Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:18:13 (1337)

1997-11-18 14:18:13# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:18]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í vor var skilið við það frv. sem hér er til umræðu og það málefni í mikilli ósátt, í ósátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu og í ósætti við aðila vinnumarkaðarins. Stefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist þá í bréfaskriftum hæstv. fjmrh. til efh.- og viðskn. og afgreiðsla meiri hluta nefndarinnar á málinu benti til þess að stefndi í ein stórfelldustu átök sem við höfum séð hér hin síðari missiri. Herra forseti. Með stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún lagði upp í vor þegar hún afgreiddi málið inn í sumarið, inn í nefndina þá var hún að breyta skipulagi á vinnumarkaðnum í grundvallaratriðum.

Hæstv. fjmrh. undrast núna af hverju sátt virðist ríkja um þetta mál. Ástæðan er einföld. Í sumar var unnið að málinu. Að þeirri vinnu komu verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur sameiginlega, eins og var sl. vetur og þeir höfðu sitt fram. Þetta álit sem hér kemur fram í frumvarpsformi borið fram af hæstv. fjmrh. og hann fagnar, er breyting á afstöðu ríkisstjórnarinnar og meiri hluta efh.- og viðskn. frá því í vor. Það er ástæðan, herra forseti, fyrir að sátt getur orðið um þetta mál vegna þess að í meginatriðum er fallist á þá gagnrýni og þær ábendingar sem við í stjórnarandstöðunni ásamt aðilum vinnumarkaðarins, sérstaklega verkalýðshreyfinginnar, lögðum fram og tekið tillit til þeirra við þetta frv.

Frv. sjálft er vitaskuld viðamikið og fjallar um heildarlöggjöf um lífeyrismál. Ekki er aðeins fjallað um réttindi heldur líka skilyrði lífeyrissjóðarekstrar. Ákvæði eru sett um starfsleyfi, um rekstur og eftirlit lífeyrissjóða auk þess sem fjallað er um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða, endurskoðun og margt fleira varðandi lífeyrissjóðina. Þetta er löngu tímabær löggjöf og það er fagnaðarefni öllum hér sem oft hafa komið að endurskoðun lífeyrismála að það skyldi takast að ná utan um alla þessa þætti. Þeir voru hins vegar ekki ágreiningsefnið í vor og það er heldur ekki ágreiningsefni, herra forseti, að íslenska lífeyrissjóðakerfið ber af kerfum nágrannalandanna. Þetta kerfi sem byggir á skyldutryggingu, sjóðsöfnun og samtryggingu hefur reynst vel, ekki einungis í að skapa fjármuni til greiðslu ellilífeyris og örorkulífeyris hér á landi heldur einnig í því að ríkt hefur sátt um þetta mál, bæði hjá aðilum vinnumarkaðarins og fólkinu í landinu sem nýtur kerfisins.

Síðari ár hafa lífeyrissjóðir sameinast. Þeir hafa orðið sterkari og eiga nú flestir vel fyrir skuldbindingum sínum og samkvæmt mati alþjóðlegra stofnana þykir íslenska lífeyrissjóðakerfið standa einna best af lífeyrissjóðakerfum í Evrópu.

Ekki má heldur gleyma því að lífeyrissjóðakerfið er uppspretta sparnaðar hér á landi, sparnaðar sem á að standa undir fjárfestingum og eiginlega eina almennilega uppspretta sparnaðar hér og það er hins vegar áhyggjuefni. En þá er enn meiri ástæða til þess að ekki sé hróflað við grundvallaratriðum í þessu kerfi sem reynst hefur vel til að auka sparnað.

