Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 13:34:12 (1328)

1997-11-18 13:34:12# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[13:34]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en frumvarpið er að finna á þingskjali 294 og er það 249. mál þingsins.

Þetta er í annað skipti sem ég mæli fyrir frumvarpinu, en niðurstaðan síðastliðið vor var að fresta afgreiðslu málsins til þessa þings. Frá fyrstu gerð hefur frumvarpið tekið umtalsverðum breytingum í samræmi við tillögur annars vegar efnahags- og viðskiptanefndar og hins vegar starfshóps sem vann að málinu í sumar og lauk endanlega störfum í síðasta mánuði. Niðurstaða starfshópsins byggðist á ákveðinni málamiðlun um tiltekin umdeild atriði, en fullyrða má að almenn sátt ríki um flest mikilvægustu efnisatriðin.

Lífeyrismál og starfsemi lífeyrssjóða er mikilvægur málaflokkur sem í raun hefur ekki fengið verðuga athygli né umfjöllun hér á landi fyrr en á síðustu missirum. Skyldutrygging lífeyrisréttinda hefur bein áhrif á fjárhag hvers einasta manns því sem næst frá vöggu til grafar. Áfram þarf að byggja upp og styrkja innviði þess kerfis sem lögunum er ætlað að ná til. Gagnger endurskoðun almannatryggingalaganna er aðkallandi og mikilvægt er að bregðast tímanlega við fyrirsjáanlegum breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Fyrirhuguð lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eru meðal mikilvægustu stoða þess velferðarkerfis sem við ætlum að búa íslensku þjóðinni á 21. öldinni.

Án viðeigandi ráðstafana stefna lífeyristryggingakerfi hins opinbera víða um heim í greiðsluþrot. Almennt eru þau byggð upp sem gegnumstreymiskerfi og því fólki sem er á vinnumarkaði á hverjum tíma er þess vegna ætlað að gefa eftir hluta af launum sínum til að standa undir nauðsynlegum lífeyrisgreiðslum til þeirra sem eru utan vinnumarkaðarins.

Reynslan hefur leitt í ljós alvarlega brotalöm á því fyrirkomulagi að byggja lífeyriskerfi heillar þjóðar á gegnumstreymi eða beinni tilfærslu fjármuna frá einni kynslóð til annarrar. Kerfið tryggir heldur ekki æskilegt samband milli þess sem einstaklingarnir leggja fram og taka út, sá og uppskera.

Svo að dæmi séu tekin sýna framreikningar á vegum OECD að árleg útgjöld hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna munu að óbreyttu vera komin yfir 16% af vergri landsframleiðslu árið 2030 í Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu. Til samanburðar má geta þess að hér á landi er gert ráð fyrir að útgjöld til lífeyristrygginga almannatryggingakerfisins nemi um 17 milljörðum á næsta ári eða um 3% af vergri landsframleiðslu.

Fyrir utan að hafa treyst um of á opinbera tilfærslu milli kynslóða má rekja lífeyrisvandann til mikilla breytinga á aldurssamsetningu flestra þjóða, þar sem dregur úr fæðingartíðni á sama tíma og lífsævin lengist.

Árið 2030 er gert ráð fyrir að hlutfallslega verði þeir jarðarbúar sem eru 65 ára og eldri, tvöfalt fleiri en í dag. Gera má ráð fyrir að Íslendingum 65 ára og eldri fjölgi úr 11% í 19% af mannfjölda til ársins 2030.

Afleiðing þessarar þróunar er sú að færri og færri á vinnualdri verða á bak við hvern aldraðan. Árið 1995 voru 65 ára og eldri um 20% íbúa á aldrinum 15 til 64 ára í flestum svokölluðum iðnríkjum. Framreikningar sýna að í flestum ríkjunum verður þetta hlutfall orðið um eða yfir 40% árið 2030. Hér á landi var þetta hlutfall 17,4% árið 1995 og verður samkvæmt framreikningi orðið 30,1% árið 2030.

Framangreindar tölur sýna að mörg ríki standa frammi fyrir miklum vanda þar sem þau hafa fyrst og fremst treyst á gegnumstreymiskerfi í lífeyrismálum. Fyrir okkur Íslendinga virðist vandinn á hinn bóginn vel viðráðanlegur. Það er þó háð því að okkur takist að treysta það kerfi, sem við höfum þegar byggt og berum gæfu til að halda uppbyggingarstarfinu áfram. Okkur ber að nýta til fulls hagstæða aldurssamsetningu þjóðarinnar og þá staðreynd að aðilum vinnumarkaðarins tókst með samningum árið 1969 að leggja grunn að fyrirmyndarlífeyriskerfi.

