Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:20:57 (1348)

1997-11-18 15:20:57# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:20]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Við höfum heyrt fróðlegar umræður um málið sem liggur fyrir. Ég fyrir mitt leyti vil gera grein fyrir afstöðu minni vegna þess að hún kom fram á fyrra þingi þegar við ræddum sambærilegt frv. sem ég gerði allnokkrar athugasemdir við.

Ég vil meta að verðleikum það starf sem hefur verið unnið á þeim tíma sem umliðinn er. Verulegar breytingar hafa verið gerðar á frv. Nokkuð víðtæk sátt hefur tekist og ég tel að í þessu frv. sé betra jafnvægi skapað með ákvæðum frv. um rétt og stöðu hinna ýmsu aðila sem bjóða þeim aðilum ávöxtun sem vilja spara til lífeyris. Ég vil þó gera grein fyrir því sjónarmiði mínu að ég tel að við séum ekki að fjalla um einhverja aðila sem eru aðgreindir frá öðrum á fjármálamarkaði. Ég er til að mynda gjörsamlega ósammála hv. þm. Svavari Gestssyni sem sagði sem svo að einhverjir aðrir aðilar sem ávaxta sparifé landsmanna væru með þá fjármuni í braski.

Ég verð að viðurkenna að ég tel ekki að bankar landsmanna ástundi yfirleitt brask og mér sýnist, ef við lítum á ávöxtunarárangur hinna ýmsu verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja, að mörg þeirra hafi náð betri endurheimtu og betri ávöxtun en margir hinna eldri lífeyrissjóða og jafnvel þótt einungis sé miðað við sama tímabil.

Ég hygg að við séum öll sammála um mikilvægi lífeyristrygginga og sparnaðar einstaklinganna sjálfra sem vilja vera ábyrgir með sínum eigin hætti og sínum eigin aðgerðum fyrir efnahag sínum þegar líður að ævikvöldi og starfsævi er lokið.

Við undirgengumst það fyrir allnokkrum árum í flestum stéttarfélögum landsmanna að viðhafa sameiginlega tryggingu lífeyrisréttinda. Með frumkvæði launþegasamtakanna á þeim tíma var farið út í algjört nýmæli á Íslandi og ég hygg að það sé rétt sem hermt er í greinargerð með frv. að ýmsar grannþjóðir okkar hafi tekið þetta tiltæki íslenskra launþegasamtaka sér til fyrirmyndar, einkum nú síðari árin þegar það er að reynast hafa verið góð hugmynd. En það er rétt að geta þess að alllangan tíma var fjármálamarkaði landsmanna þannig varið að öll ávöxtun reyndist vera neikvæð, hvort sem talað var um lífeyrissparnað eða það fé sem ávaxtað var í bönkum eða öðrum sjóðum og það tímabil varð til þess að hér festi rætur alvarleg vantrú á sparnaði yfirleitt.

Ég tek undir mikilvægi lífeyristryggingar og vil virða og meta skoðanir þeirra launþegasamtaka sem hafa haft uppi þá sannfæringu og skoðun að samtrygging þessara réttinda sé jafnmikilvæg. Hins vegar er ég líka þeirrar skoðunar að við eigum að viðhalda og tryggja valfrelsi, til að mynda að meta þannig að lífeyrissjóðirnir, sem við höfum oft kallað lögbundna og verða nú ekki lengur hinir einu lögbundnu lífeyrissjóðir, en hinir eldri lífeyrissjóðir sem urðu um tíma lögbundnir náðu aldrei að bjóða öllum landsmönnum lífeyristryggingar. Fjölmargir og fjölmennir hópar urðu að leita sér leiða til að ávaxta lífeyrissparnað sinn með öðrum hætti utan þessara sjóða án þess að fá þar aðgang. Þeir sem buðu þeim hópum sparnaðarleið náðu betri árangri á nokkrum umliðnum árum. Þeir hafa til að mynda orðið fyrir alvarlegri gagnrýni og misskilningi við umræðu á hinu háa Alþingi á sl. vetri og vori þegar þeir voru gagnrýndir fyrir að vilja tryggja aðeins hluta af sínu ævikvöldi og geta síðan leitað fjár á sameiginlegri tryggingu annarra sem ég tel að sé alvarlegur misskilningur og gagnrýni á misskilningi byggð.

Ég tel mikilvægt, herra forseti, að valfrelsi einstaklinga sem vilja tryggja lífeyri sinn og þeirra aðila sem bjóða þeim þær leiðir verði tryggt. Það er betur tryggt í þessu frv. en hinu fyrra en samt sem áður er það enn svo að aðrir aðilar en beinir lífeyrissjóðir hafa ekki sama rétt til að ávaxta lífeyrissparnað þó að þeir hafi sýnt og sannað að þeir séu með jafngóðan árangur og jafnvel betri í ávöxtun sparnaðar yfirleitt og geti vegna stjórnar sinnar og eftirlits fyllilega annað því og sinnt því að ávaxta lífeyrissparnað þeirra sem við þá vilja skipta. Hér á ég við banka og sparisjóði, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög. Það er ekki gert ráð fyrir því að þessir aðilar, sem eru ekki lífeyrissjóðir, fái sama rétt til að stunda ávöxtun þessa sparnaðar. Ég hefði gjarnan viljað sjá þeirra stöðu jafnsterka og hinna, þ.e. lífeyrissjóðanna.

