Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:59:31 (1102)

1997-11-11 14:59:31# 122. lþ. 22.10 fundur 74. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:59]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. þál. um úttekt á hávaða- og hljóðmengun. Tillagan er flutt af nokkrum þingmönnum auk mín. Hv. þm. eftirtaldir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Kristín Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Ragnar Arnalds, eru meðflytjendur að málinu. Tillagan er ekki orðmörg. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram víðtæka úttekt á hávaða- og hljóðmengun hérlendis og leggja fyrir næsta þing niðurstöður hennar og tillögur til úrbóta.``

[15:00]

Með tillögu þessari er vikið að afar stóru máli sem varðar hagsmuni mjög margra og varðar einn þátt mengunar í okkar samfélagi sem fer sífellt vaxandi. Um þessi efni gilda mörg lagafyrirmæli í sundurleitum lögum og það var hugur 1. flm. þessa máls og þess sem síðastur er nefndur hér fyrir nokkrum árum að þörf væri á að endurskoða löggjöf og setja heildarlög um hávaða- og hljóðmengun. Það fékk ekki undirtektir þó að tillaga um það væri samþykkt á hv. Alþingi með vísan til þess að það væru fullnægjandi ákvæði að finna í lögum. Ég er út af fyrir sig ekki sammála því áliti. Ég tel að það hefði verið mjög æskilegt að fá samræmda heildarlöggjöf um þetta málasvið.

En hitt er efni þessarar tillögu hér, að úttekt fari fram á umfangi hávaða- og hljóðmengunar þannig að unnt verði að leggja niðurstöður slíkrar úttektar fyrir þingið til skoðunar og meta þá þörfina á að marka skýrari reglur, herða ákvæði laga hugsanlega og setja önnur fyrirmæli sem nauðsynleg teljast. Ég held að flestir þekki það hvílíkur bölvaldur hávaði er víða í okkar umhverfi og ætti að vera skylda okkar hér á Alþingi Íslendinga að bregðast við þessari mengun. Vissulega er það á verksviði sveitarfélaga að nokkru að taka á þeim málum og fylgjast þar með, en mjög skortir á að upplýsingar liggi fyrir um umfang þeirrar mengunar, sumpart einnig um eðli hennar og undir það hefur verið tekið af ýmsum sem hafa veitt umsögn um þessa tillögu á fyrri þingum. Í raun lágu fyrir mjög eindregnar jákvæðar umsagnir um tillöguna á síðasta þingi og þinginu þar á undan þegar mál þetta var einnig til meðferðar í hv. nefnd en samt fékkst ekki nægur skilningur á því til að málið fengi jákvæða afgreiðslu. Hér er því enn þess freistað að flytja málið og ég geri tillögu um að það fari til hv. umhvn. sem hefur um það fjallað á fyrri stigum. Ég læt í ljósi þá von að á þessu máli verði tekið þannig að við fáum þá úttekt sem um er beðið og getum þá brugðist við í þessum málaflokki. Þörfin ætti að vera öllum ljós.