Þrátt fyrir að staða okkar Íslendinga sé hagstæð í samanburði við aðrar þjóðir kallar úrlausnarefnið á stefnufestu og árvekni. Það er ekki nema einn og hálfur áratugur síðan flest benti til þess að markmið íslenska lífeyriskerfisins mundu ekki nást og þar með að við stæðum í sömu sporum í lífeyrismálunum og flestar aðrar þjóðir. Fjárhagsstaða lífeyrissjóða sem starfa án ábyrgðar launagreiðanda hefur gjörbreyst á undanförnum árum og samstaða hefur náðst um að byggja upp lífeyrissjóði opinberra starfsmanna sem söfnunarsjóði. Ekki eru nema átta ár síðan forveri minn í starfi tók þátt í því að skerða lögboðið atvinnurekandaframlag ríkisins til Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna með þeim rökum að sjóðurinn væri í raun gegnumstreymissjóður.

Á undanförnum árum hafa margar þjóðir gripið til róttækra aðgerða í lífeyrismálum. Árið 1994 gaf Alþjóðabankinn út skýrslu þar sem gerð var grein fyrir nokkrum áhersluatriðum. Í skýrslunni var eindregið hvatt til þess að þjóðir heims þróuðu lífeyriskerfi sín og byggðu þau upp á þremur meginstoðum. Í fyrsta lagi á almannatryggingum hins opinbera sem væru nokkurs konar öryggisnet og ætlað að draga úr fátækt, í öðru lagi á skyldutryggingu sem frjáls félög önnuðust og byggði alfarið á sjóðsöfnun og í þriðja lagi á frjálsum lífeyrissparnaði. Margar þjóðir hafa unnið að endurskoðun og framgangi lífeyrismála sinna á þessum grundvelli. Frumvarp það sem hér er mælt fyrir byggir einnig í öllum aðalatriðum á sömu hugmyndum og lagðar voru til grundvallar tillögum Alþjóðabankans.

Í mörgum löndum er svigrúm til kerfisbreytinga mjög takmarkað þar sem öldruðum hefur þegar fjölgað hlutfallslega mikið og litlu hefur verið safnað í sjóði á undanförnum árum. Þess vegna hefur fyrst og fremst verið reynt að lagfæra þau kerfi sem fyrir eru. Tryggingaiðgjöld hafa verið hækkuð, lífeyrisgreiðslur skertar, ellilífeyrisaldur hækkaður og samband milli iðgjalda og réttinda aukið svo helstu atriði séu nefnd.

Í Svíþjóð, svo dæmi sé tekið, voru umtalsverðar breytingar samþykktar á lífeyriskerfinu árið 1994 og var gert ráð fyrir að þær tækju að fullu gildi á 20 árum. Sænska kerfið hefur fram til þessa tilheyrt opinbera almannatryggingakerfinu. Það hefur verið byggt upp sem gegnumstreymiskerfi og fjármagnað með sköttum og skyldutryggingariðgjöldum. Ákveðin sjóðsmyndun hefur þó átt sér stað, en hún var fyrst og fremst hugsuð til sveiflujöfnunar milli ára.

Frá og með árinu 1999 er ætlunin að 16,5% af launum renni til kerfisins sem skyldutryggingariðgjald. Til viðbótar er síðan gert ráð fyrir að 2% iðgjald fari til einstaklingsbundins lífeyrissparnaðar. Strangt tekið eru það einungis þessi 2% sem falla undir skilgreiningu Alþjóðabankans á annarri stoð lífeyriskerfisins, þ.e. fara til sjóðsöfnunar á grundvelli þess að beint samband sé milli innborgunar og réttinda. Þröng staða lífeyriskerfisins í Svíþjóð endurspeglast einnig í því að ekki virðist svigrúm til að láta kerfisbreytinguna ná til þriðju stoðarinnar, þ.e. frjálsa lífeyrissparnaðarins.

Í nýlegri skýrslu Evrópusambandsins um lífeyriskerfið og innri markað sambandsins kemur fram að flest aðildarríkin hafa gripið til aðgerða til að verja meginmarkmið lífeyristrygginga hins opinbera og þar með velferðarkerfisins. Fyrir sambandið í heild er áætlað að 88% af útborguðum lífeyri komi frá hinu opinbera og falli undir fyrstu stoð lífeyriskerfisins samkvæmt skilgreiningu Alþjóðabankans. Til að dæmið gangi upp og hægt verði að tryggja einstaklingum viðunandi lífeyri til frambúðar er á hinn bóginn reiknað með að í auknum mæli verði treyst á sjóðsöfnun og hinar tvær stoðir kerfisins.

Þær þjóðir Evrópusambandsins sem náð hafa bestum árangri við uppbyggingu sjóðsöfnunarkerfa utan ríkisgeirans eru Hollendingar og Bretar. Þar er til dæmis áætlað að um 30% útborgaðs lífeyris komi frá öðrum aðilum en ríkinu. Sjóðsmyndun í Hollandi er áætluð samsvara um 90% af vergri landsframleiðslu og í Bretlandi um 80% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar er áætlað að hér á landi megi rekja 40% af útborguðum lífeyri til lífeyrissjóðanna og að eignir þeirra svari til 60% af vergri landsframleiðslu.

Hvort sem litið er til einstaklingsins eða þjóðfélagsins hefur aukinn langtímasparnaður mikla þýðingu. Hann gerir okkur kleift að efla atvinnulífið, draga úr erlendri skuldasöfnun og þróa frjálsa fjármagnsflutninga til og frá landinu. Um leið og æskilegt er að fá inn í landið erlent áhættufjármagn er einnig mikilvægt að íslensk fyrirtæki hafi bolmagn til að fjárfesta í útlöndum. Með alþjóðlegum fjárfestingum flyst þekking og reynsla milli landa og tryggir æskilega áhættudreifingu.

Eins og nú horfir í efnahagsmálum okkar Íslendinga er einnig afar mikilvægt að langtímasparnaður aukist. Þannig má draga úr þenslu og neikvæðum áhrifum viðskiptahalla. Aðhald í ríkisfjármálum og öflug uppbygging íslenska lífeyrissjóðakerfisins eru mikilsverðir þættir í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að treysta forsendur áframhaldandi hagsældar.

Lífeyrissjóðakerfið mun fyrirsjáanlega gegna lykilhlutverki í auknum langtímasparnaði á næstu áratugum. Framreikningar sýna að næstu 40 árin má gera ráð fyrir að tekjur þeirra verði meiri en útborgaður lífeyrir. Þannig er gert ráð fyrir að árið 2040 samsvari samanlögð eign þeirra a.m.k. 150% af vergri landsframleiðslu sem þýðir á milli 750--800 milljarðar í dag.

Í nútímahagkerfi þar sem verkaskiptingin verður stöðugt meiri og flóknari gegnir þróaður peninga- og verðbréfamarkaður mikilvægu hlutverki. Lífeyrissjóðum er ætlað að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum og því ljóst að aukinn lífeyrissparnaður mun á næstu árum gera íslenska verðbréfamarkaðnum kleift að ná fullum þroska. Öflugur verðbréfamarkaður er forsenda framsækins atvinnulífs og mun gegna lykilhlutverki í atvinnusköpun á 21. öldinni.

Íbúðarhúsnæði landsmanna er takmarkaður stofn til veðsetningar og ríkissjóður er farinn að greiða niður skuldir sínar. Í auknum mæli munu því lífeyrissjóðirnar leggja fé til atvinnulífsins og fjárfesta í erlendum skuldabréfum. Einnig er líklegt að nýir fjárfestingarkostir komi á markaðinn. Þannig má sjá fyrir að fjármálastofnanir og einkaaðilar fjármagni og annist í auknum mæli mannvirki sem fram að þessu hefur verið í verkahring ríkisins að annast, svo sem orkumannvirki, samgöngumannvirki og húsnæði sem hið opinbera þarf á að halda.

Langtímasparnaður er að sjálfsögðu ekki síður mikilvægur frá sjónarhóli einstaklingsins. Hugmyndir og væntingar ungs fólks um elliárin eru margbreytilegar og þar með einnig áherslan á fjárhagsafkomu líðandi stundar og í framtíðinni. Miðstýrt gegnumstreymiskerfi er lítt sveigjanlegt og tekur því lítið tillit til einstaklingsbundinna óska og þarfa.

Í stuttu máli eykst efnahagslegt sjálfstæði okkar eftir því sem langtímasparnaður verður meiri. Aukinn langtímasparnaður styrkir frelsi einstaklinganna og leiðir bæði til hagsældar og farsældar.

[13:45]

Í ljósi þess að tekist hefur almenn sátt um þetta frumvarp markar það óneitanlega mikilvæg tímamót. Málefni lífeyrssjóða hafa verið lengi í deiglunni og verið til umfjöllunar í stjórnskipuðum nefndum nær samfellt í meira en 20 ár, eða allar götur frá árinu 1976.

Núverandi löggjöf um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og málefni lífeyrissjóða er frá 1980, en að stofni til frá árinu 1974. Hún er vægast sagt óburðug og fyrir löngu orðin óviðunandi með hliðsjón af umsvifum og mikilvægi lífeyriskerfisins. Til dæmis er í henni sett jafnaðarmerki milli skyldutryggingar og skylduaðildar að lífeyrissjóði, inntak skyldutryggingarinnar er hvergi skilgreint, né er að finna ákvæði um lífeyrissjóðina sem fjármálastofnanir.

Þrátt fyrir mikilvægi frumvarpsins og langan aðdraganda er eðlilegt að líta á afgreiðslu þess sem áfanga fremur en endastöð. Fjölmörg atriði frumvarpsins eru vissulega þess eðlis að vænta má að þau standi óhögguð um langa framtíð enda hefur náðst um þau víðtæk samstaða. Önnur atriði eru á hinn bóginn umdeild og byggja á ákveðinni málamiðlun bæði með tilliti til hagsmuna og hugsjóna. Þessi atriði verða því áfram til umfjöllunar á næstu árum. Þar fyrir utan munu ytri aðstæður fyrr en síðar knýja á um breytingar í þessum málaflokki eins og öðrum.

Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu sem náðst hefur um frumvarpið var fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að hækka frádráttarbærni lífeyrissjóðsiðgjalda og iðgjalda vegna lífeyrissparnaðar í 6% hjá einstaklingum. Í dag er skattfrestun lífeyrissparnaðar þannig háttað að samningsbundin lífeyrissjóðsiðgjöld atvinnurekenda eru almennt frádráttarbær eins og annar launakostnaður, en frádráttarheimild einstaklinga er takmörkuð við 4% af iðgjaldsstofni. Fjármagnstekjur lífeyrissjóða eru skattfrjálsar en útborgaður lífeyrir er á hinn bóginn skattlagður eins og um laun sé að ræða.

Í kjölfar þessa frumvarps verða lagðar til breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Ekki verða gerðar breytingar á skattalegri meðferð lífeyrissjóðsiðgjalda atvinnurekenda, en svigrúm einstaklinga til skattfrestunar aukið eins og áður segir. Þannig er ætlunin að gefa þeim kost á að hækka samningsbundnar greiðslur sem falla undir skyldutryggingarhugtakið eða eftir atvikum að verja viðbótariðgjaldi til frjáls lífeyrissparnaðar. Til hans verða gerðar sömu formkröfur og til þess lífeyrissparnaðar sem fellur undir skyldutrygginguna samanber II. kafla frumvarpsins. Einnig þarf að tryggja að vextir og aðrar fjármagnstekjur af þessum sparnaði svo og útborgun hans fái sömu skattalegu meðferð og nú er viðhöfð gagnvart lífeyrissjóðum og útborguðum lífeyri.

Með ákvæðum frumvarpsins um lífeyrissparnað og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um skattalega meðferð lífeyrisiðgjalda hefur verið lagður grunnur að þriðju stoð lífeyriskerfisins eins og Alþjóðabankinn skilgreinir hana. Stefnt er að nauðsynlegum breytingum á skattalögunum fyrir áramót og að þær taki gildi 1. janúar 1999.

Eins og ég gat um hér að framan hefur náðst almenn sátt um fjölmörg mikilvæg atriði frumvarpsins. Þau atriði sem ég vil nefna í þessu sambandi eru:

Í fyrsta lagi: Frumvarpið byggir á sjóðsöfnun og fullt jafnvægi er milli eigna og skuldbindinga.

Í öðru lagi: Tryggingaverndin er þríþætt, þ.e. greiðsla lífeyris vegna elli til æviloka og eftir atvikum vegna örorku eða andláts.

Í þriðja lagi: Valfrelsi er í uppbyggingu tryggingaverndarinnar, hvað varðar innborgun iðgjalds, fyrirkomulag réttindaávinnslu og það hvenær taka lífeyris er hafin.

