Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 18:05:22 (1240)

1997-11-13 18:05:22# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[18:05]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ástæða þess að ég vék að þeim dæmum sem mönnum eru í fersku minni, sem núv. ríkisstjórn, ráðherrar þar og stuðningsmenn hafa tekið og haft forgöngu um, flutningur Landmælinga ríkisins upp á Akranes og þetta síðasta sem er ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar, er sú að hv. þm. Guðjón Guðmundsson ræddi það sérstaklega í sinni ræðu. Það var nú ekki lengra að sækja ástæðuna fyrir þeirri umræðu. Ég ítreka að það sem hér er um að ræða eru smámál í heildarsamhengi, smámál. Ég er þeirrar skoðunar að starfsemi sem snertir Byggðastofnun og ef hún er ekki flutt í heilu lagi eitthvert annað eða yfirstjórn hennar sem er athugunarefni --- það var til umræðu einu sinni með Akranes, það varð ekki að ráði --- þá væri eðlilegt að varðveita ákveðinn kjarna í stofnuninni, samræmingarkjarna, en dreifa annarri starfsemi í miðstöðvar í kjördæmum landsins. Það er mitt viðhorf í þessu samhengi.

Hitt er mjög umræðunnar virði og það er sú dæmalausa málafylgja sem fyrrv. ráðherra yfir Landmælingum ríkisins undirbjó og núv. hæstv. umhvrh. fylgdi fram og tók ákvörðun um að flytja ríkisstofnunina Landmælingar ríkisins upp á Akranes sem hefur enga þýðingu í byggðapólitísku samhengi. Akranes er að verða hluti af höfuðborgarsvæðinu og í ljós hefur komið að þessi ráðstöfun var það illa undirbúin að það eru því miður horfur á að stofnunin beri ekki sitt barr úr því sem komið er, því miður.