Í lífeyrissjóðakerfi okkar hafa sameignarsjóðirnir og samábyrgð verið grundvallaratriði. Sjóðfélagar öðlast réttindi til ellilífeyris til æviloka, svo og til örorku- og fjölskyldulífeyris. Það er meginatriðið í okkar kerfi. Hins vegar höfum við séreignarsjóði sem byggja á allt öðru kerfi þar sem menn leggja fyrir og taka út innstæðu sína á tilteknu árabili. Þessi kerfi hafa þróast hlið við hlið en það er mjög mikilvægt og m.a. snerust átökin í vor um að grunnurinn í lífeyrissjóðakerfinu væri samtryggingarkerfið en síðan væri hægt að byggja ofan á það viðbótarsparnað eftir tilteknum reglum. Í vor var oft vegið að þessu kerfi og rætt um að auka valfrelsi eins og það var kallað á þeim tíma. Það var hins vegar misskilningur vegna þess að um leið og einstaklingarnir fá að velja milli lífeyrissjóða, munu lífeyrissjóðirnir velja milli sjóðfélaga. Það þýðir að þeir sem eru í áhættusamari störfum eins og sjómenn eða lifa lengur eins og konur hefðu þurft að borga meira fyrir sambærileg réttindi. Að mati okkar í stjórnarandstöðunni og að mati verkalýðshreyfingarinnar er slíkt gersamlega óviðunandi og vegur að rótum þessa kerfis.

Upplegg ríkisstjórnarinnar var hins vegar að reyna að brjóta eða setja skörð í þetta samtryggingarkerfi, breyta leikreglum hér á vinnumarkaði og gera einstaklingsbundnum ráðningarsamningum hátt undir höfði á kostnað almennra kjarasamninga og það var alvarlegast í þessum efnum. Í vor og sumar var verið að takast á um hvort verkalýðshreyfingin mætti koma að samningum um kaup og kjör sem sameinað afl til kjarasamninga eða hvort við ættum að fara hægt og rólega yfir í amerískt og japanskt kerfi á vinnumarkaði þar sem einstaklingsbundnir kjarasamningar ráða ríkjum og samheldni launþega er ekki fyrir hendi. Um þetta snerust deilurnar í vor og þess vegna, herra forseti, var þetta mál algert grundvallarstefnumál stjórnarandstöðu og stjórnar fram að framlagningu þessa frv. Niðurstöðurnar lágu ekki fyrir fyrr en ríkisstjórnin bakkaði með sín efnisatriði.

Aðaldeiluefnin frá liðnu vori endurspeglast hér í nokkrum greinum frv., þ.e. í fyrsta lagi í 2. gr. frv. sem fjallar um aðildarskylduna þar sem skýrt er dregið fram forræði kjarasamninga við lífeyrissjóðsskylduna og lífeyrissjóðsvalið, forræði kjarasamninga umfram allt. En við heyrðum hér, herra forseti, rétt áðan hjá einum helsta sérfræðingi ríkisstjórnarflokkanna að hann ætlar sér að taka upp gamla deilumálið aftur. Hann ætlar að taka upp deilurnar eins og við skildum við þær í vor og veri hann velkominn í þann slag ef svo ber undir. Við í stjórnarandstöðunni erum ekki feimnir við það að fara aftur í átök við hv. þm. Pétur H. Blöndal og þá sem hugsa líkt og hann vegna þessa frv. En það þarf þá að koma í ljós, herra forseti, hver stuðningur ríkisstjórnarinnar er við þetta frv. Eins og menn muna frá í vor var það stjórnarandstaðan sem reyndi að fá stjórnarfrv. samþykkt en það voru stjórnarliðarnir sem vildu breyta stjfrv. bæði til að rústa lífeyrissjóðakerfinu og breyta skipulagi á vinnumarkaði. Stjórnarandstaðan varði stjfrv. meðan stjórnin hljóp frá því og skildi við það í óvissu. E.t.v. ætla þingmenn Sjálfstfl. að endurtaka sama leikinn. Það verður að koma í ljós.

Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en 2. gr. um aðildina sé í góðu lagi miðað við ábendingar stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar frá því í vor og þá vinnu sem unnin var hér í sumar. Hins vegar má benda á mjög mikilvægt atriði varðandi skýringar við 2. gr. Þar hefði e.t.v. þurft að koma skýrar fram að lífeyrissjóðirnir veita hóptryggingu og skilgreina hópinn eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru. Vafalítið væri sú skýring við 2. gr. til bóta.