Í fjórða lagi: Fjárvörslumarkmið eru skýr, þ.e. fjárfesting í verðbréfum og hámarksávöxtun með tilliti til áhættu.

Í fimmta lagi: Eftirlit er öflugt, víðtæk upplýsingaskylda og nauðsynleg úrræði til eftirfylgni ef á þarf að halda.

Um hvert þessara atriða er hægt að fjalla í löngu máli. Sjóðsöfnunin og krafan um viðvarandi jafnvægi milli eigna og skuldbindinga er þó annað tveggja atriða sem ég vil gera hér að sérstöku umtalsefni. Breytingar á lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna fyrir tæpu ári skiptu tvímælalaust sköpum fyrir þá sátt sem hefur náðst um þessa mikilvægu forsendu íslenska lífeyriskerfisins. Það er grundvallaratriði og forsenda sveigjanleika á vinnumarkaði að sjóðsöfnun eigi sér stað hjá öllum lífeyrissjóðum.

Hitt atriðið sem ég vil gera að sérstöku umtalsefni lýtur að fjárvörslu sjóðanna. Samkvæmt frumvarpinu munu sjóðirnir starfa samkvæmt ströngum reglum. Tilgangur reglnanna er tvíþættur: Annars vegar að tryggja að sjóðirnir hámarki ávöxtun eigna með tilliti til áhættu og hins vegar að koma í veg fyrir að þeir leiðist út í óskylda atvinnustarfsemi.

Sumum kann að þykja að í þessu efni í ákvæðum frumvarpsins sé nokkuð langt gengið, en þá ber að hafa í huga stærð sjóðanna og þá staðreynd að flestir sjóðfélagar hafa einungis með óbeinum hætti enn sem komið er áhrif á stjórn sjóðanna.

Svo nokkur dæmi séu tekin er ótvíræðu fjárvörslumarkmiði og afmörkun á starfseminni ætlað að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir:

í fyrsta lagi niðurgreiði lán til sjóðfélaga,

í öðru lagi fjárfesti í þeim tilgangi að halda uppi atvinnu eða til að tryggja samkeppni og lágt vöruverð,

í þriðja lagi niðurgreiði ferðir til sólarlanda fyrir ellilífeyrisþega,

í fjórða lagi fjárfesti í fyrirtækjum sem sjóðfélagar vinna hjá í þeim tilgangi að framfylgja ákveðinni starfsmannastefnu.

Oft hefur verið þrýst á einstaka lífeyrissjóði í framangreindum tilgangi, þannig að markmiðssetning af þessum toga er ekki út í hött.

Nokkur mikilvæg atriði frumvarpsins byggja á málamiðlun og vil ég nefna þrjú atriði í því sambandi:

1. Ákvörðun aðildar að lífeyrissjóði og skipan stjórna.

2. Skilgreiningu lágmarkstryggingaverndarinnar.

3. Fyrirkomulag eftirlits með því að lögboðin iðgjöld til skyldutryggingar lífeyrisréttinda séu innt af hendi.

Þegar ákvæði 2. greinar frumvarpsins sem kveður á um aðild að lífeyrissjóði er tekið til umræðu er mikilvægt að hafa núverandi ákvæði um lífeyrissjóðsaðild til hliðsjónar og hvernig það kom til á sínum tíma. Því má ekki gleyma að lögboðin skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóði lagði grunn að nauðsynlegri sátt milli kynslóða þegar almenna lífeyrissjóðakerfið var innleitt fyrir tæpum 30 árum. Án hennar hefði óhjákvæmileg tilfærsla fjármuna milli kynslóða, þ.e. frá þeim sem voru að byrja sinn starfsferil til þeirra sem eldri voru, ekki verið möguleg án víðtækra ríkisafskipta.

Ákvæði frumvarpsins ganga út frá því að skipan skyldutryggingar lífeyrisréttinda sé málefni sem aðilar vinnumarkaðarins eiga að semja um í kjarasamningum. Þar á meðal sé þeim frjálst að semja um aðild að lífeyrissjóði fyrir sína félagsmenn. Breytingin frá gildandi lögum takmarkar á hinn bóginn umboð þeirra við þá sem sem eiga aðild að kjarasamningnum eða byggja starfskjör sín á honum, t.d. með skírskotun til hans í ráðningarsamningi.

Breytingin treystir þannig stöðu lífeyrissjóðanna sem sjálfstæðra stofnana og félaga sem staðið er að með frjálsum samningum. Um leið dregur úr mikilvægi þess að ákveða með lögum hvernig skipa skuli stjórnir sjóðanna. Æskilegt er að samningsaðilar og aðrir aðstandendur sjóðanna leiði sjálfir þessi mál til lykta og fái ráðrúm til að bregðast við framkominni gagnrýni.

Lágmarkstryggingavernd lífeyrissjóða eins og hún er skilgreind í 4. grein frumvarpsins er lykilhugtak með hliðsjón af meginmarkmiðum lífeyriskerfisins. Fjölmörg atriði sem tengjast þessari skilgreiningu hljóta því eðli máls samkvæmt að vera til umfjöllunar á næstu árum.

Ýmislegt mælir með því lágmarkstryggingaverndin verði útfærð nánar en gert er í frumvarpinu. Til dæmis mælir margt með því að hún innihaldi ekki einungis ákveðið iðgjald heldur einnig tiltekin réttindaverðmæti. Eftir að verðmæti lífeyrisréttinda hafa náð ákveðnu marki mætti þannig hugsa sér að einstaklingum væri heimilt að ráðstafa öllu iðgjaldi til viðbótartryggingaverndar.

Annað umdeilt atriði sem tengist lágmarkstryggingaverndinni eru mismunandi áherslur varðandi félagsleg markmið lífeyriskerfisins. Á meðan sumir vilja alfarið byggja kerfið upp á einstaklingsbundnu tryggingamati vilja aðrir ganga mjög langt í tilfærslu fjármuna milli ákveðinna hópa. Í því sambandi má nefna tilfærslu milli starfsstétta, frá körlum til kvenna, frá ógiftum til giftra, frá þeim sem borga af háum launum til þeirra sem borga af lágum launum o.s.frv. Mikilvægt er að umræða um þessa þætti haldi áfram. Mín skoðun er á hinn bóginn sú að löggjafinn eigi að varðveita sem mestan sveigjanleika fyrir sjóðina og aðstandendur þeirra til að setja sér markmið af þessum toga á eigin forsendum.

Ákvæði 6. greinar frumvarpsins um eftirlit Ríkisskattstjóra með því að iðgjald verði greitt vegna hvers manns, sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til, krefst vandasamrar útfærslu. Ástæðan er ekki síst sá margbreytileiki sem gert er ráð fyrir í lífeyriskerfinu og að takmörk eru fyrir því hvað réttlætanlegt er að ganga langt í öflun upplýsinga og innheimtuaðgerðum. Um leið og það er í almannaþágu að skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé framfylgt má aldrei gleymast að tryggingin er fyrst og fremst í þágu þess sem hún er innt af hendi fyrir. Of mikil opinber afskipti geta beinlínis verið skaðleg.

Á það hefur verið bent að eftirlit og innheimta af þeim toga sem frumvarpið gerir ráð fyrir samrýmist illa þeim verkefnum sem skattkerfinu hefur verið ætlað að sinna fram að þessu. Ég óska því eftir að efnahags- og viðskiptanefnd skoði þennan þátt gaumgæfilega. Æskilegt væri að búa þannig um hnútana að lífeyrissjóðirnir sjálfir gætu annast nauðsynlegt eftirlit með aðstoð skattyfirvalda og hefðu beinan hag af því að taka við og þar með innheimta lögbundið lágmarksiðgjald.

Í þessu sambandi mætti spyrja hvers vegna ég hafi ekki beitt mér fyrir breytingum á frv. Ég tel ekki ástæðu til þess. Það er hægt að búa við það sem er í frv. Ég tel hins vegar mjög æskilegt að nefndin skoði rækilega þennan sérstaka þátt og athugi hvort ekki væri hægt að koma því fyrir sem þar er um að ræða öðruvísi en frv. gerir ráð fyrir. Í því máli er talsverður fyrirvari því að þetta tekur ekki gildi fyrr en eftir að lögin taka að fullu gildi sem er ekki fyrr en eftir eitt og hálft ár.

Virðulegi forseti. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða taki gildi 1. júlí á næsta ári. Jafnframt er gert ráð fyrir að starfandi lífeyrissjóðir fái eftir það eitt ár til að laga starfsemi sína að ákvæðum laganna. Einnig taka ákvæði um skiptingu lífeyrisréttinda milli hjóna ekki gildi fyrr en 1. maí 1999.

