Dreifikerfi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:29:56 (984)

1997-11-05 14:29:56# 122. lþ. 19.6 fundur 183. mál: #A dreifikerfi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 183 hef ég borið fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. menntmrh. um dreifikerfi Ríkisútvarpsins:

1. Á hvaða svæðum landsins næst ekki ótrufluð útsending sjónvarps frá Ríkisútvarpinu?

2. Á hvaða svæðum nást útsendingar á FM-bylgju ekki ótruflaðar?

3. Hver er útbreiðsla sendinga á langbylgju?

4. Hefur Ríkisútvarpið áform um aukna notkun ljósleiðara til að dreifa útvarps- og sjónvarpsefni?

Ástæðan fyrir því að ég færi þetta mál inn á Alþingi í fyrirspurnaformi er sú að gott aðgengi að útvarpi og sjónvarpi er einn af grundvallarþáttum í nútímasamfélagi. Ef þessir hlutir og þessi skilyrði eru ekki í lagi á afmörkuðum svæðum landsins kemur upp sú tilfinning að svæðið sé í öðrum og verri gæðaflokki hvað þjónustu snertir. Þær staðreyndir að þessi skilyrði eru ekki fullkomin alls staðar vilja oft gleymast í allri þeirri miklu umræðu sem er að vonum um þá mikilvægu stofnun, Ríkisútvarpið, þó að vissulega hafi einmitt þessi mál verið borin oft upp í fyrirspurnaformi á Alþingi á undanförnum árum. En það er nauðsynlegt að þessi þáttur rekstrar Ríkisútvarpsins sé með í umræðunni.

Við horfum til nýjustu tækni og tækninni hefur fleygt fram. Við horfum til þeirra möguleika sem sendingar á ljósleiðara gefa og hvort Ríkisútvarpið hefur áform um að auka notkun þessa miðils en mér er ljóst að samningar milli Ríkisútvarpsins og Pósts og síma um þessi mál hafa tekið mjög langan tíma.

Mér er einnig ljóst að mikið átak hefur verið gert í aðstöðu fyrir langbylgjusendingar Ríkisútvarpsins og er það vel. Einn liður fyrirspurnarinnar er hvað áformað er að þær nái til stórs svæðis en þær ná ekki eingöngu til landsins heldur einnig miðanna í kringum landið sem mega ekki gleymast í þessu sambandi. Hér er samt verið að spyrja um hvar skilyrðin séu fullkomin en það er því miður þannig að þau eru víða ófullkomin.