Í 4. gr. er kveðið á um lágmarkstryggingavernd. Það var mikið deilumál í vor að við vildum að 10% ein sér yrðu grundvallarsamtrygging. Hér er hins vegar farin önnur leið. Það verður að horfast í augu við það að skilgreind er lágmarkstryggingavernd, hækkuð að vísu úr 50% upp í 56%. Þetta þýðir að hægt væri að láta hluta af 10% iðgjaldinu vera sem séreign viðkomandi einstaklings ef, og það er mikilvægt, viðkomandi lífeyrissjóður gerir um það tillögur. Það er í valdi lífeyrissjóðsins að gera slíkar tillögur. Þeir munu vafalítið gera það ef þeir telja það skynsamlegt.

Þetta mál snýst um peninga, herra forseti. Þetta mál og deilurnar um það snúast fyrst og fremst um peninga. Það eru 300 milljarðar í lífeyrissjóðunum núna. Eftir 40 ár verða 750 milljarðar í þeim, 450 milljörðum meira, fjórföld fjárlög íslenska ríkisins. Það er ekkert skrýtið að reynt sé að gera atlögu að þessu fé, komast í það, ávaxta það, fara höndum um það. Það er ekkert skrýtið, herra forseti, að fjáraflafyrirtæki og fjármálafyrirtæki Sjálfstfl. hafa látið eins og griðungar til að komast í þennan sparnað landsmanna. Þetta snýst um mikla peninga. Ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna eru nú rúmir 60 milljarðar, herra forseti, um helmingur af íslensku fjárlögunum eins og við stilltum þeim upp hér áður. Hér er því um að ræða gífurlega fjárhagslega hagsmuni. Hins vegar er komin sátt í útfærslu málsins sem felst í því að lífeyrissjóðirnir, samtryggingasjóðirnir, hafa heimild til að stofna viðbótarlífeyrissjóðsdeildir hjá sér og taka við viðbótarsparnaði. Það er gott og blessað. Grundvöllurinn er þó í lagi, það er samtrygging, það er lágmarkstryggingavernd sem hefði mátt vera hærri og verður e.t.v. hægt að þoka upp á við á næstu árum. Þá er hægt að spyrja sig: Hvernig stóð á því að ríkisstjórnin gaf eftir? Hvernig stóð á því að fjármálaráðherrar gáfu eftir í sambandi við þetta mál? Ástæðan er einföld.

[14:30]

Það er kynnt í frv. --- ég held að hæstv. fjmrh. hafi ekki gert grein fyrir því --- að það eigi að leggja fram sérstakt frv. um að ekki verði einungis 4% framlag í lífeyrissjóð frádráttarbær frá skatti heldur 6%. Sá sem á fjármagn getur því núna tekið 2% af tekjum sínum, lagt í lífeyrissjóð --- þeir sem hafa efni á því --- og dregið það frá skattskyldum tekjum. Það var ástæðan fyrir því að fjármálaöflin féllust á þetta því að þetta eru verulegir peningar og þetta eru líka góðir möguleikar fyrir þá sem efni hafa á viðbótarlífeyrissparnaði. Þess vegna, herra forseti, féllust þeir á þetta og fóru ekki í þessa styrjöld sem við vorum búnir að boða, stjórnarandstæðingar og verkalýðshreyfingin, um þetta frv. Tekjutap ríkissjóðs í þessu efni liggur á bilinu 1--2 milljarðar. Það er erfitt að spá um það. Það fer eftir því hve margir munu nýta sér þennan viðbótarsparnað.

