Stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:54:17 (1023)

1997-11-05 15:54:17# 122. lþ. 19.92 fundur 77#B stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:54]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og ég þakka hv. þm. fyrir þátttökuna í henni og ég þakka líka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann veitti hér. Ég tel út af fyrir sig að tvennt hafi komið fram í þeim svörum sem er jákvætt. Í fyrsta lagi að hann hefur látið af þeim kenjum Sjálfstfl. að ætla sér að selja Ríkisútvarpið. Í öðru lagi að það er meiningin að sameina stofnunina undir einu þaki. Það er hvort tveggja mjög mikilvægt og er jákvætt. Að hinu leytinu til stendur það upp úr umræðunni að það er eins og hæstv. ráðherra átti sig ekki á því grundvallaratriði hvað faglegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins þýðir. Í þeim efnum kom fram að því er varðar t.d. mannaráðningar að hann sagði að þar ætti að byggja á --- á hverju? Menntun, skólagöngu, hæfni og reynslu. Staðreyndin er sú að þegar hann hefur komið að mannaráðningum eða mannaráðningu í seinni tíð í stofnuninni hefur hann vikið þessu öllu til hliðar. Ég held að við verðum líka að líta til þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir að því er varðar ráðningu einstakra forustumanna í Ríkisútvarpinu þar sem öllum þessum forsendum hefur oft og tíðum verið vikið til hliðar. Ég held að nauðsynlegt sé að átta sig á því að það er ekki nóg fyrir ráðherrana að koma hingað og hafa uppi almenn falleg orð um hlutina vegna þess að allir vita betur, það vita allir að það er rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að Ríkisútvarpið er í stöðugri hættu fyrir Sjálfstfl., eins og hann hefur haldið á þessum málum. Staðreyndin er sú að innra starf í Ríkisútvarpinu hefur verið meira og minna í uppnámi í menntamálaráðherratíð Sjálfstfl. Það er stórkostlega hættulegt, segir reynslan okkar, að hleypa íhaldinu að Ríkisútvarpinu. Það liggur alveg fyrir. Hitt er aftur rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði áðan, að það þarf að fara í það að endursemja og endurskrifa lögin um Ríkisútvarpið. Og hver setur lög? Alþingi setur lög. Ég vil fyrir mitt leyti gera hæstv. menntmrh. það tilboð fyrir hönd þingflokks okkar að farið verði í sameiningu á vegum allra flokka í þessari stofnun, t.d. á vegum hv. menntmn., þannig að málið verði unnið með sem breiðustum stuðningi og tryggður eðlilegur faglegur framgangur þess.