Úrbætur á Norðausturvegi frá Húsavík til Þórshafnar

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 18:12:19 (1123)

1997-11-11 18:12:19# 122. lþ. 22.19 fundur 241. mál: #A úrbætur á Norðausturvegi frá Húsavík til Þórshafnar# þál., Flm. IS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[18:12]

Flm. (Ingunn St. Svavarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um átak í úrbótum á Norðausturvegi frá Húsavík til Þórshafnar á þskj. 280, 241. mál, sem hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að gera átak til úrbóta á Norðausturvegi frá Húsavík til Þórshafnar á næstu tíu árum og fela Vegagerðinni að sjá um framkvæmdir. Fjármagn til átaksins, samtals 2 milljarðar kr., verði veitt sem sérstakur byggðastyrkur, 200 millj. kr. á ári.``

Herra forseti. Ég tek svo djúpt í árinni að telja að þetta sé grundvallaratriði til að byggð geti þróast og þrifist í Norður-Þingeyjarsýslu. Norðausturhorn landsins hefur orðið á eftir öðrum landshlutum í vegabótum og vegurinn sem er eina tenging byggðarinnar þar við þjóðvegakerfi landsins er ekki til þess gerður að þola þá þungaflutninga sem um hann fara. Ríkisstjórn ber að sjá til þess að stofnvegakerfi landsins standist þær kröfur að geta verið lífæð fyrir flutning fólks og farms. Forsendur átaks í vegabótum á norðausturleiðinni eru í fyrsta lagi að skipaflutningar í Norður-Þingeyjarsýslu eru svo til aflagðir og vöruflutningarnir hafa flust að mestu á land. Farþegaflutningar og póstflutningar með flugi eru nú að leggjast af að mestu leyti í sýslunni og flutningarnir fara um vegina í staðinn.

Fyrirtæki í Norður-Þingeyjarsýslu sem eru að stærstum hluta matvælafyrirtæki, svo sem fiskeldisfyrirtækin Rifós og Silfurstjarnan í Öxarfirði, Rækjuvinnslan á Kópaskeri og Fjallalamb með sína kjötvinnslu og fiskvinnslufyrirtækin á Raufarhöfn og Þórshöfn, eru nánast algerlega háð flutningum á landi með afurðir sínar og vörur vegna krafna sem gerðar eru um ferskleika vörunnar. Nýleg sameining hérðasnefnda Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu með stofnun félagsþjónustu Þingeyinga á Húsavík, skólaþjónusta Eyþings á Húsavík, sameining og aukin samvinna sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu auk sameiningar heilsugæslustöðvanna í Norður-Þingeyjarsýslu gera tíðari samgöngur og greiðari nauðsynlegar. Öll uppbygging ferðaþjónustu í Jökulsárgljúfrum, við Dettifoss, í Ásbyrgi og Hljóðaklettum að ógleymdum svokölluðum miðnætursólarhring er illmöguleg miðað við núverandi ástand vegarins. Einungis 19% leiðarinnar frá Húsavík til Þórshafnar telst fullgerður vegur með bundnu slitlagi. Hluti leiðarinnar er nokkurn veginn tilbúinn undir slitlag, en mestur hluti vegarins þarfnast gagngerðrar endurgerðar.

Loks vil ég benda á eftirfarandi: Skólaakstur barna allt að 90 km á dag fram og til baka á holóttum malarvegum eru að mínu mati á velsæmismörkum. Tjón bifreiðaeigenda er töluvert á ári hverju vegna steinkasts og slit á bílum er mun meira en á fullgerðum vegum með bundnu slitlagi. Íbúar í Norður-Þingeyjarsýslu leggja til umtalsverðar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið, tekjur sem íslenska þjóðin hefur ekki efni á að vera án. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að hraða úrbótum á Norðausturvegi.

Herra forseti. Ég legg til að þessi tillaga verði að lokinni þessari umræðu lögð fyrir hv. samgn. og niðurstaða fáist í málinu á þessu þingi. Enn fremur verði tillögunni vísað til síðari umræðu.