Ég tel, herra forseti, að það sé af hinu góða að reyna að örva sparnað í þjóðfélaginu. Ég hefði hins vegar kosið að það hefði verið gert með því að fella það inn í samtrygginguna, auka lágmarkstryggingaverndina, auka hana úr þessum 56%, leita samkomulags um hvort hægt væri að borga meira inn í lífeyrissjóðina og tryggja þannig enn betur hag eldra fólks. Þannig, herra forseti, hefði ég viljað ráðstafa þessum peningum ríkissjóðs en ekki til gjafa til þeirra sem nóg hafa milli handanna og geta keypt sér þennan viðbótarsparnað því ekki á ég von á því að þorri launafólks leggi aukalega fyrir 2% vegna þess að hann hafi svo mikið milli handanna. Þetta var ástæðan fyrir því að menn féllust á kröfur aðila vinnumarkaðarins um útfærslu á þessu frv.

Í 14. gr. frv. eru nýmæli sem þarf að ræða nokkuð betur. Þar er kveðið á um að skipta lífeyrissjóðsgreiðslum milli hjóna, þ.e. að maki fá aðild að lífeyrissjóðsgreiðslu, en svo er líka kveðið á um að hægt sé að gera sérstakan samning þannig að maki fái lífeyrissjóðsréttindin sem sinn hlut við fráfall maka. Þetta er sett upp þannig að hægt er að gera um þetta sérstakan samning. Ég held að hér sé góð hugsun á ferðinni. En þegar ég skoða þetta þá held ég að fara þurfi svolítið betur yfir þetta mál. Þetta er í sjálfu sér ekki einfalt. Þetta á að gilda meðan sambúð er. Þetta er hálfgerður samningur og fellur niður við hjúskapar- og sambúðarslit. Ég átta mig þó ekki á í frv. hvernig fer ef ágreiningur er um það efni eins og alltaf getur gerst og mál dregist. Þetta er atriði sem nefndin mun vafalítið kanna. Sömuleiðis, að sjö árum áður en taka lífeyris getur hafist sé hægt að skipta með sér lífeyrisréttindunum. Ég spyr mig einnig í þessu, þó ég skilji hugsunina og virði hana, hvort menn geti ekki -- og menn virðast ekki geta það --- sagt þessum samningi upp sem er gerður milli hjóna. Ég spyr mig hvort hægt sé að gera slíkan samning sem sé óuppsegjanlegur af beggja hálfu. Ég er ekki að segja að þetta sé ekki framkvæmanlegt heldur held ég að menn verði að skoða þetta vandlega því þetta er mjög mikilvæg réttarbót fyrir sambúðarfólk og hjón og er að fikrast áfram í þessa átt. Þetta var ekki inni í upprunalega frv. Þetta eru þættir sem menn hafa verið að þróa í sumar. Ég held að það sé af hinu góða að reyna að skoða þessa þætti með jákvæðum huga. En það breytir því þó ekki að útfærsla á því þarf að vera mjög skýr.

Vitaskuld skiptir samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða máli, t.d. í vaxandi hlutverki lífeyrissjóða varðandi greiðslu ellilífeyris og e.t.v. þá minnkun almannatryggingakerfisins sem meira einbeitti sér þá að félagslegri aðstoð og örorkulífeyri. Þetta jafnvægi þarf að vera stöðugt til umræðu hjá okkur og þetta frv., eins og það liggur fyrir, skapar ágætan grundvöll fyrir þetta mál. Meginþættir í þessu eru að náðst hefur sátt um málið. Þingflokkur jafnaðarmanna og ég vænti aðrir stjórnarandstæðingar, munu greiða fyrir að málið fái vandaða en hraða afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Meginatriðið er að sjónarmið okkar frá því í vor varðandi uppstokkun og gjörbreytingu bæði á vinnumarkaði og lífeyrissjóðakerfi var tekið til greina, atlögu gegn því hefur verið hrundið og það endurspeglast í þessu frv. að sjónarmið stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar náðu fram að ganga. Fyrst svo er eigum við líka að fagna því frv. sem hér er til umræðu og fagna því að loksins hilli undir heildarlöggjöf um lífeyrismál eftir áratugabil.