Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:51:46 (1351)

1997-11-18 15:51:46# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:51]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. var tíðrætt um harmleiki fortíðarinnar og hvernig þeir hefðu orðið til þess að efla lífeyrissjóðina, ef ég skildi hann rétt, með háum vöxtum og fleiru. Ég lít svo á að með þessu frv. og þeirri stefnu sem hér er verið að framfylgja sé verið að koma í veg fyrir harmleiki framtíðarinnar. Það er ekki rétt sem fram kom hjá hv. þm. að þetta frv. sé ekki í samhengi við almannatryggingakerfið því það er alveg ljóst að því meir og betur sem lífeyriskerfið virkar og fleiri fá hærri upphæðir greiddar úr lífeyrissjóðunum því minna verður álagið á almannatryggingakerfið. Það er þannig í dag, eins og hv. þm. veit, að lífeyrisgreiðslur valda nú þegar töluverðum skerðingum í almannatryggingakerfinu þannig að menn eru auðvitað að reyna að stilla þessu saman þó ég sé reyndar þeirrar skoðunar að gengið hafi verið fulllangt í skerðingum. Við hljótum að hugsa um það, hv. þm., á hverju fólk eigi að lifa. Það er hlutverk samfélagsins og tryggt í stjórnarskrá að koma eigi fólki til aðstoðar sem ekki getur séð fyrir sér sjálft. Þess vegna er það hlutverk ríkisvaldsins, að mínum dómi --- það má svo sem deila um skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga hvað þetta varðar --- en þarna á að koma til aðstoðar og ekki er hægt að refsa fólki fyrir það að hafa ekki greitt í lífeyrissjóði strax upp úr 1980. Þá voru aðrar aðstæður og eflaust margt sem olli því að ákveðinn hópur greiddi ekki í lífeyrissjóðina.

Það var fleira í máli hv. þm. sem ég hefði viljað koma inn á eins og það sem lýtur að stjórn. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að auðvitað eiga sjóðfélagar að eiga sem beinasta aðild að því að kjósa í stjórn. En það hlýtur að vera ákvörðun hvers sjóðs og félaga hans (Forseti hringir.) hvernig staðið er að stjórnarkjöri. Þetta eru sjálfstæðir sjóðir.