Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:07:58 (871)

1997-11-03 17:07:58# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., Flm. GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:07]

Flm. (Guðrún Helgadóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda hv. þm. á að illur fengur illa forgengur, segir gamalt máltæki. Það er auðvitað ekki skemmtilegt að þurfa að reka líknarstarfsemi fyrir peninga sem valda fólki ógæfu. Ég bið þingmanninn að athuga að þessi fyrirbæri, spilakassarnir, eru aðgengileg börnum og unglingum. Ég get frætt hv. þm. um að þegar þetta mál var lagt fram á hinu háa Alþingi flykktist til mín fólk, örvæntingarfullir foreldrar sem standa uppi með börn og unglinga sem farin eru að stunda þjófnað vegna þess að þau hafa ánetjast þessum kössum sem börnum eru aðgengilegir í öðrum hverjum söluturni í bænum. Þetta er eins og ég hef áður minnst á gjörsamlega eftirlitslaust. Síðan kom fullorðna fólkið og lýsti þeim hörmungum sem þetta hefur leitt yfir fólk, eignamissi og jafnvel sjálfsvíg. Ég held að þingmaðurinn geri sér enga grein fyrir hvað þetta hefur leitt yfir þjóðina. Vissulega má segja að það geri áfengi líka. En það er töluvert öðruvísi. Það er að minnsta kosti minni möguleiki á því að börn hafi aðgang að því og það er ekki sambærilegt. Ég veit ekki hvað kemur þingmanninum til að halda að ekki sé hægt að safna fé á eðlilegan hátt til líknarstarfa hér eins og annars staðar. Það er dagljóst að því meira sem er hægt að hala inn á þennan hátt því háðari verða þessi félög þessum peningum, því meira fer í rekstur, því meira í byggingar og kannski minna til þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda.