verður aflagður, þá þýðir það náttúrlega mikla tekjurýrnun hjá sjómönnum hvort sem það er gert á einu bretti eða í áföngum eins og hún nefndi. Ég hygg að flestar stéttir mundu líta á það sem árás á sína hagsmuni ef Alþingi ákvæði með lögum að skerða kjör þeirra eins og þetta frv. gengur óneitanlega út á.

Ég er þeirrar skoðunar að sjómannaafsláttur verði ekki felldur niður nema þá í tengslum við víðtækari skattalagabreytingar eða þá í tengslum við kjarasamninga. Skattkerfið morar allt í afsláttum og undanþágum og ívilnunum og ég tel það fráleitt að ætla að taka þennan eina þátt út úr og afnema hann á einu bretti með lögum. Ég vil minna á það í leiðinni að Alþingi tók sjómannaafsláttinn til mikillar umræðu og meðferðar fyrir líklega þremur árum og þá var mjög tekið til í sjómannaafslættinum, ef svo má segja. Það voru sniðnir af honum verstu vankantarnir. Það voru ýmis dæmi um það að hann var, ég vil nú ekki segja misnotaður, en þess voru mörg dæmi að hann væri á mjög gráu svæði. Flest slík tilvik voru hreinsuð út og eftir stendur að þetta er afsláttur fyrir alvörusjómenn og ég tel alveg út í hött og fráleitt að ætla að afnema þetta með einu pennastriki með lögum á Alþingi.