Lögin munu kalla á umtalsverðar breytingar hjá mörgum aðilum. Róttækastar eru þær breytingar sem lífeyrissjóðir sveitarfélaganna þurfa að gera. Á sambærilegan hátt þarf einnig, svo dæmi sé tekið, að ljúka endurskoðun á fyrirkomulagi lífeyrisréttinda alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara. Í framhaldi af samþykkt laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins fyrir ári síðan hófst undirbúningur að þessum breytingum, en samkvæmt því frumvarpi sem hér er mælt fyrir þarf aðlöguninni að vera lokið fyrir mitt ár 1999 og taka gildi, að mínu mati, við upphaf nýs kjörtímabils.

Séreignarsjóðir þurfa að uppfylla skilyrði laganna um lágmarkstryggingaverndina og þar með að bjóða upp á nauðsynlega samtryggingu svo að sjóðfélagar geti eftir atvikum notið viðunandi örorkulífeyris og ellilífeyris til æviloka. Flestir séreignarsjóðir eru þegar farnir að bjóða tryggingavernd af þessum toga, en með lögunum má gera ráð fyrir að vægi þessa þáttar í starfsemi þeirra aukist.

Varðandi lífeyrissjóðina sjálfa má benda á nokkur atriði. Þannig felur frumvarpið í sér nýja skilgreiningu á iðgjaldsstofni og kallar það á aðlögun hjá flestum sjóðunum. Jafnframt er sjóðunum gert að tilgreina þá lágmarkstryggingavernd sem þeir ætla að veita og þar með það iðgjald sem þarf til að standa undir henni. Lífeyrissjóðirnir þurfa um leið að ákveða hvort sjóðfélagarnir fái rétt til þess að ráðstafa hluta heildariðgjaldsins til viðbótartryggingaverndar. Einnig hvort þeir ætla að bjóða sjóðfélögum sínum upp á þann möguleika að samþætta lágmarkstryggingaverndina með séreign og samtryggingu.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins, en þar er kveðið á um að endurskoða skuli lögin árið 2001. Stefnt skuli þá að breytingum á lögunum, komi í ljós að lífeyrissjóðir hafi almennt ekki boðið sjóðfélögum sínum upp á fleiri valmöguleika en nú tíðkast í samsetningu lífeyrisréttinda sinna. Þetta er þýðingarmikið ákvæði sem lýsir stefnunni í frumvarpinu.

Ákvæði frumvarpsins um jafnvægi milli eigna og skuldbindinga er mjög afdráttarlaust og kallar án efa á breytingar hjá ýmsum sjóðum. Síðast en ekki síst má gera ráð fyrir, þótt ekki sé kveðið á um það í frumvarpinu, að breytt starfsumhverfi sjóðanna flýti nauðsynlegri endurskoðun af þeirra hálfu á reglum um ávinnslu réttinda.

Fyrir utan lífeyrissjóðina er öðrum fjármálastofnunum sem tilgreindar eru í 8. gr. frumvarpsins nú heimilað að taka við lífeyrisiðgjöldum með samningum um viðbótartryggingavernd. Þetta mun án efa kalla fram aukna fjölbreytni og bætta þjónustu í lífeyriskerfinu. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að efla áhuga almennings á lífeyrismálum. Aukin samkeppni mun þannig verða til þess að opna augu margra fyrir mikilvægi langtímasparnaðar og þeim hagsmunum sem í húfi eru fyrir okkur bæði sem einstaklinga og þjóð.

Setning laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er löngu orðin tímabær og mun tryggja nauðsynlega umgjörð og þá festu sem hvort tveggja eru forsendur fyrir heilbrigðu og traustu viðskiptaumhverfi. Með þeim er jafnframt lagður grundvöllur til aðgerða á öðrum sviðum í þeim tilgangi að tryggja betur en nú er hagsmuni aldraðra og sátt milli kynslóða.

Endurskoðun lífeyristrygginga almannatryggingakerfisins er orðin afar brýn. Endurskoða þarf samspil þeirra og lífeyrissjóðakerfisins, en einnig verkaskiptinguna milli þeirra og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Jafnframt þarf að huga vel að samspili lífeyrisgreiðslna almannatrygginga og þeirri þjónustu sem hið opinbera niðurgreiðir. Það vill oft gleymast í umræðu um þessi mál að niðurgreidd þjónusta af ýmsu tagi er valkostur við beinan fjárstuðning hins opinbera. Einnig gegnir umönnunar- og heilbrigðisþjónusta hins opinbera stóru hlutverki í þeirri afkomutryggingu sem íslenska velferðarkerfið veitir og kemur oft í staðinn fyrir beinar lífeyrisgreiðslur.

