Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:45:53 (1188)

1997-11-13 12:45:53# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), MS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:45]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Við komum hér hver á eftir öðrum hv. þingmenn Vesturlands til að ræða byggðamál, enda ekki vanþörf á. Þær umræður sem nú fara fram um byggðaþróun og búsetubreytingar í landinu almennt eru háværar, enda er ekki að furða að svo sé. Ég held að ekki sé ofmælt að segja að nú þessi síðustu ár aldarinnar standi yfir einhverjir mestu búferlaflutningar Íslandssögunnar þannig að full efni eru til að ræða þessi mál og það heyrir auðvitað undir þann lið sem við ræðum hér í dag.

Ég held að almennt séð sé fólk þeirrar skoðunar að landið okkar eigi allt að vera í byggð en hins vegar greinir menn á um hvernig og hvað beri að gera til að svo verði. Það er mál sem við gerum okkur grein fyrir. Í öðrum löndum er hafa menn miklar áhyggjur af þeirri þróun sem á sér stað í öllum heiminum nánast sem er kannski áþekk því sem við stöndum frammi fyrir. Menn hafa miklar áhyggjur af þessu og hafa uppi ýmis áform um það hvernig skuli bregðast við.

Við höfum orðið vitni að því hér að það hafa verið raddir uppi um það í áhrifastöðum á höfuðborgarsvæðinu að höfuðborgin sem slík sé ekki nógu öflug og ekki nógu stór og þá eru menn fyrst og fremst að miða það út frá samkeppni við útlönd. Þetta er merkilegt innlegg í þessa umræðu og við þurfum að sjálfsögðu að ræða þetta eins og hvað annað.

Í umræðunni um það hvað veldur þessari byggðaþróun sem við upplifum um þessar mundir eru ástæðurnar margvíslegar og kannski má segja að það sé okkar vandi. Þegar við leitum ráða um það hvernig skuli bregðast við, þá er okkar vandi að ástæðurnar eru svo margvíslegar og það er svo erfitt að skilgreina þær nákvæmlega þannig að tillögur til aðgerða verða kannski ekki eins markvissar og að öðrum kosti.

Í umræðunni í dag hefur ýmislegt komið fram sem menn nefna til sem ástæður þessarar þróunar en mín skoðun er sú að það að næg atvinna sé fyrir hendi og há laun, sé kannski ekki það sem skiptir öllu máli nú. Ég held að það sé staðreynd sem æ fleiri viðurkenna.

Hvað varðar atvinnulífið þá skiptir verulega miklu máli og grundvallarmáli að atvinnumöguleikar séu fjölbreyttir. Við upplifum það hvar sem er um landið að ungt fólk fer til náms, sækir sér menntun á háskólastigi en upplifir það síðan að því loknu að möguleikar eru ekki til staðar til að snúa til baka og stunda atvinnu við hæfi. Þetta er mjög alvarlegt mál en að sjálfsögðu er ekki einfalt að bregðast við þessu.

Það er hægt að tína fjölmargt til en ég held hins vegar að sú sýn sem fólk almennt hefur á lífinu og tilverunni skipti líka verulegu máli í dag og þá vil ég kannski nefna afþreyingarmöguleika og félagslega þætti. Þeir skipta verulegu miklu máli og við vitum fjölmörg dæmi þess að það hefur ráðið úrslitum um búsetuval fólks.

Ég vil taka undir það sem fram hefur komið í þessari umræðu að þær aðferðir sem við höfum beitt til þess að styrkja byggð í landinu hafa ekki dugað sem skyldi þó svo að ýmislegt jákvætt hafi verið gert. Hér er til umræðu skýrsla um Byggðastofnun og þar er ýmislegt tiltekið af því sem Byggðastofnun hefur verið að gera. Ég held að það megi segja að þar kemur fjölmargt fram sem hefur verið gert á jákvæðan hátt til þess að styðja og styrkja bæði atvinnulífið og búsetuna í landinu. En því miður, eins og ég hef vikið að, duga stjórnvaldsaðgerðir og aðgerðir stofnana eins og Byggðastofnunar kannski of skammt í þessum efnum. Ástæður fyrir þessari þróun eru það margvíslegar að það kannski skýrir það.