Ég er sammála því sem fram hefur komið að ákvæðin um lágmarkstryggingavernd eru mikilvæg og gefa möguleika á því að þróa í framtíðinni þá löggjöf sem hér er hafið máls á með þessu frv. og væntanlega gefur það þann kost í framtíðinni að tryggja réttarstöðu og jafna stöðu hinna ýmsu sparnaðarforma. Þó verð ég að hafa þann fyrirvara við ákvæðið um skylduaðild sem kemur fram í 2. gr. frv. að ég tel að það sem þar er kveðið á um kjarasamninga geti stangast á við það sem við höfum oft kallað neikvæðan félagsrétt. Við verðum að viðurkenna að það er svo með réttu að mörg stéttarfélög gera kjarasamning fyrir einstaklinga sem eru ekki félagsmenn, ýmist vegna þess að þeir hafa hafnað þeim möguleika eða félögin veita þeim hann ekki. Mér finnst ekki með öllu réttmætt, herra forseti, að það sama eigi að gilda um lífeyrissparnað þeirra einstaklinga, þeir verði skyldaðir til að setja fé í og ávaxta það í sjóði sem þeir hafa eingöngu þá aðild að og enga aðra, fá ekkert um stjórn að segja, fá ekkert um árangur að meta. Þar kem ég að öðru atriði sem ég vil gera að áhersluefni í máli mínu. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að sjóðfélagar, sem eru einu raunverulegu eigendur þessa sparifjár, eigi rétt til þess að velja sjóðunum stjórn sem þeir eiga aðild að og fái þannig að fjalla um árangur, um stjórn og stefnu sjóðsins sem þeir eiga. Þeir eiga sitt ævikvöld og sinn hag þegar starfsævi er lokið undir frammistöðu þeirra sem stjórna þessum sjóði. Þeir sem stjórna þessum sjóði eiga hann kannski undir einhverjum enn öðrum sjóði og alltént er sú staða uppi í dag.

Ég tel eðlilegt, herra forseti, að úr þeim ákvæðum sem eru í frv. um fjárfestingarstefnu verði dregin nokkur atriði sem ég tel að geti, með því að takmarka rétt stjórnenda sjóðanna til að ákveða fjárfestingar og velja um ávöxtunarleiðir, valdið því að þeir ná ekki bestum árangri vegna þess að þeim er ekki heimilað að velja þá bestu. Ég skil ekki hvers vegna við eigum að gera menn ábyrga en síðan að neita þeim um að fara eftir sinni ákvörðun og velja og ákveða að sínu eigin mati. Mér finnst það ekki í samræmi við það að gera menn ábyrga fyrir árangri eða frammistöðu.

Ég er sannfærður um að margir stjórnendur þessara sjóða geta vel hugsað sér að vera að öllu leyti ábyrgir fyrir ávöxtunarstefnu þeirra og fjárfestingarstefnu og að sjóðfélagarnir meti rétt eins og aðrir hvernig frammistaða þeirra er. Hins vegar tel ég nauðsynlegt, herra forseti, að lífeyrissjóðir af öllu tagi verði að sæta eftirliti, ekki eingöngu bankaeftirlits, heldur einnig eftirlits út frá tryggingafræðilegum forsendum þannig að tryggingafræðilegar skuldbindingar þeirra verði metnar á hverjum tíma. Þannig tel ég að þessir aðilar eigi að sæta eftirliti út frá fleiri sjónarhornum heldur en bankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki sem ekki ávaxta lífeyrissparnað, sem ekki stunda ávöxtun sparnaðar sem er lagður fyrir á tryggingalegum forsendum.

Ég tel líka, herra forseti, þegar við metum hina skattalegu hlið þessara mála, að við eigum að endurskoða í framtíðinni í kjölfarið á þessu máli skattalega stöðu nokkurra frjálsra lífeyrissjóða sem svo eru nefndir í dag, sem fólk leggur lífeyrissparnað sinn í en fær ekki frádreginn frá skattskyldum tekjum á þeim tíma, en þess eru dæmi þegar það fólk tekur út þennan sparnað að hann verði skattskyldur sem tekjur. Þetta eru fingurbrjótar í löggjöf sem við eigum að leita uppi og afnema.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja aftur áherslu á þau atriði sem ég hef nefnt. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að veita þeim sem ávaxta lífeyrissparnað landsmanna strangt eftirlit út frá tryggingafræðilegum forsendum og forsendum bankaeftirlitsins þar sem þeir ávaxta almennan sparnað. Ég tel að valfrelsi bæði þeirra sem spara og hinna sem bjóða sparnaðarleiðir fyrir lífeyrissparnað þurfi að vera opið og að þar skuli ekki gera upp á milli aðila eftir því hvort þeir heita lífeyrissjóðir eða eitthvað annað. Ég tel að þar þurfi að styrkja rétt þeirra sem eru ekki lífeyrissjóðir í dag en hafa samt sem áður fulla getu til að ávaxta sparnað. Ég tel að bein aðild sjóðfélaga að stjórnun, stefnumótun og mati á árangri og frammistöðu sé nauðsynleg og það sé einungis í samræmi við hina raunverulegu og endanlegu ábyrgð sjóðfélaganna sem eiga undir þessari frammistöðu.

Ég tel, herra forseti, að við þurfum að breyta nokkrum atriðum. Ég er ekki alveg viss um að ég muni bera fram tillögur um þessi efni. Mér er kunnugt um að það mun koma fram tillaga um beina aðild sjóðfélaga að stjórnarkjöri og ég mun taka þátt í að fylgja þeirri tillögu fram með mínu atkvæði. Þó að ég hafi fyrirvara við ákvæði 2. gr. um stöðu kjarasamninga er ég ekki endanlega viss hvort ég greiði henni mótatkvæði eða hvort ég muni sitja hjá. En ég er smeykur um að þar séum við að brjóta í bága við skuldbindingar sem við höfum undirgengist og við köllum neikvæðan félagsrétt, réttindi til að hafna aðild.