Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:44:12 (869)

1997-11-03 16:44:12# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., Flm. GHelg (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:44]

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Með leyfi hæstv. forseta hyggst ég mæla fyrir tveim frumvörpum í einu, frv. til laga um brottfall laga nr. 73/1994, um söfnunarkassa, sem liggur fyrir á þskj. 156, 156. mál þingsins, og frv. til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. l3/l973, með síðari breytingum, þskj. 174, 174. mál þingsins. Bæði frumvörpin fjalla um bann við spilakössum og því sömu rökin fyrir báðum málunum. Meðflutningsmenn mínir að báðum málunum eru hv. þingmenn Gísli Einarsson, Guðni Ágústsson og Ögmundur Jónasson.

Hinn 7. maí 1994 voru lög um söfnunarkassa samþykkt á hinu háa Alþingi og jafnframt lög um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, sem heimiluðu rekstur spilakassa með beinum peningavinningum. Spilakassar höfðu þá þegar verið í rekstri í langan tíma, eða allt frá árinu 1972, en eftir því sem umsvifin jukust og Háskóli Íslands bættist í hóp þeirra er spilakassa ráku, tóku að heyrast raddir um að vafi kynni að leika á lagastoð fyrir leyfisveitingum dóms- og kirkjumrn. fyrir þessum rekstri. Fólu eigendur söfnunarkassanna svonefndu virtri málflutningsskrifstofu Ragnars Aðalsteinssonar o.fl. að athuga lagaheimildir til þessa rekstrar og skilaði Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður áliti 16. júlí 1993. Taldi hann lagastoð fyrir leyfi til félagasamtaka til að safna fé með rekstri spilakassa ekki fullnægjandi og heimild til Happdrættis Háskóla fyrir slíkum rekstri alls enga. Má með ólíkindum telja að það skuli geta gerst að sjálft dóms- og kirkjumrn. gefi út leyfi til rekstrar sem þessa án þess að tryggt sé að þau standist landslög, þó að margir bentu á þá staðreynd í ræðu og riti. Meðal annars skrifaði Sigurgeir Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður grein í Morgunblaðið 20. nóvember 1993 þar sem hann staðhæfði að engin lög væru fyrir leyfi ráðuneytisins til handa Happdrætti Háskólans og kæra mætti rektor Háskóla Íslands fyrir að standa fyrir fjárhættuspili. Ráðuneytið gat nú ekki lengur daufheyrst við slíkum ábendingum og ráðherra lagði loks fram frumvörp á þinginu 1993--94 sem urðu að lögum um vorið og þar með var þetta áhugamál ráðuneytisins orðið löglegt.

Það var ljóst við meðferð málsins á hinu háa Alþingi að fjölmargrir hv. þingmenn voru lítt hrifnir af að styrkja undirstöður þessa þáttar þjóðlífsins. Hv. allshn. margklofnaði í afstöðu sinni til málanna beggja, en þau voru lögð fram í tvennu lagi eins og ég hef gert nú, þar sem annað frv. fól í sér nýjan lagabálk sem ekki hafði verið til áður, en hitt var breyting á gildandi lögum um Happdrætti Háskóla Íslands. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði fram breytingartillögu við afgreiðslu frv. um söfnunarkassa um að ekki skyldu börn undir l6 ára aldri eiga aðgang að kössunum og féllst þingið á hana. Hann lagði einnig fram breytingartillögu um að kassar skyldu ekki vera á vínveitingastöðum, en ekki náði hún fram að ganga. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson reyndi einnig við afgreiðslu frv. um Happdrætti Háskólans að fá fram ákvæði um bann við rekstri spilakassa á vínveitingastöðum, en ekki fékkst það samþykkt. Í lögunum báðum eru ákvæði um að ráðherra setji reglugerð um nánari ákvæði, svo sem staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir og eftirlit með rekstrinum og margt fleira, því að engum duldist að hér var verið að lögleiða vandmeðfarinn rekstur. Þeir sem frumvörpin studdu hafa eflaust treyst því að hér yrði vel að verki staðið, hinir vissu betur. Engin reglugerð hefur verið gerð, ekkert eftirlit er með þessum rekstri og má til dæmis nefna að könnun Helgu Maríu Bragadóttur á vegum Framsýns fólks hf. í apríl 1994 um notkun spilakassa í söluturnum, leiddi í ljós að 45% notenda voru á aldrinum 11--15 ára, enda eru flestir kassarnir einmitt þar sem börn á þessum aldri venja helst komur sínar, og eru þó hvor tveggja lögin afdráttarlaus um aldurstakmarkið. Með því er ekkert eftirlit og ábyrgðarleysi ráðuneytisins hefur verið algjört. Afleiðingarnar af þessum dapurlega rekstri blasir nú við og mun ég víkja að þeim síðar.