Það hefur verið rætt um þá kosti að styðja við atvinnu- og þjónustukjarna eða svæði úti um landið og ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að því. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að það sé hugsanlegt, að kannski sé helsti kosturinn að styrkja byggðina innan frá, getum við sagt, þ.e. að leggja áherslu á sérstök svæði eða byggðakjarna sem eru atvinnu- og þjónustukjarnar þannig að viðkomandi landsvæði styrkist innan frá og þannig verði stutt við búsetuna á viðkomandi svæðum. Hins vegar munum við alltaf standa frammi fyrir því að ákveðin jaðarsvæði verði til og það eru þau sem eiga erfiðast uppdráttar. En með því að skilgreina svona atvinnu- og þjónustukjarna, þá náum við e.t.v. betur að nálgast þessi jaðarsvæði og vinna þannig að þeirra hagsmunum.

Herra forseti. Í þessu öllu saman vil ég nefna eitt sérstakt atriði sem ég tel að skipti grundvallarmáli varðandi byggðamálin eða búsetu fólks í landinu og það eru samgöngumál. Það er sama hvert farið er, alls staðar virðist þetta vera fólki nánast efst í huga og þá er kannski fyrst og fremst verið að meina vegasamgöngur. Við þekkjum að þetta ástand er alls ekki gott víða um landið og því er mjög mikil ástæða til þess að taka þar á. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vitna til svars hæstv. samgrh. við fyrirspurn minni sem birtist í þessari viku þar sem ég spurðist fyrir um það hvaða byggðakjarnar á landinu væru ekki tengdir meginþjóðvegakerfinu með bundnu slitlagi og hversu miklar vegalengdir þar væri um að ræða. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að það þurfi að leggja um 940 km bundnu slitlagi til þess að tengja þéttbýlisstaði sem eru með yfir 200 íbúa við meginþjóðvegakerfið. Ég held að þetta segi okkur ákveðna sögu og ekki síst þegar við skoðum um hvaða svæði hér er að ræða. Þetta eru þau svæði sem menn gjarnan nefna til sögunnar varðandi þessi byggðamál, þ.e. fyrst og fremst Snæfellsnesið, Vestfirðirnir, afmarkað svæði á Norðurlandi, norðausturhornið og síðan Austurland. Ég tel að menn hljóti að líta verulega til þessara hluta í vinnunni sem fram undan er í gerð vegáætlunar fyrir næstu árin og ég tel að mjög mikilvægt sé að það verði gert.

Við höfum rætt um landsbyggðina en það er ekki síður efni að ræða höfuðborgarsvæðið af þessu tilefni. Það er alveg ljóst að sú samsöfnun fólks sem á sér stað á höfuðborgarsvæðinu kostar þjóðfélagið gífurlega peninga. Þegar fólk flykkist af landsbyggðinni og safnast saman hér á þessu svæði, þá er alveg ljóst að verið er að yfirgefa fjárfestingar og uppbyggð mannvirki og þjónustu sem er fyrir hendi á landsbyggðinni. Þessir hlutir verða vannýttir og um leið þarf að leggja í gífurlegar fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu. Sumt af þessu hefur verið nefnt hér en þó vil ég nefna eitt sérstaklega af því að ég var að tala um vegamálin, þ.e. að komið hefur fram hjá borgarstjórn Reykjavíkur að þeir telja að það þurfi einn milljarð á hverju ári núna á næstu árum til þess að byggja upp vegakerfi á þessu svæði til að mæta þeirri fólksfjölgun sem hér á sér stað. Þetta er bara svona eitt dæmi sem ég vildi nefna.

Annað mætti nefna. Það hefur komið fram og við þekkjum það, að nú á sér stað og mun eiga sér stað á allra næstu missirum væntanlega, að mínu mati, gífurleg offjárfesting á ýmsum sviðum og þá vil ég nefna það sem menn hafa kallað kringluæðið, þ.e. uppbygging á verslunarkjörnum og verslunarmiðstöðvum og það eru áform um slíkt í stórum stíl hér á þessu svæði. Ég held að ekki sé síður ástæða fyrir menn að velta þessum hlutum fyrir sér þegar verið er að tala um byggðamálin í víðu samhengi og hvað það kostar okkar samfélag og hverjir hagsmunirnir eru.

