Kjör lífeyrisþega

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:03:50 (1244)

1997-11-17 15:03:50# 122. lþ. 26.1 fundur 88#B kjör lífeyrisþega# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í svari heilbrrh. til mín um kjör aldraðra og öryrkja sem dreift er á Alþingi í dag má sjá að fjórir af hverjum tíu öldruðum og öryrkjum eru með tekjur undir lágmarkslaunum og væntanlega mun sá hópur enn stækka um næstu áramót þegar lágmarkslaun í landinu fara í 70 þús. kr. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að láta lífeyrisgreiðslur ekki fylgja launahækkunum í landinu felur í sér grundvallarbreytingu á almannatryggingakerfinu. Lífeyrisgreiðslur hafa í áratugi fylgt hækkunum á vikukaupi verkamanna en nú hefur verulega dregið í sundur milli lágmarkslauna og lífeyrisgreiðslna. Af því tilefni spyr ég hæstv. heilbrrh.:

1. Telur hæstv. heilbrrh. eðlilegt að 40% aldraðra og öryrkja búi við kjör sem eru langt undir lágmarkslaunum í landinu sem þó er viðurkennt að séu langt frá því að standa undir brýnustu nauðþurftum?

2. Mun hæstv. heilbrrh. beita sér fyrir því að kjör aldraðra og öryrkja verði færð að lágmarkslaunum í landinu um næstu áramót þegar lágmarkslaunin hækka í 70 þús. kr.?

3. Við hverju mega lífeyrisþegar búast um næstkomandi áramót?

4. Hver verður tillaga hæstv. heilbrrh.?

5. Mun ráðherra hafa samráð við samtök aldraðra og öryrkja um hækkun á lífeyrisgreiðslum um áramótin?