Eitthvað virðist spilakassarekstur hafa vafist fyrir siðferðisvitund háskólamanna því að Kristjáni Kristjánssyni, Ph.D., heimspekingi og formanni stjórnar Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, var falið að gera siðfræðilega úttekt á tiltækinu. Skilaði hann tuttugu síðna riti um málið sem er afar áhugavert og vel unnið eins og hans er háttur. Ekki er unnt að flytja hv. þingmönnum innihald þess úr þessum ræðustóli og er það miður, en lokorð hans eru þessi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Máltækið segir að sólin saurgist ekki af því að skína á mykjuhauginn. Það má til sanns vegar færa, sé einungis átt við siðferðilega saurgun. Í fyrirsögn þessarar álitsgerðar er spurt hvort skjávélahappdrætti Happdrættis Háskóla Íslands sé ,,hvalreki eða refshali``. Niðurstaðan hefur orðið sú að Happdrætti Háskóla Íslands bindi a.m.k. ekki ráð sitt við neinn refshala siðleysisins með ákvörðun sinni um rekstur hinnar nýju tegundar happdrættis. Kannski verður sá rekstur háskólanum efnahagslegur hvalreki: ,,Gullnáma``. Orðspor getur hins vegar saurgast með öðrum hætti en siðferðilegum; og refshalar geta verið með ýmsu móti. Stjórnmálamenn ættu að minnast þess að háskólastarfsemi var og á að vera ,,hugsjón allra hugsandi manna á Íslandi``, svo að vitnað sé í orð Páls Skúlasonar. ,,Ef sú hugsjón deyr, þá deyr líka draumurinn um efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt sjálfstæði Íslands``, segir Páll á sama stað. Hugsjónin hefur sem betur fer ekki dáið, né hefur hún beðið siðferðilegan hnekki með starfsemi Happdrættis Háskóla Íslands, en hún er viðkvæm jurt sem ekki er gott að þurfa að varpa skugga almenningsálitsins á með óþokkasælum aðgerðum. Það er rökstudd skoðun höfundar að íslensk stjórnvöld hafi að nauðsynjalitlu knúið Háskóla Íslands til slíkra aðgerða.``

Hér er höfundur auðvitað að minna á þá ótrúlegu staðreynd, sem vísast þætti undur og stórmerki með öðrum þjóðum, að húsakostur Háskóla Íslands er svo til eingöngu tilorðinn án fjárframlaga úr ríkissjóði. Happdrættið hefur annast hann.

En það hefur gert betur. Frá því að Háskóli Íslands fékk einkaleyfi til peningahappdrættis á Íslandi hefur hann greitt 20% af nettóarði af því í einkaleyfisgjald, þ.e. í ríkissjóð. Við afgreiðslu frv. um háskólahappdrættið flutti ég ásamt hv. þingmönnum Jónu Valgerði Kristjánsdóttur og Svavari Gestssyni, breytingartillögu við frv. sem gerði ráð fyrir að þetta gjald félli niður þar sem fleiri aðilar hafa nú fengið leyfi til peningahappdrætta. Þessi tillaga náði ekki fram að ganga og var upplýst að um eitthvert árabil hefði þetta fé ekki farið í hít ríkissjóðs heldur verið nýtt til vísindarannsókna. Má því segja að háskólanum nýtist það fé og er það betra en ekki. Ég mun því láta þessi 20% afskiptalaus að sinni, en þessar upplýsingar sýna betur en nokkuð annað hvers konar bágindi Háskóli Íslands býr við og hvers konar niðurlæging honum er búin. En ég hef áður beðið hv. alþingismenn um að komast að niðurstöðu um hvort þeir vilja veg Háskóla Íslands sem mestan og bestan, eða hvort þeir vilja láta hugsjón allra hugsandi manna á Íslandi deyja, eins og Páll Skúlason orðar það. Kjósi þeir síðari kostinn er sjálfsagt ekkert athugavert við að drukkið og dómgreindarlaust fólk spili frá sér húsnæði og eignum til farsældar hinni æðstu menntun í landinu. Það eru þá fjárframlög þjóðarinnar til háskólabygginga sinna og vísindalegra rannsókna.