En hvað getum við gert til að bregðast við? Það er hægt að nefna ýmislegt til. Að sjálfsögðu geta stjórnvöld gert ýmislegt til að bregðast við þessu, en eins og ég hef sagt, þá kannski dugar það of skammt miðað við þær aðstæður sem við búum við. Ég hef nefnt samgöngumálin, en ekki er síður ástæða til að nefna að mikill ójöfnuður er á mörgum sviðum varðandi útgjöld heimilanna, annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel á milli svæða um landið. Þar vil ég nefna tvö dæmi. Það er fyrst og fremst raforkuverð til húshitunar sem er mjög þungur baggi á útgjöldum heimilanna á þeim svæðum þar sem þarf að nýta raforku til húshitunar. Þetta skiptir mjög miklu máli og skiptir máli í útgjöldum fólks.

Annað mætti nefna og það hefur reyndar komið fram hér í dag, þ.e. kostnaður sem heimilin þurfa að bera við framhaldsnám barna í fjölskyldunni. Fjölmörg dæmi eru um það að fjölskyldur hafa séð sig knúnar til þess að flytjast búferlum af einstökum stöðum þar sem framhaldsskólar eru ekki til staðar til þess að gefa börnum sínum kost á því að stunda framhaldsnám einfaldlega vegna þess að kostnaðurinn er svo mikill við það að halda börnum til náms fjarri heimili að fjölskyldurnar standa ekki undir því. Mig langaði að nefna þessi tvö dæmi sérstaklega en þau eru auðvitað fjölmörg fleiri.

Herra forseti. Tíma mínum fer að ljúka. Það væri hægt að ræða þessi mál daglangt og það er af mörgu að taka. En svona rétt í lokin vil ég segja að að sjálfsögðu eru fjölmargir möguleikar og sóknarfæri víða úti um landsbyggðina og ýmislegt er að gerast, þrátt fyrir að menn ræði það nú ekki mikið, í uppbyggingu bæði atvinnutækifæra og í samgöngumálum á landsbyggðinni. Við megum ekki gleyma að nefna það sem vel er gert og jákvætt er í þessari þróun sem væntanlega og vonandi má þó verða til þess að spyrna við þeirri röskun sem á sér stað um þessar mundir. Við landsbyggðarmenn verðum að breyta þeirri umræðu örlítið sem við höfum kannski haldið uppi til skamms tíma varðandi þessi mál og reyna að gera hana svolítið jákvæðari og bæta þar með ímynd landsbyggðarinnar því það er mjög gott að búa úti á landi víða. Þar er öflugt menningar- og félagslíf og varðandi fjölskyldurnar þá þekki ég af eigin raun að það er miklu vænlegri kostur að ala upp ung börn víða úti um landsbyggðina en á höfuðborgarsvæðinu þar sem mannfjöldinn er orðinn svo mikill og aðstæður eins og þær eru.

Þetta eru þau dæmi sem ég vildi nefna. Við landsbyggðarmenn verðum að halda þessu á lofti og reyna að bæta þessa umræðu á jákvæðan hátt. Ljóst er að hagsmunir höfuðborgarsvæðisins eru undir því komnir m.a. að landsbyggðin sé sem víðast blómleg og öflug. Þá eru það einnig hagsmunir landsbyggðarinnar að höfuðborgin sé sem öflugust þannig að þetta fer nú allt saman. Ég held að við verðum í sameiningu, öll þjóðin, að taka á þessum málum. Það er þjóðhagslegt hagsmunamál okkar að við vinnum saman að því verkefni sem blasir við okkur og menn eiga að reyna að eyða þessari umræðu sem því miður er í of miklum mæli þannig að verið er að stilla þessum hlutum upp hvorum gegn öðrum, þ.e. annars vegar höfuðborgarsvæðinu og hins vegar landsbyggðinni. Menn hafa nefnt ákveðna skýrslu til sögunnar frá Aflvaka hf og Atvinnu- og ferðamálastofu Reykjavíkur og ég vil taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á vinnubrögð og framsetningu hennar. Þessi skýrsla og sú umfjöllun sem hefur orðið um hana virkar þannig á mig að þetta mál hafi verið sett fram beinlínis til þess að etja saman þeim tveimur þjóðfélagshópum. Ég vil leyfa mér að segja það hér og að sjálfsögðu bera þeir ábyrgð á því sem bera ábyrgð á þessum vinnubrögðum og það eru borgaryfirvöld í Reykjavík kannski fyrst og fremst. En ég vil vara við þessu og hvetja til þess að við tökum höndum saman, þjóðin í heild, og vinnum okkur út úr þessu verkefni sem sannarlega er ekki einfalt en er mikilvægt að náist farsæl lausn um.