Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:14:53 (1335)

1997-11-18 14:14:53# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:14]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nú satt að segja að hér sé ekki um neitt smámál að ræða. Þannig liggur málið að verkalýðshreyfingin og aðrir aðilar vinnumarkaðarins sömdu um það mál sem hér liggur fyrir. Ein mikilvægasta forsenda þess var sú að skatteftirlitið kæmi að innheimtu og eftirliti með greiðslu á iðgjaldinu. Í framsögu sinni fyrir þessu máli byrjar hæstv. fjmrh. á að segja: ,,Ég teldi nú að rétt væri að breyta þessu vegna þess að þetta getur verið erfitt fyrir skattstjórana og ég hef rætt þetta við þá.`` Hefur hann rætt þetta t.d. við aðra sem með málið eiga að fara, þ.e. eigendur lífeyrissjóðanna? Hefur hann rætt þetta við þá? Það rétta í málinu er að hann hefði átt að byrja á því að ræða þetta við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur í staðinn fyrir að kasta málinu hérna inn eins og hann gerði í ræðu sinni áðan, sem ég tel að sé mjög alvarlegt og geti orðið til þess að spilla fyrir málinu sem ég vona að verði ekki vegna þess að ég styð málið.

Það ýtir undir tortryggni manns í máli af þessu tagi þegar Sjálfstfl. hefur aftur og aftur sett sig þversum í málum eins og þessu án þess að ég fari að nefna einstök dæmi í þessum efnum. Þess vegna tel ég, herra forseti, að það verði að liggja alveg skýrt fyrir hvort hæstv. fjmrh.sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að málið fari í gegnum þingið eins og hann flytur það eða er hann að biðja um að málið líti öðruvísi út?