Ekki eru þeir heldur af lakara taginu sem ágóðans njóta af kössum Íslenskra söfnunarkassa, og tel ég óhjákvæmilegt að rekja sögu þess fyrirtækis, þó að það sé gert ítarlegar í greinargerð með frv. Það var Rauði kross Íslands sem árið 1972 fékk leyfi ráðneytisins til að hefja rekstur spilavéla í fjáröflunarskyni, en vélarnar áttu að skila allt að fimmföldum peningavinningi. Á árunum 1972--76 voru leyfi veitt fyrir ýmsum breytingum á mynt og vinningum og árið 1977 fékk Rauði krossinn leyfi til að flytja inn nýjar tegundir spilakassa og enn árin 1986 og 1987 eftir því sem tækninni fleygði fram. Skyldi þetta vera undir eftirlit lögreglu, en aldrei hefur það þó verið svo.

Árið 1981 fékk SÁÁ leyfi til að reka spilakassa sem tóku við einni krónu og gátu hæst skilað níu króna vinningi. Ekkert varð úr því að SÁÁ nýtti sér leyfið, en árið 1989 tóku samtökin upp samstarf við Rauða krossinn um rekstur spilakassa á vínveitingastöðum. Trúi hver sem vill. En kannski hefur staðarvalið stafað af umhyggju fyrir börnum og unglingum! Og nú fundu fleiri peningalykt. Lukkutríó var stofnað og voru eigendur Slysavarnafélag Íslands, Landssamband hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita og voru vinningar hlutir en ekki peningar. Það stóð þó ekki lengi. Rauði krossinn og Lukkutríóið gengu í eina sæng og hófu rekstur sameiginlegra spilakassa sem enn áttu að vera undir eftirliti lögreglu. Þegar landssamtökin tvö urðu að Landsbjörg var fyrirtækið Íslenskir söfnunarkassar stofnað með Rauða krossinum, Slysavarnafélagi Íslands og SÁÁ. Nafnið er auðvitað rangnefni því hér er ekki um söfnunarkassa að ræða þar sem fólk leggur fram fé án þess að vænta vinnings, heldur peningahappdrætti. Fyrirtækið hóf starfsemi sína 1. janúar 1994 eða fjórum mánuðum áður en lögin um það voru sett.

Með lögum nr. 23/1986 hafði dómsmrh. verið veitt heimild til að leyfa Háskóla Íslands að reka skyndihappdrætti með peningavinningum, svo og peningahappdrætti sem ekki yrði rekið sem flokkahappdrætti. Háskólinn nýtti sér þessa heimild án frekari lagabreytingar og hóf rekstur spilakassa árið 1993 samkvæmt reglugerð nr. 455/1993, þ.e. samkvæmt gömlu lögunum. Fyrir þessum rekstri var án alls vafa ekki lagastoð. Það var því ekki seinna vænna að lögfesta þennan ógeðfellda rekstur á vormánuðum 1994.

Sá meginmunur er á kössum þessara tveggja aðila, Íslenskra söfnunarkassa og Happdrættis Háskólans, að kassar háskólans mega vera samtengdir, einstakar vélar og milli sölustaða, en kassar Íslenskra söfnunarkassa eiga ekki að vera það. Vinningar háskólans eru því miklum mun hærri en hinna. Því hefur verið haldið fram að einhver samtenging eigi sér stað milli kassa Íslenskra söfnunarkassa og hafa mér borist myndir sem eiga að sanna það, en ég verð að játa að ég ber ekkert skynbragð á slíkt og vil því ekkert fullyrða um það. Þó hygg ég að hægt sé að hringja á milli kassa. Ástæða væri þó ef til vill, til að ganga úr skugga um að það ákvæði sé haldið, að samtenging skuli ekki vera milli kassa Íslenskra söfnunarkassa. Ef ráðuneytið hefur einhvern áhuga á málinu yfirleitt. Ég hef fengið það staðfest að lögreglan hefur aldrei skipt sér af kössunum, enda eins og áður sagði engin reglugerð til þar um þó að það standi í lögunum að lögreglan skuli hafa eftirlit samkvæmt nánari reglugerð.

Hv. forseti. Hvað kemur æðstu menntastofnun þjóðarinnar og virtustu mannúðarsamtökum til að afla sér fjár á þennan hátt? Er þessu fólki öldungis sama hvaðan því kemur fé? Svarið er líklega svona: ,,Já, ef það er nógu mikið.`` Og hér er um gífurlega fjármuni að ræða. Á 121. löggjafarþingi lagði hv. þm. Guðjón Guðmundsson fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um hver hefði verið heildarsala, vinningar, rekstrargjöld og hagnaður þeirra happdrætta, söfnunarkassa og getrauna sem störfðu samkvæmt lögum árin 1995 og 1996. Óskað var eftir skriflegu svari og einnig var spurt um hvernig eftirliti væri háttað. Og svarið kom.

