Tilraunaveiðar á ref og mink

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 16:55:06 (1115)

1997-11-11 16:55:06# 122. lþ. 22.15 fundur 95. mál: #A tilraunaveiðar á ref og mink# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[16:55]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þátttöku hv. 12. þm. Reykn. í þessari mikilvægu umræðu. Ég bjóst sannast sagna fremur við því, að þegar þetta mál kæmi fram, að við hv. flm. yrðum gagnrýndir fyrir það hversu hægt við vildum fara í sakirnar. Ég vek athygli á því að þessi tillaga gerir ráð fyrir að hér verði um tilraunaveiðar að ræða, tímabundnar tilraunaveiðar á ref og mink, og að þessar veiðar fari fram undir ströngu eftirliti vísindamanna. Til þess að tryggja að þetta eftirlit sé sem virkast þá er það niðurstaða okkar að það sé eftirlit þeirra vísindamanna sem starfa á heimaslóðum og munu væntanlega á næstunni treysta vísindalega þekkingu sína á þessu svæði með því að sérhæfa sig nokkuð í rannsóknum á Hornströndum og lífríki þeirra. Þess vegna bjóst ég frekar við því að sú gagnrýni sem við fengjum yrði sú að hér værum við að ganga allt of skammt, værum hikandi í að ganga hreinlega og rösklega til verks og ráðast á þennan ófögnuð. Mörgum finnst að streymi refs og minks sé inn á jarðir manna. Eins og margir bændur í nágrenni við þetta svæði hafa lýst fyrir mér þá er þetta sem óbrotinn skafl æði yfir á haustin þegar vetur fer að herða og veður fara að versna, þegar bæði refur og minkur fer að gera sig heimakominn í húsum manna, útihúsum og beitarhúsum, og minkar fara að leggjast í ár, eyða þar fiski og menn verða fyrir alls konar búsifjum.

Ég held, virðulegi forseti, að þær upplýsingar sem við fáum frá staðkunnugum mönnum, glöggum mönnum, m.a. veiðimönnum sem hafa fylgst ákaflega vel með þessu svæði mjög lengi, gefi okkur alveg ótvírætt til kynna að það sé fyllsta ástæða til þess að fara að bregðast við. Ég held að það væri röng aðferð ef við byrjuðum á því að hefja hér einhverjar mælingar og rannsóknir, sem stæðu í þrjú til fimm ár hið minnsta, til þess að fá einhverja viðmiðun og síðan mundu menn fara að skoða málið. Ég held að það sé miklu eðlilegra að hefja skynsamlegar veiðar, undir vísindalegu eftirliti þar sem strax kæmi fram samanburðarhæf viðmiðun á því hvaða áhrif þetta hefði á lífríkið á svæðinu, bæði á Hornströndum og eins í næsta nágrenni.

Ég held að hvað sem menn segja um áhrif veiða á vöxt og viðgang stofnanna, hvort sem það er refastofninn eða stofn minksins, þá sé það ljóst að veiðar af þessu tagi mundu náttúrlega ekki hafa nein úrslitaáhrif á stofnstærðina. Sú hætta að annarri hvorri tegundinni eða báðum yrði útrýmt væri til að mynda fjarri öllu lagi. Við erum að tala um veiðar undir svo ströngu eftirliti að það er engin ástæða til þess, að mínu mati, að setja málið einhvern veginn þannig upp. Ég held þess vegna að óskynsamlegt væri, allra hluta vegna, að bíða með veiðarnar um eitthvert árabil. Skynsamlegast væri að vinda sér beint í verkið á grundvelli þeirrar till. sem hér er lögð fram.

Ég er alveg sammála því sem mér fannst koma fram í máli hv. þm. áðan, að ég vil líka gera greinarmun á refnum og minkinum. Minkurinn er auðvitað plága, aðskotadýr, sem mjög víða veldur verulegum spjöllum á lífríkinu. Ég nefndi hér eitt dæmi, ógeðslegt dæmi um verksummerki eftir minkinn, og ég held að það sé almennt þannig að við gerum greinarmun hér á. Hins vegar er engin ástæða til þess að undanskilja refinn algjörlega. Það er eðlilegt að stunda veiðar á honum þarna eins og við erum að gera mjög víða á landinu.

Ég fagna því að umhvn. er að taka þessi mál til sérstakrar umræðu núna og vildi gjarnan að sú till., sem hér er verið að leggja fram, gæti ratað inn í þá umræðu hjá nefndinni. Ég vil hins vegar vilja mikla áherslu á að umhvn. leiti sem víðast fanga, ekki aðeins hjá vísindamönnum sem auðvitað hafa þarna mjög góða yfirsýn, og ekki síst Páll Hersteinsson, fyrrverandi veiðistjóri, sem allir vita að þekkir þessi mál mjög vel eftir að hafa dvalist m.a. norður í Ófeigsfirði, held ég frekar en Reykjarfirði, við rannsóknir vetrarlangt. En ég vildi hins vegar líka leggja áherslu á það að heimaaðilum og hagsmunaaðilum yrðu send þessi mál til umsagnar. Ég nefni til að mynda Æðarræktarfélagið, Búnaðarsamband Vestfjarða og búnaðarfélögin á svæðinu, hlunnindabændur almennt og síðan Átthagafélag Grunnavíkur og Sléttuhrepps. Ég hef rætt við allmarga af forustumönnum þeirra, sem hafa mjög mikinn áhuga á því að þessum málum sé sinnt, vegna þess að þeir hafa þá reynslu af samanburðinum yfir árin og áratugina að núverandi ástand sé að eyðileggja lífríkið á Hornströndum. Ég veit að vísu að til eru önnur sjónarmið í þessum efnum og alveg sjálfsagt að kalla eftir þeim, en yfirgnæfandi, eftir því sem ég hef aflað mér upplýsinga um, er það sjónarmið manna sem vel þekkja til að nauðsynlegt sé að stunda þarna hóflegar skynsamlegar veiðar, og hefja þær á grundvelli tilraunaveiða sem allra fyrst, eins og lagt er til hér í till.