Aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 17:51:14 (1121)

1997-11-11 17:51:14# 122. lþ. 22.18 fundur 109. mál: #A aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[17:51]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson.

Tillagan er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd fagfólks í uppeldis- og kennslumálum sem geri tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skuli beitt í grunnskólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna, en upplýsingar um misvægi í sérfræðiþjónustu, athygli kennara og námsárangri benda til að úrbóta sé þörf.

Nefndin ljúki störfum fyrir vorið 1999 og verði störfum hennar hagað þannig að tillit verði tekið til tillagna hennar við gerð nýrrar námskrár fyrir grunnskóla en endanlegar tillögur verði síðar hluti af námskrá grunnskólans.``

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég till. til þál. um stöðu drengja í grunnskólum. Sú tillaga fékk góðar undirtektir þó að hún væri ekki afgreidd. Hún var m.a. send til umsagnar og í umsögnum komu fram fjölmargar ábendingar sem ég tók til greina við vinnslu þessa þingmáls. Má í rauninni segja að þetta þingmál sé í beinu framhaldi af því hinu fyrra.

Það er svo, herra forseti, ólík staða drengja og stúlkna í skólakerfinu hefur lengi verið til umræðu meðal skólamanna. Haldnar hafa verið ráðstefnur og fundir um þessi mál og oft hafa þau komið til umræðu á kennarastofum landsins. Hafa menn einkum haft áhyggjur af því að erfiðleikar og fyrirferð margra drengja bentu til þess að skólinn kæmi ekki nægjanlega til móts við þarfir þeirra og jafnframt að fyrirferð drengjanna hefði neikvæð áhrif á félagslega stöðu og sjálfsvirðingu stúlknanna. Drengir aðlagast kröfum og væntingum skólans ekki með sama hætti og stúlkurnar. Kannanir hafa sýnt að drengirnir taka mun meira af tíma kennarans því vandamálin sem kennarinn og skólinn þurfa að fást við, hvort sem þau eru tengd námi eða aga, tengjast mun oftar drengjum en stúlkum. Drengir eru miklu fleiri í hópi þeirra sem þurfa á sérþjónustu og stuðningi innan skólanna að halda og námsárangur stúlkna hefur að jafnaði verið betri á öllum samræmdum prófum grunnskólans. Gildir þá einu hvort um er að ræða tungumál eða stærðfræði.

Menn hafa líka bent á það og haft af því áhyggjur hve hlutur stúlkna í tíma kennarans er lítill og að það bendi til þess að stúlkurnar fái ekki sinn réttláta skerf af hvatningu og leiðsögn, að þögn þeirra og bið eftir athygli sé til marks um veika félagslega stöðu þeirra hvað sem námsárangri líður og það ýti jafnframt undir hugmyndir um að strákarnir eigi að ráða ferðinni.

Ýmsar tölfræðilegar upplýsingar liggja fyrir um mismunandi hlutfall kynjanna þegar kemur að mælanlegum þáttum þeirrar þjónustu og stuðnings sem skólinn veitir. Það liggur fyrir að drengir eru yfir 70% þeirra nemenda sem taldir eru þurfa sérkennslu í grunnskólunum. Sama er uppi á teningnum þegar röðin kemur að sérdeildum skólanna, þar eru drengirnir einnig u.þ.b. 2/3 nemenda. Þá er hlutfall drengja svipað þegar litið er til ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskólanna.

Grunnskólinn hefur þannig í gegnum stuðning og með boði á sérfræðiþjónustu reynt að koma til móts við mismunandi stöðu og þarfir nemenda sinna. Það er hins vegar ljóst að skilgreina þarf betur þann vanda sem stúlkur og drengir þurfa að glíma við og tengist kynferði þeirra svo unnt verði að mæta mismunandi þörfum beggja kynja strax við upphaf skólagöngu og þroska þau í samræmi við ákvæði grunnskólalaga, þar sem segir í 2. gr. að grunnskólinn skuli, með leyfi forseta: ,,leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins``.