Happdrætti Háskóla Íslands hafði reikningsárið 1995 1,8 milljarða kr. í tekjur, þar af skiluðu spilakassarnir 619 milljónum kr. Í vinninga fóru 943 milljónir og hagnaður af rekstri alls happdrættisins varð 320,3 milljónir króna árið 1995. Einkaleyfisgjald þar af var 54,2 milljónir. Í svarinu segir: ,,Gull- og silfurpottar; aðrir vinningar, sem nema um 86% af veltu, eru hvorki tekju- né gjaldfærðir.``

Vera má að það sé í lagi en auðvitað er það til að blekkja þegar talað er um veltu.

Íslenskir söfnunarkassar höfðu frá júlí 1995 til júní 1996 alls úr kössunum 992,8 milljónir króna. Er þar tilgreint að um sé að ræða söfnunarkassa, lukkuskjái og pókerkassa, og eru þá vísast söfnunarkassar kallaðir sínu rétta nafni, enda skila þeir aðeins 56 milljónum króna. Hitt eru spilakassar. Eigendur skiptu þessum fjármunum þannig á milli sín: Landsbjörg 66 milljónir, Slysavarnafélag Íslands 83 milljónir, SÁÁ 55,4 milljónir og Rauði krossinn 425,7 milljónir. Rekstrargjöld eru gífurleg, eða 294 milljónir. Það er ekki að undra þó að Rauði krossinn fari létt með að byggja stórhýsi sitt á útvarpshússlóðinni ,,á einu og hálfu ári og eiga fyrir því`` eins og talsmaður þeirra samtaka orðaði það í viðtali nýlega. Varla lækkar það rekstrarkostnaðinn í framtíðinni, en við verðum að vona að það verði til góðs hungruðum heimi og þjáðum Íslendingum. Og víst er að 55 milljónirnar sem féllu í hlut SÁÁ gera ekki mikið betur en að nýtast til að lækna þá eitt hundrað einstaklinga sem leitað hafa hjálpar hjá samtökunum ,,á rúmu ári``, eins og segir í Morgunblaðinu 24. janúar sl. í viðtali við Sigmar Björnsson, ráðgjafa hjá samtökunum.

Til upplýsingar skal tekið fram að Rauði krossinn fær ekki fé af fjárlögum, en SÁA fékk á fjárlögum árið 1996 208,3 milljónir og þyrfti að fá miklu meira, Slysavarnafélagið fékk 16,7 milljónir og Landsbjörg 11 milljónir.

Um eftirlitið segir í svari ráðherra: ,,Eftirlit með Happdrætti Háskólans er í höndum happdrættisráðs sem ráðherra skipar til þriggja ára í senn.`` Um Íslenska söfnunarkassa segir: ,,Eftirlit með söfnunarkössum Íslenskra söfnunarkassa sf. er þannig háttað að skv. 2. mgr. 2. gr. laga um söfnunarkassa skulu reikningar fyrir innkomið söfnunarfé og rekstur kassanna endurskoðaðir af tveimur endurskoðendum, einum tilnefndum af þeim samtökum sem standa að rekstrinum og einum tilnefndum af dómsmrh.``

[17:00]

Það er eftirtektarvert að hæstv. ráðherra er alveg búinn að steingleyma því sem stendur í lögunum um eftirlit. Honum hugkvæmist ekkert annað en hinn peningalegi þáttur málsins. En ekki einu sinni hann er í lagi. Þegar þetta mál var í undirbúningi spurðist ég fyrir um hvort eigendur spilakassanna skiluðu ekki ársreikningum sínum til dóms- og kirkjumrn., eða fjárln. Alþingis eða fjrmn., þar sem einkaleyfið ætti að jafngilda ríkisframlagi til þessara samtaka. En ekki reyndist þetta vera svo og var lítið um ákveðin svör hjá þessum aðilum. Það nægir að einhverjir tveir endurskoðendur skrifi undir reikningana þegar þeir kunna að vera tilbúnir. Þetta á auðvitað ekki við um Happdrætti Háskólans af eðlilegum ástæðum. En mér er ekki kunnugt um að stjórnvöld hafi verið höfð með í ráðum þegar hafist var handa um byggingu stórhýsis Rauða krossins eða að fylgst hafi verið með launakostnaði eða öðrum rekstrarkostnaði hjá þessum samtökum. Það er með öllu óeðlilegt að einkaleyfi til rekstrar spilakassa leggi engar skyldur á herðar samtökunum.