Sérstaklega þarf að huga að tekjutengingu lífeyristrygginga almannatryggingakerfisins og innleiða á ný sveigjanlegan ellilífeyrisaldur. Vert er að hafa í huga að frá upphafi almannatryggingakerfisins 1937 til ársins 1992 var ellilífeyrir hafður breytilegur eftir aldri lífeyrisþegans þegar taka lífeyrisins var hafin. Í byrjun var hann hafður breytilegur eftir aldri lífeyrisþegans á bilinu 67 til 71 árs en síðar var einu ári bætt við. Sveigjanlegur ellilífeyrisaldur er einnig mikilvægt markmið í því ljósi að frá því að almannatryggingalögin voru sett hafa lífslíkur karla við fæðingu aukist um 16 ár og kvenna um 15 ár.

Við endurskoðun almannatryggingalaganna er einnig vert að huga að mögulegum leiðum til að styrkja hinn eiginlega tryggingaþátt umfram það sem nú er gert og efla þannig sambandið milli innborgunar og réttinda. Þetta er eitt af því sem Svíar hafa hugað sérstaklega að við uppstokkun sænska lífeyriskerfisins, en þar er gert ráð fyrir að allir á vinnualdri greiði af tekjum sínum til kerfisins, en jafnframt að ríkissjóður greiði iðgjald fyrir þá sem af einhverjum ástæðum eru tekjulausir.

Í allri umræðu um málefni aldraðra má það ekki gleymast að aldraðir eru ekki afmarkaður einsleitur hópur. Eins og meðal ungs fólks er starfsorka aldraðra breytileg, svo og óskir, þarfir og áhugamál. Okkur væri öllum hollt að hafa oftar í huga þá staðreynd að öldrun hefst ekki þegar einhverju tilbúnu aldursmarki er náð. Þeirri bábilju þarf að eyða að fjöldi starfa sé einhver föst stærð. Við eigum að gefa eldra fólki kost á að starfa áfram og líta fremur á hvaða gagn einstaklingar geta gert í atvinnulífinu en að spyrja um aldur þeirra.

Á Nýja-Sjálandi verður frá og með 1. febrúar 1999 bannað að segja fólki upp starfi vegna þess að það hafi náð tilteknum aldri. Uppsögn eða tilfærsla í starfi verður einungis heimil á grundvelli efnislegra ástæðna. Eðlilegt er að huga vel að þessu atriði hér á landi og yfirfara lagaákvæði sem takmarka rétt manna til vinnu vegna aldurs, t.d. lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Með framangreindum hætti og öðrum tiltækum aðgerðum þarf að styrkja stöðu þeirra sem eldri eru. Almennt þarf að auka sveigjanleika og svigrúm á vinnumarkaði þannig að hár starfsaldur, starfshlé vegna endurmenntunar, ráðning í hlutastarf og tímabundið hlé á atvinnuþátttöku vegna barna eða sjúkra, séu allt eðlilegir þættir í lífshlaupi sérhvers manns.

Virðulegi forseti. Pólitísk umræða í velferðarríkjunum mun á næstu árum í auknum mæli snúast um viðbrögð við breyttri aldurssamsetningu. Á vettvangi stjórnmálanna hérlendis verður einnig að fara fram opinská umræða um hvernig sætta megi ólík sjónarmið milli aldurshópa og tryggja aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði. Við megum ekki taka velferðina að láni og eigum að byggja upp öflugt lífeyriskerfi á grundvelli sömu hugmynda og lágu að baki tillögum Alþjóðabankans árið 1994.

Það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar allrar að efla lífeyriskerfi grundvallað á sjóðsöfnun, hvetja til frjáls langtímasparnaðar og virkrar atvinnuþátttöku óháð aldri. Með samþykkt þessa frumvarps verður stigið stórt skref í þessa átt, stuðlað að sátt milli kynslóða og lagður grunnur að farsælu þjóðlífi á 21. öldinni.

Virðulegi forseti. Að lokinni 1. umr. geri ég tillögu um að málið verði sent til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.