Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:08:36 (1182)

1997-11-13 12:08:36# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:08]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka undir einn þátt sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Það er alveg rétt þegar hann talar um að ein af ástæðunum fyrir þessu sé að menn hafi ekki eftirspurn eftir vinnuafli beggja einstaklinganna sem í hjónabandi eru. Þetta er mikið vandamál og eitt af því sem er orsök þess að mjög víða á landsbyggðinni vantar menntað fólk. Það er sérstakt áhyggjuefni sem ekki hefur kannski verið gert að umtalsefni. Ein af ástæðunum er sú að atvinnulífið er ekki nógu fjölbreytilegt. Þetta er skýring sem ég tel vera í sjálfu sér miklu betri en skýringarnar sem þingmaðurinn nefndi áðan um atvinnu og laun.

Hann nefndi líka stækkun kjördæma eða fækkun þeirra. Ég held að það væri mjög góð leið til að skapa betri umgjörð utan um mannlíf á landsbyggðinni. Það sem við þurfum að gera er að skoða þessi mál út frá því að þetta er ekki leyst með peningum einum saman heldur kannski fyrst og fremst með því að reyna að skilgreina byggðastefnuna upp nýtt.