Sérfræðingar hafa sett fram tilgátur um að þroski kynjanna sé mismunandi þegar þau hefja grunnskólanám. Þannig sé námið fyrstu árin eins og eðlilegt framhald af leikjum og föndri stúlknanna en drengirnir eigi mun erfiðara með bæði fínhreyfingar og tjáningu. Þetta rímar vel við tilfinningu margra kennara. Markviss þjálfun strax í leikskóla gæti bætt hér úr ef niðurstaðan yrði sú að taka þyrfti sérstaklega á þessum þáttum. Þá hefur verið bent á að unglingsdrengir eigi erfiðara en stúlkur með að tjá sig með orðum og því líklegra að þeir loki tilfinningar sínar inni eða láti hendur skipta. Um 65% gesta Unglingaheimilis ríkisins hafa verið drengir. Afskipti lögreglu af unglingum sýna einnig að drengir eru mun líklegri til að lenda undir eftirliti lögreglu, eða 86% á móti 14% stúlkna. Dauði vegna slysa er einnig margfalt algengari meðal drengja og pilta og sama á við um sjálfsvíg.

Þá er ein ástæða þess að drengir eiga við aðlögunarvanda að etja í skólum talin sú að fáir karlar eru við kennslu og því fáar fyrirmyndir í grunnskóla, og þá ekki síður leikskóla, sem þeir geta samsamað sig. Þessi staðhæfing er þeim mun alvarlegri að margir feður vinna fjarri heimilum, þar með talið þúsundir sjómanna, og u.þ.b. fjórðungur barna á Íslandi býr með einstæðum mæðrum. Karlmaður sem starfar sem kennari getur því verið raunveruleg fyrirmynd þeim börnum sem lítt kynnast körlum í uppeldi sínu og hann er a.m.k. staðfesting þess að karlar sinna líka uppeldisstörfum.

Drengirnir fá ákveðin skilaboð frá umhverfinu um hvers konar manneskjur þeir eiga að vera. Bæði fagfólk og foreldrar hafa vaxandi áhyggjur af því að nútímasamfélag bjóði drengjum upp á stöðugt verri fyrirmyndir og að hetjuímyndin verði sífellt ofbeldiskenndari. Það hefur komið í ljós hjá þeim drengjum sem leita til skólasálfræðinga að raunverulegir karlmenn eru ekki fyrirmyndir þeirra heldur oftar einhvers konar ofurmenni myndbanda og kvikmynda. Stúlkur fá einnig sín skilaboð frá umhverfinu og þær hafa ekki síður en drengir liðið fyrir kynbundna fordóma og staðlaðar fyrirmyndir. Það er talin mikil þörf á því að styrkja stúlkurnar til frumkvæðis því óvirk staða þeirra í grunnskóla kemur niður á þeim síðar, bæði námslega og félagslega.

Herra forseti. Jafnréttisbaráttan hefur aðallega verið háð af konum. Hún hefur leitt til þess að losnað hefur um staðlaða ramma kvenímyndarinnar og staða kvenna hefur að ýmsu leyti breyst. Jafnréttisbaráttan virðist hafa haft jákvæð áhrif á stúlkurnar og rannsóknir sýna að stúlkur hafa öðlast aukinn félagslegan styrk og sjálfstraust. Ábyrgð á börnum og heimili er þó enn hlutskipti flestra kvenna og kann að vera ein af orsökum þess launamisréttis sem þær búa við. Við þessu þarf að bregðast. Það verður ekki gert nema við beinum sjónum okkar frekar að stöðu og uppeldi barnanna, ekki síst innan skólanna þar sem veigamikill þáttur félagsmótunarinnar fer fram. Fyrirferð drengjanna innan skólans er nefnilega ekki einhlít vísbending um sterka stöðu þeirra, heldur e.t.v. þvert á móti. Athyglin sem þeir fá er oft fyrst og fremst neikvæð. Á meðan taka stúlkurnar betri próf og bíða prúðar eftir að röðin komi að þeim.

