Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:00:50 (1341)

1997-11-18 15:00:50# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:00]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að rífast um þessa litlu grein. Ég vek athygli á því að þetta var ekki samningur eingöngu á milli stjórnarflokkanna og aðila á vinnumarkaði. Að þessu kom hópur manna sem hefur um árabil lagt fyrir fjármuni annars staðar en hjá almennu lífeyrissjóðunum og þeir sem komu fyrir þeirra hönd að þessu starfi lögðu mikið á sig til þess að ná þessari málamiðlun og hún hefur mikla þýðingu fyrir þá því að nú er þessum sjóðum skylt að vera með skyldutryggingu sem ekki hefur verið hingað til og ég býst við því að í raun og veru sé það sá hópur sem kannski mest leggur á sig til þess að ná þeirri niðurstöðu sem hér er fengin.

En það var forsenda af hálfu þessara aðila að kerfið þróaðist í ákveðnar brautir sem allir tóku undir að væri æskilegt. Þess vegna segir í lok þessarar greinar: ,,... skal fjármálaráðherra láta, í samráði við hagsmunaaðila, undirbúa frumvarp ...``, þannig að hægt sé að uppfylla markmiðið.``

Sjóðunum er, með öðrum orðum, treyst til þess að gera þetta. En ef svo illa tækist til að markmið laganna næðist ekki, þá hvílir sú skylda á fjmrh., hvort sem sá sem hér stendur verður þá fjmrh. --- ég held að þetta sé ekki fyrr en snemma á næstu öld --- eða einhver annar hafi tekið við af honum, þá ber honum skylda til þess að leggja fram frv. um þetta efni í samráði við hagsmunaaðila.