Hinn 28. febrúar 1996 lagði hv. þm. Margrét Frímannsdóttir fram fyrirspurn á hinu háa Alþingi til hæstv. dómsmrh. um hvernig framfylgt væri reglum um aðgengi barna og unglinga að spilakössunum og hvernig öðru eftirliti væri háttað og hver væru viðurlög við vanrækslu. Svo ótrúlegt sem það má vera vitnaði hæstv. ráðherra í ákvæði laganna um reglugerðir sem ekki eru til. Þá spurði sami hv. þm. hinn 21. febrúar 1996 einnig hæstv. fjrmh. um skattlagningu happdrætta og þar með spilakassa og skil á ársreikningum. Allar þessar tekjur eru skattfrjálsar eins og kunnugt er og staðfestir ráðherrann það. En hann sagði eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Mér er ekki kunnugt um að það sé gengið eftir því af yfirvöldum að um skilagrein sé að ræða, en þó veit ég að sum félögin gefa út ársreikninga þar sem blasir við hvernig fjármunirnir eru notaðir ...``

Hæstv. fjrmh. sagði einnig, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég vil taka fram af þessu tilefni að það er full ástæða til þess að fá skilagrein þessara aðila, ekki síst af því að hér er um jafngildi ríkisframlaga að ræða að mínu viti ...``

Það er sem sagt augljóst að ekkert eftirlit er með rekstri spilakassa og allt látið reka á reiðanum varðandi hann. Það má ef til vill fræða hv. þingheim um að rekstur spilakassa allra einkaaðila hefur nýlega verið bannaður í Svíþjóð og eftirlit með hinum hert mjög, einmitt þar sem þessi rekstur þótti algjörlega hafa farið úr böndunum og telja flutningsmenn þessara frumvarpa að svo sé einnig hér í landi.

Ég hef, hæstv. forseti, hvergi nærri tæmt það sem vert væri að ræða í þessu sambandi, enda leyfir tíminn það ekki. Lítt hefur verið vikið að þeim hundruðum einstaklinga sem ánetjast hafa þeirri ógæfu sem spilafíkn er. Ég bendi á að SÁÁ hefur gefið út fræðslurit um hana sem ástæða væri fyrir menn að kynna sér. Er úrdráttur úr því riti aðgengilegur á alnetinu á heimasíðu SÁÁ. En víst er að þessi kassarekstur hefur valdið ómælanlegu tjóni hundruðum fjölskyldna í þessu landi, tapi á eignum og upplausn fjölskyldna. Óttar Guðmundsson yfirlæknir hefur sagt í viðtölum að spilafíklum eigi eftir að fjölga á næstu árum, m.a. vegna spilakassanna sem aðgengilegir eru börnum. Fyrstu sporin eru boðin börnum og unglingum í söluturnum landsins.

Enginn dregur í efa ágæti þeirra samtaka og stofnana sem að þessari leiðu fjáröflunaraðferð standa. Trúlega er t.d. SÁÁ daglega að bjarga mannslífum til móts við aðrar sjúkrastofnanir í landinu, e.t.v. fleiri mannslífum. Samtökin eiga ekki að þurfa að leita leiða til að afla sér fjár sem eru öllum ósæmilegar. Samtökin hafa löngu sannað sig og okkur ætti ekkert að vera að vanbúnaði að leggja fram áðurnefndar 50--60 milljónir árlega úr sameiginlegum sjóðum landsmanna svo að starfsemi þeirra sé tryggð, og þó meira væri. Hið sama er að segja um þau önnur samtök sem að þessu koma. Einhvern veginn, hæstv. forseti, má þó sárast vera að musteri frjálsrar hugsunar, hins æðsta siðferðis, kennslustofnun kristninnar í landinu, undirstaða sjálfstæðrar menningar og verklegra framfara þjóðarinnar skuli þurfa að eiga byggingar- og rannsóknafé sitt undir langdrukknum spilafíklum á knæpum landsins. Svo gæti einnig farið að stofnanir þær sem góðs njóta af því fjármagni sem úr kössunum koma verði háðar því á sama hátt og það aumkunarverða fólk sem verður spilafíkninni að bráð.

Hæstv. forseti. Flutningsmenn þessara tveggja frv. sem hér hefur verið mælt fyrir, heita á hv. alþingismenn að samþykkja þau á þessu þingi og taka höndum saman um að finna geðfelldari leiðir til að bæta þeim sem ágóðans nutu þann fjárhagsmissi sem við það skapast. Ég bið hv. allshn. að skoða frumvörpin af kostgæfni og líta á fengna reynslu af rekstri spilakassa og sameinast um að leggja þennan rekstur niður sem allra fyrst.