[18:00]

Starfshópur á vegum menntmrn. setti árið 1990 fram eftirfarandi meginmarkmið, með leyfi forseta:

,,Í skólastarfinu skal leitast við að efla sjálfstæði og sjálfsvirðingu bæði stúlkna og drengja og búa þau jafnt undir virka þátttöku í fjölskyldulífi, atvinnulífi og mótun samfélagsins alls.``

Þetta eru eðlileg markmið í þjóðfélagi sem vill kenna sig við lýðræði og vill hafa mannréttindi í öndvegi. En þó markmiðin hafi verið sett fram er ljóst að kennurum er vandi á höndum, enda hafa þessi ákvæði hvorki ratað með beinum hætti inn í námskrá né námsefnið tekið nægilegt mið af þeim. Ef kennarar ætla sér að sinna þessu verkefni þegar út í skólana er komið verða þeir að brjóta venjur sem ríkja í skólastarfi og leggja á sig vinnu við mótun eigin námskrár og jafnvel námsefnis.

Við höfum fyrr í dag, herra forseti, talað um nýja aðferð í jafnréttismálum, samþættingu, þar sem í stað þess að nálgast jafnrétti kynjanna sem sérstakt verkefni sem höfði einungis til kvenna er nú óðum að ryðja sér til rúms sú skoðun að jafnréttismál séu mál samfélagsins í heild. Þetta er ný aðferðafræði við stefnumótun þar sem hagsmunum beggja kynja er gert jafnhátt undir höfði.

Það má segja, herra forseti, að sú tillaga sem við erum að ræða nú taki nokkurt mið af hinni nýju aðferðafræði vegna þess að hér er lagt til að staða beggja kynja sé skoðuð með það fyrir augum að tekið verði tillit til mismunandi þarfa.

Það er mikið efni til um rannsóknir á skólastarfi og mismunandi áhrifum þess. Bæði er um að ræða rannsóknir og niðurstöður úr þróunarstarfi hér heima og einnig erlendis. Á undanförnum árum hafa líka nokkrir skólar verið að gera tilraunir með að skipta nemendum í bekki eftir kyni. Einnig hafa ýmis jafnréttisverkefni verið reynd sérstaklega. Svokölluð hjallastefna, sem þróuð hefur verið í leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði, hefur einnig vakið óskipta athygli og verið öðrum leikskólum fyrirmynd og öllu skólafólki hvatning til endurmats á viðteknum vinnubrögðum og aðferðum. Þannig er að verða til reynsla og þekking sem þarf að vinna markvisst úr með tilliti til skólastarfs í landinu öllu og námskrárgerðar.

Það er líka nauðsynlegt, herra forseti, að tengja þær hugmyndir og tillögur sem fram koma um breyttar áherslur í skólastarfinu við kennaranámið. Í Kennaraháskólanum og við kennsluréttindanám í Háskóla Íslands sem og í kennaradeild Háskólans á Akureyri hefur verið fjallað um kynferði og jafnrétti á námskeiðum í þróunarsálfræði. Þetta er í áttina, herra forseti, en engan veginn nóg vegna þess að umfjöllun af þessu tagi þarf einnig að koma inn í kennslufræðina og vil ég þá minna á þann vanda kennara sem vilja gjarnan vinna í þessum anda og ég gat um áðan.

Á hinum Norðurlöndunum hefur umfjöllun um jafnrétti og kynferði farið vaxandi innan uppeldisgreina. Það hefur verið bent á það fyrr hér í dag að aðferðir til að jafna stöðu kynjanna eru orðnar viðurkenndar innan Evrópusambandsins. Þessi umfjöllun mótast af þeim viðhorfum að kynjamisrétti endurspeglist í skólastarfinu og því sé unnt að vinna gegn misrétti kynjanna og stuðla að jafnrétti með vinnunni innan skólanna. Til þess þurfum við að móta stefnu sem tekur tillit til þarfa beggja kynja og það er í anda þeirrar stefnu sem þessi tillaga er fram komin.